Örlygur Hnefill Örlygsson og Rafnar Orri Gunnarson eru um þessar mundir í sinni annarri ferð um Bandaríkin við tökur á heimildamyndinni Af jörðu ertu kominn (e. Cosmic Birth). Auk þeirra kemur Friðrik Sigurðsson að framleiðslu myndarinnar en hann sér um sölu- og markaðsmál. Víkurblaðið sló á þráðinn til þeirra á þriðjudag þar sem Örlygur var fyrir svörum.

Myndin verður frumsýnd í Bíó Paradís og samhliða í sjónvarpi þann 20. júlí 2019, þegar 50 ár verða frá fyrsta skrefi Neil Armstrong á tunglinu. „Í framhaldi fer myndin í sýningu á sjónvarpsstöðvum um Evrópu og víðar,“ segir Örlygur sem staddur var í Kaliforníu þar sem hann ræddi m.a. við Bill Anders sem fór fyrstur manna hringinn í kringum tunglið og  Rory Kennedy, bróðurdóttur John F. Kennedy.

Örlygur og Rafnar hafa gengið með hugmyndina að myndinni í maganum síðan þeir byrjuðu að ræða hana árið 2009. „Það var svo árið 2014 að við keyptum okkur flakkara saman og fórum að safna efni fyrir þessa mynd. Þá fór boltinn að rúlla.“

Myndin fjallar í grunninn um ferðalag mannkyns til tunglsins. „En í raun er hún meira um jörðina. „We went to the Moon, but discovered the Earth,“ segja flestir viðmælendur okkar sem hafa séð jörðina utan frá. Það eru átta ár síðan ég kynntist fyrsta manninum sem fór til tunglsins en á þeim tíma er ég búinn að átta mig á að það skilur svo mikið eftir sig fyrir þá að hafa farið til tunglsins en uppgötvað jörðina. Það var miklu sterkari upplifun fyrir þá alla að vera þarna uppi og horfa niður á jörðina heldur en að vera með tunglið undir fótum sér. Sú staðreynd hefur heillað mig alla tíð síðan,“ útskýrir Örlygur.

Örlygur hefur í gegnum tíðina kynnst fjölda tunglfara og aðstandendum þeirra og hann segir þetta vera samnefnara á milli þeirra allra. „NASA var ekkert að hugsa um jörðina þegar fyrst var farið að senda fólk til tunglsins,  það var bara verið að  hugsa um tunglið. það var aldrei inni í upphaflegu plönunum að mynda jörðina og geimfararnir voru ekki undirbúnir fyrir það en það var sterkasta upplifunin fyrir þá alla þarna uppi; að horfa á jörðina. Myndirnar sem geimfararnir tóku frá tunglinu af heimili okkar jörðinni sýndu okkur í fyrsta sinn hversu lítil og viðkvæm við erum í stóra samhenginu. Þessar myndir voru eiginlega það sem kom umhverfisvakningunni af stað upp úr 1970.“

Örlygur og Rafnar Orri eru búnir að þræða nokkur ríki Bandaríkjanna á skömmum tíma en þeir hafa verið við tökur í New York, Denver í Colorado, Oklahoma, Kaliforníu og Flórída. „Við komum heim í kringum næstu helgi. Við bókum okkur bara í flug frá einum stað til annars og reynum að ná sem mestu á hverjum stað. Ég hugsa að í vikulokin förum við að vera saddir og þá förum við að drífa okkur heim, fjárhagurinn er líka orðinn slakur hjá okkur,“ segir Örlygur og hlær.

Titill myndarinnar Af jörðu ertu kominn (e. Cosmic Birth) er innblásinn af ummælum eins viðmælanda myndarinnar. „Það er þannig að þegar maður verður til í móðurkviði þá er maður algjörlega háður móður sinni með allt í sínu lífi en ástin verður ekki til fyrr en maður kemur út,“ hefur Örlygur eftir honum. „Þetta þótti mér svo fallegt, því þetta er eins með okkur, að við búum á jörðinni en lærum ekki að meta hana fyrr en við horfum á hana utan frá. Þá fyrst skiljum við hana.“