Bændur framtíðarinnar æfðu sig í Grobbholti

Ein af vinsælustu hefðum sem skapast hafa í starfi leikskólabarna á Grænuvöllum er hin árlega heimsókn í Grobbholt.

Búfræðingurinn, Leeds-arinn og hrútadómarinn Aðalsteinn Árni Baldursson, betur þekktur sem Kúti rekur eitt rómaðasta sauðfjárbú húsvískara áhugabænda: Grobbholt, rétt ofan við Sprænugil. Hann hefur gert það undanfarin ár að bjóða nemendum Grænuvalla í heimsókn á þeim tíma er vor ætti að vera í lofti og sauðburður hafinn.

Þessar heimsóknir hafa slegið í gegn hjá ungviðinu og Kúti sagði í samtali við Víkurblaðið að hann hefði ekki síður gaman af þessum heimsóknum. Það væri nauðsynlegt að börnin fengju að upplifa sem mest og það væri honum sönn ánægja að geta tekið á móti glöðum og hressum krökkum. „Ekki spillir fyrir þegar maður sér barn sem kann til verka,“ segir Kúti og bætir við að hann sjái reglulega efni í framtíðar sauðfjárbónda í þessum heimsóknum.

Hér að neðan má sjá myndir úr heimsókninni: