Laugardaginn 25. maí sl. voru 17 nemendur útskrifaðir frá Framhaldsskólanum á Húsavík, 15 stúdentar, 1 af almennri braut og 1 af starfsbraut.

Frá þessu segir á vef skólans.

Nýstúdentar sáu um tónlistaratriðin og fluttu Harpa Ólafsdóttir og Viktor Freyr Aðalsteinsson þrjú lög við frábærar undirtektir.

Hátíðarræður fluttu Valgerður Gunnarsdóttir skólameistari, Halldór Jón Gíslason aðstoðarskólameistari, Guðrún María Erludóttir og Karólína Hildur Hauksdóttir nýstúdentar, Snædís Birna Björnsdóttir fyrir hönd 10 ára stúdenta og Ásbjörn Kristinsson fyrir hönd 25 ára stúdenta.

22 fyrirtæki og samtök komu að því að veita nemendum gjafir fyrir góðan námsárangur og félagsstörf. Davíð Atli Gunnarsson útskrifaðist með hæstu meðaleinkunn á stúdentsprófi, 9,38. Fyrir það hlaut hann bókagjöf frá Pennanum og gjafabréf frá Þekkingarneti Þingeyinga.

Rætt verður við nýstúdenta frá FSH og Laugaskóla í Víkurblaðinu #14 sem kemur út í næstu viku. Halldóra Kristín Bjarnadóttir ljósmyndari tók myndirnar með fréttinni.

Davíð Atli Gunnarsson. Ljósmynd: HKB