Brugghúsið Húsavík Öl opnaði bruggstofu (e. taproom) í húsakynnum gömlu mjólkurstöðvarinnar að Héðinsbraut 4 undir lok síðasta árs en húsvíski bjórinn hefur farið sigurför um landið og var um sl. helgi valinn besti íslenski bjórinn.

Bruggmeistari Húsavíkur, Þorsteinn Snævar Benediktsson lét gamlan menntaskóladraum sinn rætast þegar hann stofnaði brugghúsið Húsavík öl sem hóf framleiðslu fyrir rétt rúmu ári síðan í gömlu mjólkurstöðinni. Hann lærði bjórgerðarlistina í Sunderland og er með diplómu til bruggmeistara. Hann segir viðtökurnar við húsvíska bjórnum hafa verið vonum framar og er nú þegar búinn að setja á annan tug tegunda á markað.

Þorsteinn Snævar var að vonum sigurreifur þegar blaðamaður Víkurblaðins tók hann tali á mánudag. Þá var Þorsteinn nýlega kominn heim eftir sigurför á Sturlungaslóð, en um síðustu helgina fór Bjórhátíðin að Hólum í Hjaltadal fram í níunda sinn. „Þetta er búið að vera mjög gaman en ég var bara að skila mér heim,“ segir Þorsteinn en hann kom aldeilis ekki tómhentur heim heldur tók hann fyrsta sætið í kosningu um besta bjórinn. Það var súrölið „Ber að ofan“ sem skilaði Húsavík Öl þessum óformlega Íslandsmeistaratitli. Ölið er ketilsýrt, en það þykir silkimjúkt og ferskt, enda sneysafullt af hindberjum.

„Þetta er held ég alveg örugglega elsta bjórhátíð á landinu, hún var alla vega lengi vel sú eina,“ segir Þorstænn Snævar og bætir við að hátíðinni fylgi að sjálfsögðu mikið glens og gaman bæði fyrir gesti og bruggara sem taka þátt í kepninni. „Þarna reynum við að hittast öll sem stöndum á bak við íslensku brugghúsin og það taka öll bestu brugghúsin þátt þarna en við vorum 19 talsins í ár, sem er metþátttaka.“ Flest brugghúsin voru með tvær tegundir til að kynna og taka þátt í kosningunni og sum með þrjár. Keppt er um besta bjórinn og fallegasta básinn.

„Það skemmtilega við þetta er að hátíðin er bara fyrir íslensk brugghús og er góður vettvangur til að kynnast öðrum bruggurum. Ég held að flestir okkar líti nú á þetta sem árshátíð. Við mætum þarna, skemmtum okkur í tvo daga um leið og við kynnum okkur afurðir hvers annars. Svo er kosning um besta bjórinn á laugardeginum. Ég var sjálfur með Ber að ofan  og New Zealand IPA og Ber að ofan hlaut fyrstu verðlaun,“ segir Þorsteinn Snævar og viðurkennir aðspurður að hann sé alsæll með árangurinn aðeins ári eftir að hann setti sinn fyrsta bjór á markað.

En það gerir meira en aðeins að kitla stoltið að hljóta slíka viðurkenningu, því hátíðin vekur að sjálfsögðu athygli á meðal áhuga- og fagfólks um bjór og bjórmenningu. „Það eru nú þegar þónokkrir veitingastaðir á landinu búnir að biðja um þennan bjór, þannig að þetta er hellings auglýsing. Allir sem fylgjast eitthvað með bjór á Íslandi eru annað hvort á hátíðinni eða kynna sér þá bjóra sem keppa,“ útskýrir Þorsteinn Snævar og hnussar yfir spurningu blaðamanns um það hvort hann sé búinn að koma einhverjum bjór að hjá Vínbúðunum.  Nei, og ég ætla mér ekkert þangað. Ég er enginn einokunarpési,“ segir hann og hlær.

Þorsteinn Snævar svarar lokaspurningu blaðamanns um það hvort hann sé sáttur við fyrsta heila starfsár Húsavíkur öl svona: „Við ætlum alla vega ekki að kvarta yfir þessu fyrsta ári, svo mikið er víst.“