Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri í Þingeyjarsveit sagðist ekki vera í nokkrum vafa um að áhrifa hafi strax gætt í sveitarfélaginu þegar byrjað var á framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng þegar Víkurblaðið ræddi við hana á dögunum. „Þá áttuðu menn sig á að atvinnusvæðið myndi stækka og möguleikar aukast, bæði fyrir þá íbúa sem fyrir eru og þá sem hafa hugsað sér að flytja í Þingeyjarsveit,“ sagði hún.

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar.

Dagbjört bendir á að aðsókn hafi verið aukast í sumarhúsabyggðir, bæði kaup og nýbyggingar, til að mynda í Fnjóskadal. Og hún nefndi einnig að eftirspurn eftir húsnæði í sveitarfélaginu hafi aukist. „Enda ekkert því til fyrirstöðu að búa í Þingeyjarsveit og vinna inn á Akureyri. Það liggur því fyrir að auka þarf framboð húsnæðis í sveitarfélaginu og verið er að vinna í því.“

„Vaðlaheiðargöng stytta vegalengdina á milli Þingeyjarsveitar og Akureyrar um 15, 7 km. það er um 11 mínútur eða 22 mínútur fram og til baka“

Að sögn Dagbjartar færa göngin fólk nær hvort öðru og það auki á samvinnu á milli svæða. „Göngin færa okkur nær ýmis konar þjónustu sem og fjölbreyttara menningarlífi og bætir þar með búsetugæðin. Einnig eru göngin stór liður í bættu öryggi bæði sem snýr að umferð og heilbrigðisþjónustu t.d. fæðingarhjálp. Göngin eru öruggari samgöngumáti sem eykur umferðaröryggi og tryggir betur að við komumst frá A til B. Það að losna við Víkurskarðið er því mikill kostur og meiri enn margir gera sér grein fyrir.“

Enn er ekki gott að spá um það hvort Akureyringar séu að skila sér í meiri mæli inn í sveitarfélagið en Dagbjört segir engan vafa leika á því að almenn umferð hafi aukist frá því á síðasta ári. „Hvort það eru Akureyringar eða aðrir ferðamenn veit ég ekki en við finnum t.d. fyrir aukningu í fjölda ferðamanna við Goðafoss og alltaf er traffíkin að aukast í Dalakofanum.  Þá hafa möguleikar aukist með Framhaldsskólann á Laugum sem hefur ákveðna sérstöðu, nemendur búsettir á Akureyri geta auðveldlega sótt skóla hingað en það mun koma betur í ljós þegar nýtt skólaár hefst hvaða áhrif göngin hafa þar en þau virka í báðar áttir,“ segir hún.

Að sama skapi hafa ekki farið fram áreiðanlegar mælingar á því hvort íbúar Þingeyjarsveitar fari fleiri ferðir til Akureyrar eftir að Vaðlaheiðargöng komu til sögunnar. „Ég get þó sagt að ég hafi það á tilfinningunni að fólk fari oftar enda er Víkurskarðið ekki lengur hindrun, fólk fer bara göngin. Svo er fólk bara miklu afslappaðra, bæði að fara og að vera á Akureyri, er ekki alltaf að velta því fyrir sér hvort það komist heim, hvort Víkurskarðið sé eða verði orðið ófært.“

Hefur tilkoma ganganna áhrif á það hvort íbúar sveitarfélagsins kjósi að nota flugsamgöngur frá Akureyri eða Aðaldal?

„Það gæti alveg gert það, boðið er uppá fleiri möguleika um tímasetningu á flugi frá Akureyri en frá Aðaldal sem hefur áhrif og hafði áhrif áður en göngin voru tekin í notkun en frá sumum stöðum í sveitarfélaginu er enn styttra á flugvöllinn í Aðaldal þrátt fyrir göngin, eflaust vegur fólk og metur samkvæmt því.“

Þá fagnar Dagbjört öllum samgöngubótum og segist telja þær ávallt jákvæðar. „Góðar samgöngur eru ein af grunnforsendum búsetugæða. Hins vegar má alltaf deila um forgangsröðun framkvæmda. Ef ég horfi til síðustu ára þá má t.d. nefna Staðarbrautina, Þeistareykjaveg, Kísilveginn og uppbyggingu almennt á hringveginum sem liggur í gegnum sveitarfélagið t.d. í Reykjadalnum og í gegnum þéttbýliskjarnann á Laugum. Allt eru þetta  samgöngubætur sem hafa jákvæð áhrif á samfélagið og aukið hafa öryggi,“ útskýrir hún og bætir því við að enn megi gera betur í þessum efnum.

„Það eru malarvegirnir sem sannarlega er þörf á að byggja upp og leggja á bundið slitlag enda hefur umferðin aukist mikið. Við höfum ítrekað nefnt og kallað eftir að ráðist verði í Bárðardalsveg vestari, malarvegina um Dalsmynni og í Útkinn, einbreiðu brýrnar yfir Skjálfandafljót o.fl., það er löngu tímabært að fara í þessar framkvæmdir þó fyrr hefði verið, ekki hvað síst út frá umferðaröryggi.“

Hér má fletta Víkurblaðinu #7

Smelltu hér til að styrkja fjölmiðlun í heimabyggð