Þórveig, Aldey, Fanný og Ólöf Traustadætur standa að fyrstu Druslugöngunni á Húsavík.

Þórveig, Aldey, Fanný og Ólöf Traustadætur sóttu nýverið um styrk í Lista- og menningarsjóð Norðurþings 2019 til þess að halda Druslugöngu á Húsavík á þessu ári. Fjölskylduráð tók á sínum tíma vel í erindið og fól íþrótta- og tómstundafulltrúa að kalla eftir frekari upplýsingum frá umsóknaraðilum áður en ákvörðun yrði tekin um styrkveitingu. 

Víkurblaðið sló á þráðinn til Þórveigar á dögunum og ræddi við hana um Druslugönguna og hvernig hugmyndin vaknaði að halda hana á Húsavík. „Þetta byrjaði þannig að ég og Aldey vorum að tala um það þegar Druslugangan var fyrst haldin í Reykjavík hvað okkur þætti þetta frábært framtak. En okkur þykir jafn leiðinlegt að geta aldrei tekið þátt því að þetta er alltaf haldið um sömu helgi og Mærudagar á Húsavík, og ekki förum við að sleppa því,“ segir hún og hlær.

„Í Fyrra fór ég svo á mini-ráðstefnu hjá frístundamiðstöð Reykjavíkurborgar þar sem einn af skipuleggjendum Druslugöngunnar var með lítinn fyrirlestur um gönguna. Ég gaf mig á tal við hana eftir fyrirlesturinn og spurði hana hvort hún teldi mögulegt að vera með Druslugönguna á Húsavík líka. Hún var mjög spennt fyrir því,“ útskýrir Þórveig og bætir við að vegna anna hafi þó ekkert orðið af því að halda gönguna á síðustu Mærudögum. Hún segir jafnframt að nú verði ekki aftur snúið og Druslugangan muni fara fram á Mærudögum á Húsavík 2019.

Drusluganga er mótmælaganga sem hefur það markmið að uppræta fordóma varðandi klæðaburð og ástand þeirra sem verða fyrir kynferðisofbeldi og vekja athygli á því að það eru gerendur sem bera ábyrgð á kynferðisofbeldi. Fyrsta druslugangan var farin 3. apríl 2011 í Toronto í Kanada en slíkar göngur hafa verið farnar víða um heim. Fyrsta Drusluganga í Reykjavík var farin 23. júlí 2011 og hefur hún verið haldin árlega eftir það

Þórveig segist hafa fundið strax fyrir velvilja af hálfu sveitarfélagsins um að verða að liði til að viðburðurinn gæti orðið að veruleika. „Við sendum upphaflega beiðni um styrk sem tekin var fyrir í fjölskylduráði. Við fengum í kjölfarið svar um að sveitarfélaginu litist vel á hugmyndina en vildi fá betri útfærslu á kostnaðaráætluninni hjá okkur.  Við gerðum það og höfum verið í samskiptum við skipuleggjendur Druslugöngunnar í Reykjavík. Við fundum það fljótlega út að þetta þarf ekki að kosta svo mikið. Fólk býr aðallega til sín eigin skilti og þegar upp var staðið var sölubás á Mærudögum það eina sem við þurftum frá sveitarfélaginu, til að geta selt varning í tengslum við gönguna, derhúfur og slíkt ásamt lítils háttar fjárstyrk til að kosta kynningu á göngunni.“

Að sögn Þórveigar stendur til að Druslugangan á Húsavík fari fram samtímis systurgöngu sinni í Reykjavík þ.e. á laugardeginum um Mærudaga klukkan 14:00. „Það á enn eftir að ákveða endanlega hvar gangan hefst en hún verður ekkert sérstaklega löng. Við munum svo enda niðri á hafnarsvæði þar sem við verðum með dagskrá, smá ræðu og tónlistaratriði,“ segir hún en Lilja Jónsdóttir, Bóas Gunnarsson og Friðrika Bóel ætla að syngja nokkur lög. Þórveig lofar skemmtilegri og góðri stemmningu en hún segist hafa fundið fyrir miklum áhuga fyrir húsvísku Druslugöngunni og hefur fulla trú á að þetta geti verið fjölmenn ganga og Húsvíkingum til sóma.