Kirkjukór Húsavíkur hefur haldið árlega vortónleika undanfarin ár og fengið ljómandi viðtökur að sögn Péturs Helga Péturssonar talsmanns kórsins. Að þessu mun gestakór frá Eistlandi troða upp á tónleikunum sem haldnir verða í Húsavíkurkirkju á föstudag klukkan 20:00. Upphaflega var ætlunin að halda tónleikana úti á Skjálfandaflóa um borð í hvalaskoðunarbátum eins og gert var fyrir nokkrum árum við góðan orðstýr. Veðurspá var hins vegar á þá leið að ráðlegt þótti að flytja tónleikana inn í Húsavíkurkirkju.

„Sungin verða kóralög frá Eistlandi og Kirkjukórinn syngur  m.a. úr gulu og bláu bókunum sem Jón Stefánsson gaf út fyrir nokkrum árum,“ segir Pétur en kórarnir munu einnig leiða saman hesta sína og syngja saman. „Eistneski kórinn er hér í heimsókn og er á ferðalagi um héraði. Við í kirkjukórnum reynum alltaf að gera eitthvað skemmtilegt á hverju ári og stefnum á að endurgjalda heimsókn eistneska kórsins á næsta ári og heimsækja hann til Eistlands,“ segir hann og hefur á orði að alltaf sé pláss á kóralofti Húsavíkurkirkju fyrir nýja kórfélaga.

„Okkur vantar alltaf gott fólk, kórinn er svo mikilvægur samfélaginu bæði á gleði og sorgarstundum,“ segir Pétur og bendir á að nýliðun sé ekki nægilega góð í kórnum. Elstu félagarnir séu búnir að standa vaktina í 50 ár. Hann kallar eftir samfélagslegri ábyrgð fólks og skorar á sem flesta að koma og taka þátt í starfi kórsins. „Það er ekkert sjálfgefið að það sé starfandi kirkjukór.“

Undirleikari Kirkjukórsinns er Jaan Alavere og stjórnandi Ilona Laido.

Stjórnandi Eista er Liina Annus og undirleikari Viktoria Zeilja