Egill P. Egilsson.

Á náttborðinu hjá mér er bókin Sapiens: A Brief History of Humankind eftir Yuval Noah Harari. Bókin er eins og nafnið bendir til sagnfræði mannskepnunnar í grófum dráttum frá upphafi tegundarinnar.

Bókin er frábær, það sem ég er búinn með af henni og það sem er að koma mér mest á óvart er hvað skilningur minn á félagssálfræði og atferli mannskepnunnar í dag hefur aukist við það að skoða hegðun fyrstu einstaklinga og samfélaga af okkar tegund og annarra manneskjutegunda sem nú eru horfnar.

Það hafa fjölmargar bækur haft djúpstæð áhrif á mig í gegnum tíðina en í þetta sinn langar mig til að velja bókina Flóttamaðurinn eftir Stephen King, meistara spennusagnanna.

Ég var enn á barnsaldri þegar ég las þessa bók en þar með hófst langt ástarsamband mitt við höfundinn sem enn sér ekki fyrir endann á. Þetta er ein af fyrstu sögum kóngsins og hann sagði einhvern tíma að hún væri ein af hans lélegustu.

Fyrir mig og minn athyglisbrest var bókin fullkomin, skipt upp í mjög stutta kafla og uppfull af spennu. Ein af fáum bókum sem ég hef lesið í einum rykk enda þegar kaflar eru stuttir þá er freistingin alltaf sterk að lesa einn í viðbót.

Hér að neðan má sjá um kvikmyndina The Running man sem er mjög lauslega byggð á skáldsögu Stephen King.