Ráðstefnan alls konar störf fyrir alls konar fólk, var haldin fimmtudaginn 16. maí síðast liðinn. Hlutverk – samtök um vinnu og verkþjálfun og málefnahópur ÖBÍ um atvinnumál, stóðu sameiginlega að ráðstefnunni.

Fjallað var um atvinnumál fólks með skerta starfsgetu, rýnt í framtíðina, hvað er að gerast núna, samfélagslega ábyrgð, hið opinbera og atvinnulífið.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra setti ráðstefnuna með ávarpi, Húsvíkingurinn Sveinbjörn Ingi Grímsson sérfræðingur í framtíðarfræðum hjá KPMG horfði til framtíðar, rætt var um inngildan vinnumarkað, að fjölbreytileikinn búi til góðan vinnustað, sýn atvinnurekanda var rædd, mikilvægi hlutastarfa fyrir fólk með skerta starfsgetu og framtíðarsýn í atvinnumálum og ýmislegt fleira en upptöku frá ráðstefnunni er hægt að nálgast á heimasíðu Öryrkjabandalagsins.

Allir með hlutverk

Sigríður Hauksdóttir verkefnastjóri virkni hjá Norðurþingi var með erindi: Allir með hlutverk og sagði þar frá starfi Miðjunnar virknimiðstöðvar sem er hæfing, frístund, geðrækt og þar er atvinna með stuðningi veitt.

Unnið er eftir þjónandi leiðsögn og er valdefling höfð að leiðarljósi í Miðjunni. Þar er starfsemi alla virka daga frá 8:00 – 16:00 en auk þess eru ýmsir viðburðir utan hefðbundins vinnutíma. Miðjan tók til starfa 17. október árið 2008 en formleg opnun var 3. desember á alþjóðlegum degi fatlaðra.

Sigríður Hauksdóttir stýrir Zumba á góðum degi, myndir: aðsendar

Í Miðjunni eru um 60 starfsmenn á aldrinum 10 ára og eldri og fer þeim fjölgandi.

Unnin eru ýmis konar verkefni, þjálfun fer fram í athöfnum daglegs lífs, handverk er unnið í samstarfi við Þekkingarnet Þingeyinga og jólamarkaður haldinn árlega ásamt ýmsum öðrum viðburðum, fjölbreytt námskeið eru haldin í samstarfi við Þekkingarnet Þingeyinga t.d. tengd listum og handverki, fræðslu af ýmsu tagi, íþróttum, atvinnu og alls konar öðru sem starfsfólki kann að detta í hug hverju sinni. Þá koma inn fagmenn á hverju sviði fyrir sig sem vinna með starfsfólki Miðjunnar sem og fyrirtæki og ýmis félög eins og íþróttafélagið Völsungur, Hestamannafélagið Grani o.fl.

Atvinna og nám

Atvinna með stuðningi fer fram í gegnum Miðjuna í samstarfi við Vinnumálastofnun og Framhaldsskólann á Húsavík. Þar er fólk ýmist í framtíðarstörfum eða í sumarstörfum þegar sumarfrí er í skólum. Atvinnumöguleikar eru góðir og fá menn oftast þá vinnu sem þeir sækja um. Miðjan tekur þátt í Fyrirmyndardeginum þar sem einstaklingar fá tækifæri til að kynnast Alls konar störf fyrir alls konar fólk störfum sem þá langar að kynnast betur.

Miðjan í samstarfi við deildarstjóra starfsbrautar í FSH heldur utan um starfsnám og fylgir nemendum í það inn í fjölmörg fyrirtæki í bænum, starfsbraut er fjögur ár og á þriðja og fjórða ári fara nemendur inn á fjölmarga vinnustaði í starfsnám. Markmiðið með þessu námi er að nemendur, starfsfólk og fyrirtæki sjái styrkleika og veikleika einstaklinga með framtíðar starfsmöguleika í huga. Um 20 einstaklingar eru í atvinnu með stuðningi í framtíðarstörfum og um 20 ungmenni koma inn í sumarstörf ár hvert. Oftast er um hlutastörf að ræða eða 50% og þar undir. Það eru fjölmörg fyrirtæki sem eru með samninga við Vinnumálastofnun í atvinnu með stuðningi en það þýðir að greitt er með launum 75% á ári fyrstu tvö árin og svo lækkar sú tala um 10% ár hvert þar til hún fer niður í 25% en aldrei undir það. Fyrirtæki sem eru með slíka samninga eru Norðlenska, Leikskólinn Grænuvellir, Miðjan, HSN, Salka, Heimabakarí, Húsasmiðjan, Fatahreinsunin, Nettó, Eimskip, Ísfell, Norðurþing og fleiri hafa verið með. Einstaklingur þarf að hafa náð 18 ára aldri og vera með örorkumat til að fara í atvinnu með stuðningi. Á alþjóðadegi fatlaðra sem er 3. desember hefur Miðjan veitt þakklætisvott til fyrirtækja, einstaklinga og félagasamtaka sem hafa stutt við bakið á starfinu.

List án landamæra

Miðjan tekur þátt í List án landamæra og þar er fjölbreytt dagskrá yfir árið og samstarf við fjölbreyttan hóp bæjarbúa, listamenn, skólafólk, félagasamtök, fyrirtæki og aðra sem ýmist sækjast eftir samstarfi eða Miðjan hefur áhuga á að vinna með. Í tengslum við það hafa verið settar upp leiksýningar, söng- og danssýningar, skúlptúrar í samstarfi við söfn í bænum, þátttaka í Mærudögum sem er bæjarhátíð Húsavíkur o.fl.

Olli og Halla Rún á sviði

Námskeið eru fjölmörg á hverju ári í samstarfi við Þekkingarnet Þingeyinga. Á þessari önn eru t.d. í gangi námskeið í steypuvinnu, kvikmyndagerð og myndlist og Pálmar Ragnarsson kom nýverið í heimsókn með fyrirlestur um jákvæð samskipti. Sumarið er skemmtilegt og þá fara ungmennin í ýmis konar skemmtileg störf í samstarfi við vinnustaði í bænum, grillveisla er haldin fyrir aðstandendur, við gerum vart við okkur í bænum með einum eða öðrum hætti og förum í alls konar ferðir.

Jólamarkaður er haldin í lok nóvember hvert ár og fer undirbúningur fram yfir allt árið. Bæjarbúar sýna markaðnum mikinn áhuga og mikil og góð mæting er á markaðinn. Þar er hægt að kaupa allt milli himins og jarðar, jólaskraut, jólagotterí, fallegar jólagjafir og margt annað brúklegt. Nú eru uppi hugmyndir um enn þá stærri markað í samstarfi við aðra sem er spennandi verkefni.

Lagt er upp með að vinna fjölbreytt, spennandi og ný verkefni í Miðjunni sem henta starfsmönnum og áhugasviði þeirra hverju sinni. Starfsmenn eru mjög nýjungagjarnir og reyna alltaf að vera að vinna ný og skemmtileg verkefni. Iðjuþjálfi og sérkennari eru starfandi í Miðjunni ásamt félagsliðum, tómstundafræðingi, kennara, fólki með sálfræðimenntun o.fl. Á milli verkefna gera menn sér glaðan dag með ýmis konar samkomum og viðburðum þar sem aðstandendum og bæjarbúum er boðið að taka þátt.

Jólamarkaður Miðjunnar er mjög vinsæll en undirbúningur fyrir hann stendur yfir allt árið.

Eftir jólamarkað höldum við litlu jólin okkar og á þorranum blótum við vel og hressilega.

Húsavíkurfestival er skemmtun fyrir fólk með fatlanir á Norðurlandi eða allt frá Hvammstanga og austur á Egilsstaði. Festivalið hefur verið haldið í ein 25 ár og þar er borðaður góður matur, spilað, leikið og dansað og alltaf mikið fjör.

Gott samstarf er við öll skólastig, Þekkingarnet Þingeyinga, vinnustaði í bænum og bæjarbúa hvort heldur sem er í gegnum List án landamæra, sumarstarfið eða jólamarkaðinn.

Miðjan nýtur góðs af ýmsu sem bæjarbúar leggja til t.d. með styrkjum og fleiru. Miðjan lætur líka gott af sér leiða þegar hún getur og kom t.d. af stað pokastöðvum með fjölnotapokum í verslunum í bænum, Boomerang bags  á Íslandi.

Sérsniðið húsnæði í framtíðinni

Miðjan er staðsett í leiguhúsnæði sem ekki er sérsniðið að þörfum starfseminnar. Hvað framtíðina varðar sjáum við fyrir okkur nýtt og betra framtíðarhúsnæði sem er sérsniðið að þörfum starfsemi Miðjunnar. Við sjáum fyrir okkur að halda áfram að vinna fjölbreytt og skemmtileg verkefni og vera í góðu samstarfi við samfélagið líkt og verið hefur. Við sjáum fyrir okkur ört stækkandi hóp ungmenna í starfinu okkar og þróun á starfinu því samhliða.

Við erum mjög þakklát fyrir það góða samstarf sem við höfum átt við einstaklinga, fyrirtæki og félagasamtök í bænum og það er von okkar að það muni aukast enn frekar á komandi árum hvort heldur sem er í gegnum menningarstarfið eða enn fleiri samninga í atvinnu með stuðningi og auknum fjölda hlutastarfa. Einkunnarorð Miðjunnar eru virðing, vinátta, vellíðan.

Sigríður Hauksdóttir, verkefnastjóri – Virkni