Sigurður Unnar Haukson er eitt mest efni sem komið hefur fram í íþróttagreininni „Skeet“ eða leirdúfuskotfimi. Greinin nýtur mikilla vinsælda út um allan heim og Sigurður Unnar er talinn eiga góða möguleika á því að komast í fremstu röð í heiminum innan fárra ára. Það kostar hins vegar þrotlausar æfingar og því fylgir mikill kostnaður, ferðalög og vinnutap. Hann er þess vegna háður því að ná í góða styrktaraðila til að ná markmiðum sínum. Víkurblaðið tók þennan unga og metnaðarfulla Húsvíking tali á dögunum þegar hann var rétt kominn úr flugi frá Kýpur þar sem hann hafði verið að keppa á sterku móti.

Sigurður Unnar hefur verið að leggja harðar og harðar að sér til að ná árangri í íþróttagrein sinni undanfarin misseri. Það hefur hann gert meðfram fullu námi en hann útskrifaðist með B.S.c í  tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík í febrúar og er að skrifa lokaritgerð í viðskiptafræði sem hann klárar í maí á þessu ári.

Sigurður Unnar hefur reyndar ekki langt að sækja hæfileikana en faðir hans er Haukur Eiðsson sem er þekktur um allar sveitir fyrir leikni sína með haglabyssuna. Þá var Eiður afi hans með betri skyttum á sínum yngri árum.

Þegar Víkurblaðið náði tali af Sigurði Unnari sat hann sem farþegi í bíl systur sinnar á leið frá Keflavíkurflugvelli. Hann var að koma frá Kýpur eftir að hafa lokið keppni á hinu árlega Grand Prix móti í skeet. Þetta er með sterkustu mótum í greininni ár hvert.

Sigurður náði alls 117 stigum á mótinu og hafnaði í 22.sæti af 106 keppendum sem er frábær árangur. Fyrri daginn skaut hann 68 stig (23 23 22) og síðari daginn 49 stig (24 25).

Sigurður Unnar  er búinn að vera í stífum æfingabúðum undanfarnar vikur og endaði prógrammið með þessu móti. Þjálfari Sigurðar, Peeter Pakk, er búinn að vera með honum allan tímann ásamt æfingafélaga hans, Reino Velleste frá Eistlandi, sem varð jafn honum að stigum í mótinu. Sigurður Unnar þykir eitt mesta efni sem komið  hefur fram í greininni hér á landi og stefnir ótrauður á að verða í fremstu röð í heiminum.

Sigurður Unnar Hauksson er meðal efnilegustu skotmanna í heiminum. Mynd/aðsend

Sigurður byrjaði ungur að skjóta leirdúfur eða um 15-16 ára. „Ég hef verið að gera þetta af alvöru síðustu fimm árin og sérstaklega þetta ár af fullum krafti. Það er nóg að gera, ef ég er ekki að skjóta þá er ég að læra,“ segir hann.

Víkurblaðið ræddi við fleiri skotíþóttamenn til að forvitnast um hversu góður drengurinn væri raunverulega. Allir voru þeir á einu máli um það að Sigurður Unnar byggi yfir miklum hæfileikum frá náttúrunnar hendi. Og hann þyrfti í raun ekki að bæta sig mikið í tækni. Það fylgir því hins vegar mikið álag að keppa á stórmótum og því miðast æfingar að miklu leiti að því að undirbúa sig andlega.

„Til dæmis síðasta sumar þá æfði ég 4-5 daga vikunnar ef veður leyfði, jafnvel sex. Hver æfing tekur 2 – 3 klst. Ég hef verið að leggja mikið á mig,“ segir Sigurðu Unnar en hann hefur farið í fjölda æfinga og keppnisferða undanfarin ár.  Ég var að koma heim núna frá Kýpur og ég var í Malaga á Spáni í síðasta mánuði í æfingabúðum í tvær vikur og það voru alþjóðleg mót  á báðum þessum stöðum. Svo mun ég fara til Mexíkó 15. mars, sem er fyrsta alvöru mótið á árinu en um er að ræða heimsbikarmót. Ég mun fljúga til Spánar næsta mánudag og vera í æfingabúðum í 10 daga fyrir þetta mót. Þar er ég að vinna með þjálfara mínum, Eistanum Peeter Pakk og æfingafélaga mínum sem er einnig frá Eistlandi. Við erum á svipuðum aldri og á svipuðu „leveli“, útskýrir hann og bendir á að það sé afar mikils virði að æfa með öðrum sem er í svipuðum gæðaflokki og hann sjálfur. Þeir hjálpist að við að ná fram því besta í hvorum öðrum. Hann viðurkennir líka að það sé smá samkeppni á milli þeirra en það sé bara hollt. „Það setur smá auka pressu á mann að standa sig,“ segir hann og hlær.

Sigurður Unnar kom mjög ungur inn í sportið og var því lengi vel aðallega að keppa við aðra íþróttamenn sem voru bæði mun eldri og reynslumeiri en hann veitti þeim fljótt harða keppni og fór svo að taka fram úr þeim einum af öðrum. „Við erum þrír í landsliðinu og hinir tveir eru mun eldri en ég, annar fertugur og hinn er 44 ára.“

Þjálfari Sigurðar Unnars er ekki af verri endanum en hann var áður í fremstu röð og keppti fyrir Sovétríkin sálugu áður en hann fór að einbeita sér að þjálfun eingöngu. Það er hins vegar til marks um það hvað það er dýrt að ná árangri í íþróttum að Sigurður Unnar þarf sjálfur að standa straum af kostnaði við þjálfarann. „Ég borga honum bara laun en það kostar talsvert mikið, einhverjar 175 evrur á dag, eða um 23 þúsund íslenskar krónur. Hann er með mér á öllum æfingum og flýgur með mér á öll mót,“ útskýrir hann.

Sigurður Unnar býr yfir mörgum kostum umfram aðra í íþróttinni en sjálfur dregur hann fram hvað hann eigi auðvelt með að halda sér rólegum, það sé lykilatriði. Hann dreymir um að komast á Ólympíuleikana í Tókíó árið 2020 en samkeppnin er hörð. „Það er auðvita alltaf markmiðið að komast á leikana, en það eru 32 skotmenn í heiminum sem fá að fara og þar af eru aðeins 12 frá Evrópu. Þjálfarinn minn hefur  verið að hjálpa mér með það að vera ekki að hugsa um hvað ég er að fara að gera á móti langt fram í tímann. Þess vegna hugsa ég núna bara um mótið sem er í mars, einbeiti mér að því og spái ekkert í næstu mót.“

Eins og nærri má geta er þessi vegferð afar kostnaðarsöm eins  og líklega allar íþróttagreinar á afreksstigi. „Ég er byrjaður að vinna í því að finna mér styrktaraðila en hingað til hafa foreldrar mínir verið mínir verið í því hlutverki,“ segir Sigurður unnar og bætir við að gæti aldrei staðið í þessu án þeirra. „Mótsgjöldin eru til dæmis mjög há en  Skotsamband Íslands borga mótsgjöldin fyrir mig og flug á þeim mótum sem ég fer á fyrir þeirra hönd. Ég er samt búinn að ákveða að fara á öll næstu mót hvort sem sambandið muni borga það fyrir mig eða ekki. Ég er byrjaður að leita til fyrirtækja í sambandi við styrki en það hjálpar ekkert að sportið hefur ekki verið að fá mikla athygli fjölmiðla eða almennings á Íslandi,“ útskýrir hann.

Sigurður Unnar er í dag númer 95 á heimslistanum og sjálfur telur hann vera raunhæfa möguleika á að komast í topp 40 í heiminum innan skamms. „Þjálfari minn er einnig jákvæður fyrir því. Mig langar að það gerist sem fyrst og vonandi á þessu ári. En ég má eiginlega ekki hugsa svo langt, heldur einbeita mér að næsta móti. Ég er mjög sjálfsöruggur núna og ef maður leggur á sig þá uppsker maður eftir því.“

Aðspurður segir Sigurður Unnar að fyrirtæki taki honum yfirleitt vel þegar hann sé að leita styrkja en hann sé þó bara nýbyrjaður að bera sig eftir því. „Hingað til þá hef ég reyndar ekki sóst mikið eftir því að fá styrki en ég hef fengið 2 – 3 styrki hjá Norðurþingi. En ég hef ekki verið nógu duglegur að sækjast eftir þeim. Sérstaklega á þessu ári þá er bara svo mikið að gera að það er ekki mikill tími aflögu en mig langar þó bara að vera að gera þetta og þess vegna er mikilvægt fyrir mig að fá þessa styrki.

Hann hefur þegar náð góðum árangri bæði erlendis og hér á landi. „Ég var á Heimsmeistaramóti unglinga 2014 og þá endaði ég nr. 16. Það er alveg mjög fínn árangur. En árið 2016 þá varð ég í 20. sæti á Evrópumeistaramótinu og í mínum huga var það mikill sigur fyrir mig. Þá varð ég Íslandsmeistari í fyrra og 2016 en mér fannst það minni sigrar því maður er meira að spá í hvað gerist erlendis,“ sagði þessi ungi og efnilegi íþróttamaður frá Húsavík.

Smelltu hér til að styrkja Víkurblaðið


Fróðleikur um SKEET

Upphafið að SKEET má rekja til Bandaríkjanna árið 1920. Í bænum Andover í Massachusetts æfði hópur veiðifélaga sig í að skjóta á leirdiska úr heimasmíðuðum kastara. Æfingar þessar þróuðust í keppni þar sem þeir skutu á diskana frá mörgum sjónarhornum til að auka fjölbreytni.

Fyrsti skipulagði völlurinn var hringur með 25 m. radíus, kastarinn var kl. tólf og kastaði diskunum á kl. sex. Pallarnir (skotstaðirnir) voru þrettán, tólf í hringnum þar sem skotið tveim skotum frá hverjum palli á stakar dúfur og einu skoti var skotið frá miðju hringsins, sá pallur hefur síðan þróast í pall átta. Að skjóta sólarganginn eins og þessi skotfimi var upphaflega kölluð, hafði flesta þá kosti sem prýðir nútíma SKEET, og væri jafnvel enn í dag skotið á þennan hátt, ef ekki hefði komið til sögunnar kjúklingabóndi, sem ákvað að setja upp hænsnahús í nágrenni vallarins.Kvartaði hann sáran undan hávaða og kenndi skothvellunum um hve hænurnar verptu lítið.

Skotmennirnir sýndu bóndanum hina mestu tillitsemi, minnkuðu völlinn um helming og settu annan kastara kl. 6. Og kastaði hann á móti hinum kastaranum. Við þessar breytingar minkaði hættusvæðið þrátt fyrir að skotmaðurinn ætti við svipuð vandamál að glíma.

Vinsældir vallarins urðu miklar hjá skotmönnum í Andover og ákvað því einn af þessum frumkvöðlum, William H. Foster að þróa þessa nýju skotgrein til að hún myndi henta betur til keppni. Hann bætti því við að á pöllum tvö, þrjú, fimm og sex skyldi vera skotið á diska úr báðum kösturum samtímis (e. double). Eftir að hafa samið reglur um hegðun skotmanna ávellinum, hófst Foster handa við að kynna greinina hjá skotfélögum í nágrenninu.

Það var síðan í febrúar 1926 í blöðunum National Sportsman og Hunting and Fishing voru boðnir 100 dollarar í verðlaun fyrir nafn á þessa nýju íþrótt og af um 10.000 innsendum tillögum bar frú Gertrude Hurlbutt frá Dayton í Montana sigur úr býtum með nafnið SKEET, sem á fornri skandinavísku þýddi „skjóttu“.

Nú ríflega sjötíu árum síðar er pallatilhögun sú sama og eftir breytingarnar sem Foster og félagar gerðu vegna hænsnanna og síðan hefur ekki þótt ástæða til að hrófla við þeirri breytingu.

Heimild: Skotveiðifélag Reykjavíkur