Texti: Egill P. Egilsson

Við höldum aðeins áfram með umfjöllun síðasta tölublaðs Víkurblaðsins um félagslíf í Þingeyjarsýslum enda þótt það hafi verið þemayfirskrift, þá er félagslíf- og starf eitthvað sem á skilið reglulega umfjöllun.

Félag eldriborgara á Húsavík og nágrenni hefur haldið upp öflugu félagsstarfi fyrir sína félagsmenn um nokkurra ára skeið. Félagsaðstaða félagsins í Hlyn er mikið notuð og þar er fjölbreytt dagskrá allt árið um kring.

Þegar nýr gervigrasvöllur var tekin í notkun á Húsavík skapaðist hefð fyrir því að eldriborgarar noti upphitaða göngubrautina í kringum völlinn til heilsubótargöngu. Í vallarhúsinu er síðan hellt upp á kaffi og stundum með því á fimmtudagsmorgnum.

Það var heldur betur veisla sl. fimmtudag í vallarhúsinu þegar blaðamann Víkurblaðsins bar þar að garði en þá höfðu eldriborgarar slegið upp þorrablóti, en þetta er annað árið í röð sem það er gert. Miðað við gleðina sem skein úr hverju andliti má reikna með því að þorrablótið í Vallarhúsinu sé komið til að vera.