Byggðaþróun í takt við atvinnuþróun með fjölbreytni að leiðarljósi – Hugleiðingar

Silja Jóhannesdóttir skrifar


Fór í gær á ótrúlega áhugavert málþing hjá Þekkingarneti Þingeyinga. Þar fóru starfsmenn yfir niðurstöður nokkurra rannsókna og kynntu vef Sjálfbærniverkefnis Norðausturlands.

Þar fléttuðust saman nokkur af mínum hugðarefnum, farið var yfir byggðaþróun í Þingeyjarsýslum, niðurstöður úr könnunum sem lúta að ánægju ferðamanna og einnig hvernig innflytjendum líður á svæðinu.

Áhugavert fannst mér að sjá þróunina í Skútustaðahreppi og þá sérstaklega þegar litið er til samtvinnunar atvinnu- og byggðaþróunar. Undanfarin fjögur ár hefur verið stöðug fólksfjölgun, kynjahlutföll eru alveg jöfn, meðalaldur er lægri en landsins í heild og ánægja með atvinnuöryggi mælist hvergi meiri í Þingeyjarsýslu. Atvinna í Skútustaðahrepp byggir að mestu á ferðamennsku, ekki einu stóru ferðaþjónustufyrirtæki, heldur mörgum aðskildum og þetta er þróunin sem ferðaþjónustan skilar. Ferðaþjónusta verður að vera á oddinum í byggðaþróunarsamtalinu og styrkja verður við hana til að halda við bæði byggðum og greininni. Eftir nokkur ár nenna ferðamenn ekki lengur að vera í rútum að horfa á aðrar rútur við Gullfoss og þá er mikilvægt að aðgengi að öðrum náttúruperlum sé gott.

Niðurstöður úr ánægjukönnun ferðamanna var gleðileg en ánægja hefur aukist með viðkomustaðinn Húsavík og það er áhugavert að sjá að þeir gestir sem gista hér virðast eyða meiri tíma á staðnum en öðrum þéttbýlisstöðum út á landi sem bendir til þess að þeir noti frekar þá þjónustu sem til staðar er hér og nýti afþreyingarmöguleika. Ánægja ferðamanna er einnig mæld í Mývatnssveit en ég tel að horfa verði til þess að reyna að fá fjármagn til að framkvæma könnunina á fleiri stöðum á svæðinu.

Þá voru kynntar niðurstöður úr rannsókn sem gerð var í tengslum við mastersritgerð sem framkvæmd var í Norðurþingi um líðan innflytjenda og einn útgangspunktur að fá frá nýjum íbúum hvernig þeir vilja fá upplýsingar og hvaða upplýsingar vantar. Rannsóknin var gerð árið 2016 og var þar rætt um að það vantaði betri upplýsingar á ensku á heimasíðu Norðurþings og að fjölmenningarviðburðir væru góð leið til að ná til fólks. Það er gleðilegt að segja að fjölmenningarfulltrúi Norðurþings er búinn að gera ensku síðuna betur nýtanlega fyrir nýja íbúa og einnig er búið að standa fyrir nokkrum fjölmenningarviðburðum. Þessari vinnu verður haldið áfram en alltaf er hægt að gera betur, það þarf að bæta aðgengi að íslenskukennslu og jafnvel koma upp tengiliðakerfi líkt og Rauði krossinn er með víða um land.

Sem fyrrum leiðbeinandi í íslensku fyrir innflytjendur, sitjandi í stjórn Rauða krossins og nú sveitarstjórnarfulltrúi í Norðurþingi verð ég að viðurkenna að ég tók þetta allt til mín og mun gera mitt til að nýjum íbúum líði sem allra best hérna og vinna að því að við sem samfélag áttum okkur á þeim auð sem felst í því að hingað vilji fólk flytja allsstaðar að úr heiminum. Fjölbreytt samfélag er gott samfélag.

Ég fór endurnærð, uppfull af hugmyndum og orku af þessu málþingi fullviss um að tækifærin eru mörg og mikilvægt sé að horfa til framtíðar með fjölbreytni í farteskinu bæði hvað varðar atvinnutækifæri og íbúasamsetningu. Takk Þekkingarnet Þingeyinga fyrir vinnuna og málþingið. Áfram Norðurþing og Þingeyjarsýsla!

Silja Jóhannesdóttir, verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga og sveitarstjórnarfulltrúi í Norðurþingi.