Greinin birtist fyrst sem leiðari í 1. tölublaði Víkurblaðsins.

Eitt sinn fékk ég merkt í kladda hjá fínum sérfræðilækni að ég væri ekki alveg heill á geðinu. Ég var ekki sá fyrsti sem hann mat svo og er líklega ekki sá síðasti heldur. Hvað um það, þennan dóm burðaðist ég með um hríð þar til ég hætti að finna fyrir þunganum. Ég fór jafnvel að gæla við þá hugmynd að ég væri kannski ekki klikkaður eftir allt saman.

En þá kom þessi hugmynd sem þú þarft nú að súpa seyðið af lesandi kær, að gefa út minn eigin fjölmiðil og það á pappír. Einhvern veginn rataði þessi fluga í höfuðið á mér að tími væri kominn á að endurvekja gamla Víkurblaðið, blað alls mannkyns sem Þingeyingar á miðjum aldri og upp úr ættu að muna eftir. Eftir talsvert strögl og vesen virðist vera að þessi bilun sé að skila sér í prentvélarnar á Héraði.

Það ætti ekki að hafa farið framhjá nokkurri lifandi sálu allt heimsendarausið um rekstur fjölmiðla í dag og líklega er sá heimsendir ekki fjarri raunveruleikanum, sérstaklega hvað varðar prentmiðlana. Ég ætla nú samt að láta á þetta reyna, fyrst og fremst af því að ég hef gaman af þessu. Þegar þessi orð eru rituð er ég búinn að sitja 30 klukkutíma í beit fyrir framan tölvuna og geri mér sífellt betur grein fyrir því að ég á ólíklega eftir að fá útborgað aftur á ævinni.

Ég ætla að reyna mitt besta til að fara í fötin þeirra frumkvöðla og ofurhuga sem stofnuðu Víkurblaðið árið 1979. Sennilega hafa þeir verið enn þá klikkaðri en ég. Ég held þó að þetta sé í fyrsta sinn sem Víkurblaðinu er dreift frítt inn á öll heimili og fyrirtæki í Þingeyjarsýslum, sem ætti að tryggja það að þið lesendur góðir þurfið að hlusta á mig væla og betla í framtíðinni. Þessu verkefni er fyrst og fremst hleypt af stokkunum af því að ég vil framleiða gott ritstjórnarefni en það gefur auga leið að einhvers staðar þarf að ná í tekjur. Auglýsingar geta ef vel gengur farið langleiðina með að standa undir þessu en innan skamms mun vikurbladid.is fara í loftið. Þá mun ég bjóða upp á svo kallaðar val-áskriftir þ.e. að ef þú sem þetta lest finnst það einhverra aura virði að fá Víkurblaðið inn um lúguna hjá þér; þá getur þú valið þér upphæð til að greiða til útgáfunnar mánaðarlega. Á móti mun ég reyna að vanda mig eftir fremsta megni og bjóða upp á fjölbreytt og gott efni.

Þetta fyrsta tölublað er eitt af þremur sem koma munu út á þessu ári. Víkurblaðið mun svo koma enn sterkara eftir áramót með nýtt útlit, enda er 2019, 40 ára afmælisár blaðsins.

Ég vona svo og biðla til ykkar að þið verðið dugleg að halda mér við efnið, hvísla að mér hugmyndum og endilega að senda inn greinar og pistla. Þetta verður ekki langlíft nema með þátttöku alls samfélagsins.

Ég hlakka til samstarfsins.

Egill P. Egilsson

ritstjóri