Bókin mín – Hús úr húsi

Bryndís Sigurðardóttir, deildarstjóri bókasafnsins á Húsavík segir frá bókinni sem hún var að lesa

Bókin sem ég las síðast er eftir Kristínu Marju Baldursdóttur „Hús úr húsi“  en það er bók þessa mánaðar í bókaklúbbbnum sem ég er í. Þessi bók kom út 1997 og er önnur bók höfundar en áður hafði komið út eftir hana „Mávahlátur“ sem sló í gegn og var bæði sett upp sem leikrit og gerð kvikmynd eftir.

Sagan segir frá ungri konu Kolfinnu (á þrítugs aldri) sem eftir sambandsslit er nýflutt inn á móður sína og er atvinnulaus. Hún tekur að sér tímabundið að þrífa fjögur hús fyrir vinkonu sína sem á von á barni og er komin í fæðingarorlof. Hún fer svo smátt og smátt að kynnast heimiliseigendunum og í þeim kynnum finnum við einmitt söguþráðinn að mestu leyti. Ég las þessa bók þegar hún kom út og hafði gaman af og hef mælt með henni. Í dag 22. árum seinna er ýmislegt sem ég tók ekki eftir þegar ég las hana í fyrra skiptið og gerir það að verkum að mér þykir bókin ekki eins góð. Má þar t.d. nefna persónusköpun Kolfinnu sem mér finnst að mörgu leyti ótrúverðug og áhersluna sem lögð er á stéttaskiptingu í samskiptum hennar og húseiganda sem aðallega byggist á menntun og auði en sú sem vinnur við þrif eða húsverk er lýst sem hálgerðum heimskingja. Þeir sem vilja ræða bókina eitthvað frekar geta hitt mig á bókasafninu.

Bók sem hafði áhrif á þig?

Ég hef lesið næstum óteljandi bækur og get með engu móti valið úr þeim fjölda eina bók.  En ég ætla nú samt að nefna tvær bókaseríur sem höfðu þau áhrif á mig að ég gjörsamlega lifði mig inn í þann heim sem þar er skapaður og var ekki viðræðuhæf meðan á lestri þeirra stóð. Sögur þar sem höfundurinn skapar nýjan heim, barátta góðs og ills, hetjur og illimenni, hryllingur og fantasíur. Allt sem góð bók þarf að hafa. Bækur sem ekki var hægt að leggja frá sér.  Þegar allar lausar stundir eru notaðar við lestur og vakað langt fram eftir nóttu við lestur. Bækur sem þú kvíðir fyrir að endi, bækur sem ég hef lesið oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.

Hringadróttinssaga eftir Tolkien. Ég veit að þið hafið séð myndirnar en bækurnar eru svo miklu meira. Og ekki skemmir fyrir frábærar ljóðaþýðingar eftir Geir Kristjánsson.

The Black Tower eftir Stephen King. Er ekki ósvipuð Hringadróttinssögu. Enda segir King að hann hafi sótt innblástur að sögunni í ljóð Roberts Browning, „Childe Roland to the Dark Tower Came“ og Hringadróttinssögu Tolkien.