Guðrún Lilja Dam Guðrúnardóttir og Brynjar Þór Vigfússon eru ung hjón sem grípa tækifærin þegar þau gefast. Það gafst fyrr skemmstu þegar þau fluttust að Gilhaga II í Öxafirði og tóku að sér að blása lífi í verkefni sem hófst í október 2016 undir handleiðslu Silju Jóhannesdóttur og síðar Bryndísi Sigurðardóttur fyrrverandi verkefnisstjóra Öxarfjarðar í sókn ásamt vinnuhópi. Verkefnið fékk upphaflega titilinn Mjúkull í Öxarfirði. Hjónin standa nú í hópfjármögnun á Indiegogo.com til þess að geta fjárfest í vélbúnaði sem til þarf.

Fjölskyldan í Gilhaga. Brynjar Þór með Bóel Hildi og Guðrún Lilja heldur á Edith Betu: Aðsend/ Halldóra Kristín Bjarnadóttir/HKB.

♥Víkurblaðið byggir afkomu sína á VAL-ÁSKRIFTUM – Vilt þú vera með ♥SMELLTU HÉR


Blaðamaður Víkurblaðsins tók Brynjar Þór tali á dögunum og spurði hann út í verkefnið og hvernig fjölskyldan hefur aðlagast lífinu í sveitinni. Brynjar Þór er húsa- og húsgagnasmíðameistari frá Tækniskóla Íslands og starfar hjá Trésmiðjunni Rein á Húsavík. Guðrún Lilja er félagsfræðistúdent frá Menntaskólanum að Laugarvatni og húsgagnasmiður frá Tækniskóla Íslands. Hún starfar sem skólaliði í Öxarfjarðarskóla

„Við fluttum í Gilhaga síðasta sumar en ég er ættaður héðan úr sveitinni. Pabbi mömmu býr hér og við fluttum inn á hann. Það var engin sem vildi taka við jörðinni þannig séð, þannig að við sáum okkur leik á borði og ákváðum að flytja í sveitina,“ segir Brynjar og viðurkennir að þau hjónin hafi ekki verið með neitt ákveðið í huga til að byrja með en hugurinn hafi leitað í eitthvað ferðaþjónustutengt og kannski lítilsháttar búskap með.

Sjá einnig: „Þú ‘meikar’ það ef þú ferð úr dalnum“

„Við erum hægt og rólega að koma okkur fyrir með nokkrum dýrum og náttúrunni og stefnum að því að gera okkur eins sjálfbær og hægt er með tilliti til vinnu, matar, orku og umhverfis. Svo kom upp þetta ullarverkefni þar sem auglýst var eftir fólki til að taka við því og við gátum ekki sleppt þessu tækifæri þegar við vorum búin að kynna okkur um hvað málið snerist,“ útskýrir Brynjar.

Mjúkull í Öxarfirði

Verkefnið sem um ræðir snýst um uppsetningu á spunaverksmiðju í Öxarfjarðarhéraði sem vinnur úr ull af svæðinu. Framleiðslan á að vera úr hreinni og óblandaðri íslenskri ull og vera um leið mýkri en sú sem fæst á almennum markaði í dag.

Þegar Verkefnið hófst í október 2016 var stefnan tekin á stóra verksmiðju sem framleiddi allt að 50 tonn af bandi á ári. Fljótlega var ljóst að ekki væri grundvöllur fyrir svo stórri verksmiðju og ákveðið að beina athyglinni að svokallaðri „minimill“ eða lítilli spunaverksmiðju.

Eftir að svipuð vinnsla opnaði á suðurlandi fékkst það staðfest að hægt er að vinna íslensku ullina á hagkvæman hátt með tilliti til kostnaðar og hráefnisnýtingu.

Guðrún Lilja og Brynjar Þór sóttust eftir verkefninu og tóku við því í september 2018.
Síðan þá hefur verið unnið að því að klára viðskipta- og rekstaráætlun ásamt því að leita eftir fjármagni fyrir kaup á vélum í gegnum hópfjármögnunarsíðuna INDIEGOGO „Við erum að nálgast innáborgun á vélar en hópfjármögnunin snýst um það að ná þessari innborgun til að geta fjárfest í þeim. Og þá getum við einnig farið í það að breyta húsnæðinu. Þetta eru 3-5 mánuðir sem við þurfum að bíða eftir vélunum þannig að þetta hefst á þeim tíma,“ segir Brynjar ákveðinn.

Viltu styðja verkefnið? Smelltu HÉR

Í lýsingu á verkefninu segir að ullarvinnslan sé lítil og vélarnar (sem koma frá Kanada) hannaðar með heimavinnslu í huga. Áætla má u.þ.b. 8 -10 kg af fullunnu bandi á dag. Til að byrja með verður keypt ull af bændum úr Öxarfirði og nágranna sveitum. Lögð verður áhersla á framleiðslu úr lambsull þó unnið verði úr allri ull og þar sem vinnslan mun ekki ná að anna allri ull af svæðinu verður reynt að fá bestu ullina frá sem flestum bændum. Áætlun og markmið vinnslunnar er að auka verðmæti ullar til bænda, eins að reyna auka verðmæti mislitrar ullar.

Fyrst og fremst verður notast við náttúrulegu ullarlitina án aukalitunar. Verður þá litið fyrst og fremst til ullargæða, umhirðu og frágang ullar, sé vel að öllu staðið mun það skila sér til bænda. Vélarnar geta spunnið örþunnt band og nýtt einungis fínustu ullarþræðina, eins er hægt að vinna prjónaband í ýmsum þykktum og samsetningum, lita og grófleika. Hægt er að vinna niður í 1 kg í einu. Þannig að hægt yrði að spinna af 1 skepnu sem er t.d. með sérstaka ullarliti eða eiginleika. Afgangsþræðir sem falla frá við kembingu eru nýttir í allskonar hluti t.d gróft og þykkara band sem nýtist í ýmiskonar handverk. Eins er hægt að vinna ull og selja á ýmsu framleiðslustigi, t.d fyrir handspuna og þæfingarhandverk. Vélarnar eru hannaðar til ýmiskonar ullarvinnslu. Hægt er að vinna Geitafiðu, angóru af kanínum, Alpakka ull, og í raun alla ullarþræði.

„Þetta er vinnsla upp á einhver tvö tonn á ári, þannig að þetta er alveg slatti, kannski svona fjórðungur eða fimmtungur af þeirri ull sem er héðan af svæðinu og við getum unnið úr. Síðan er hugmyndin að selja afurðina beint frá býli, auka verðmæti ullarinnar beint til bænda, stytta flutningsleiðir og bjóða öllu handverksfólki upp á spennandi efni til að vinna með. Þar sem ullarvinnslan er lítil í sér og unnið í smáum skömmtum verður hægt að benda á kindina sem unnið var af. Við munum fyrst og fremst nýta alla fallegu sauðarlitina án þess að lita bandið. Hægt yrði samt að lita með jurtum og helst þá með sem mestu hráefni af jörðinni okkar. Bandið verður í öllum gerðum og stærðum allt frá næfuþunnum þræði, venjulegu prjónabandi og yfir í stórband. Eins léttspunnu yfir í harðspunnið, í handspunann eða þæfinguna“ útskýrir Brynjar og bætir við að þau séu komin í samband við konu í Bretlandi sem vill  gera tweed jakkaföt úr bandinu. „Hún hjólar bara allan daginn á einhverjum vefstól og hana vantar verkefni,“ segir hann og hlær.

Fjölskyldan í Gilhaga. Mynd/aðsend

Þau hjónin stefna að því að hafa fulla atvinnu af ullarvinnslunni þegar hún kemst í gang. „Vinnslan kemur til með að skapa tvö heilsársstörf. Til þess að vinnslan gangi hagkvæmast upp þannig að vélarnar séu ekki að stoppa of mikið þá þarf alveg tvo starfsmenn. Svo er spurning hversu vel gengur að koma þessu í sölu,“ segir Brynjar og tekur dæmi um fyrrnefnda vinnslu á suðurlandi. „Þau hafa aldrei getað komið sér upp lager þau selja þetta áður en bandið kemur úr vélunum liggur við.“ Hann segist reyna að vera bjartsýnn á framhaldið þó hann geri sér auðvitað grein fyrir að það sé mikið hark að standa í svona frumkvöðlastarfi til að byrja með.

„Það er bara ekki hægt að sleppa því að prófa, óþarfi að gefast upp án þess að vera byrjaður. Við vonumst til að ná að panta vélarnar núna í vor og byrja vinnslu í sumar. Söfnunin er með sveigjanlegri söfnunarupphæð sem þýðir að við fáum það sem safnast, þó við náum ekki heildar markmiðinu hjálpar allt mikið, allt smátt gerir eitt stórt.

Rækta einnig býflugur

Ástríðan fyrir býflugunum er mikil. Ljósmynd: Halldóra Kristín Bjarnadóttir/HKB

„Við erum búin að vera með býflugur hér síðan 2015 eftir að  við Guðrún fórum  á býræktarnámskeiði. Við höfum verið að harka í þessu síðan með misjöfnum árangri. Þetta er bara of skemmtilegt til að hætta þessu. Maður lifir alveg 3-4 vikur á því að sjá flugu úti, það fleytir manni áfram,“ segir hann en viðurkennir að það sé eiginlega alveg ómögulegt að standa í svona löguðu á þessum slóðum. „Við erum svo norðarlega. Ef þú talar við býflugnasérfræðinga, þá sega þeir að flugurnar fari ekki út nema það séu 10 gráður eða meira. Það gerist varla nokkurn tíma á Íslandi,“ segir hann og hlær.

Það hefur reynst þrautinni þyngra að halda flugunum lifandi yfir veturinn enda sumur stutt og vetur langir. Sumarið 2017 byggðum þau hús utan um búin til að verja þau fyrir veðrum og vindum og segir Brynjar að það hafi borið árangur. „Það skánaði mikið þegar ég setti upp veðurvörn. Búin eru í örþunnum kössum og þola ekki vind þegar hann er komin í 20-30 metra á sekúndu. En vandamálið er það að við erum að fá flugurnar svo seint í árinu eða upp úr miðjum júní og þurfum að fara vetra í byrjun september, þannig að þetta eru ekki nema um 2,5-3 mánuður sem geta gert eitthvað en flugurnar þurfa bara lengri tíma. Þetta þarf að stækka upp í svona 40 þúsund flugur og við fáum 2000 flugur til að byrja með. Þetta er bara veðurfarslega erfitt en við ætlum alls ekki að hætta.“

Áfangastaðurinn Gilhagi

„Ásamt vinnslunni munum við að setja upp gestastofu þar sem hægt verður að skoða vinnsluna og kynnast nýtingu sauðfjár með áherslu á ullarvinnslu allt frá því að land byggðist og til dagsins í dag. Þar verður hægt að kaupa afurðirnar sem og á heimasíðu.
Í boði verður að kíkja fallegan hring um jörðina og skógræktina hér í Gilhaga sem telur nú yfir 50 trjátegundir og njóta í leiðinni friðsældarinnar og náttúrunnar,“ útskýrir Brynjar að lokum.