Er ekki verkalýðshreyfingin sífellt að grenja út hærri laun?

Greinin birtist fyrst sem leiðari í Víkurblaðinu #6

Mynd: Kjartan Páll/Norðurþing

Leiðari eftir Egill P. Egilsson

Víkurblaðið #6

Egill P. Egilsson

Í síðasta tölublaði auglýstum við í fyrsta sinn eftir aðstoð lesenda við að styrkja ritstjórn og rekstrargrundvöll blaðsins enda er erfitt að treysta á auglýsingatekjur einar saman í þessum bransa.

Viðtökurnar hafa verið vonum framar, fjöldi fólks í Þingeyjarsýslum norður og suður hafa haft samband og óskað eftir því að greiða fast áskriftargjald á mánuði í heimabanka. Slíkur stuðningur er gríðarlega mikilvægur litlum fjölmiðli fjárhagslega en hann er ómetanlegur fyrir sálartetrið í þeim sem þetta ritar. Róðurinn er nefnilega erfiður eins og raunar í öllum rekstri á upphafsmetrunum og það koma dagar þar sem maður vill helst bara gefast upp og fara gera eitthvað annað. En þá dettur inn tölvupóstur frá ánægðum lesanda sem vill leggja útgáfunni lið, eða hlýleg orð á förnum vegi og þá gufar öll bölsýni upp og maður tekur slaginn áfram.

Ástar þakkir fyrir stuðningin.

Skálamelur iðar af lífi

Í síðasta blaði var talsvert fjallað um  skíðaiðkun og nýtt skíðasvæði við Reyðarárhnjúk og nauðsyn þess að annað hvort flytja þær skíðalyftur sem sveitarfélagið á nú þegar upp á Reykjaheiði eða fjárfesta í nýjum og byggja áfram upp þetta glæsilega skíðasvæði. Gera það þannig að sælureit fyrir alla fjölskylduna og jafnvel ferðamenn.

Leiðarahöfundur rifjaði upp æskuminningar sínar úr skálamelnum sem eru líklega hans kærustu. Það yljaði því hjarta hans að sjá Skálamelinn iða af lífi undanfarna daga. Þegar þessi orð er skrifuð er reyndar að hlána en vonandi varir það ekki lengi [gerði það sko heldur betur ekki] og áfram verði hægt að sjá raðir af börnum og fullorðnum skíðaiðkenndum við skíðalyftuna í Melnum. Annars má alltaf færa draslið upp í hnjúkinn þar sem hlánar hægar.

Látið bankastjórana í friði

Fjallað er um kjaramál í blaðinu í dag og endalausa baráttu verkalýðshreyfinganna fyrir mannsæmandi kjörum. Þjóðfélagið hefur að mörgu leyti verið undirlagt af umræðum um kjarabaráttu og komandi byltingar henni tengdar. Ekki hefur orðið bylting enn sem komið er en samningaviðræður við Samtök atvinnulífsins hafa gengið hægt, sérstaklega þegar kemur að sjálfum launalið viðræðnanna. Kunnulegt stef hefur heyrst úr ranni fjármálaráðherra, seðlabankastjóra og hagsmunaaðilum atvinnulífsins: Það verður að stilla launakröfum pöpulsins í hóf svo ekki verði óðaverðbólga og allt fari á hliðina í þjóðarbúinu. Allt í einu þegar snauður almúinn vill skyndilega fá sneið en ekki mylsnu af kökuborði allsnægtanna, þá verður til eitthvað hugtak í allri almennri umræðu á þessu skeri sem tröllríður öllu: Stöðugleiki! Já þá er okkur talið trú um það að stöðuleiki sé eitthvað sem raunverulega sé til í íslensku samfélagi.

Ég stóð nú reyndar í þeirri meiningu að á Íslandi hafi ekki ríkt stöðugleiki síðan hér var tekin upp sjálfstæð örmynt sem hlýðir engum lögmálum nema helst duttlungum olígarka.

Burt séð frá stöðuleikatali sem ærir óstöðugan þá þarf verkalýðurinn alltaf að fara í einhverja allsherjar fýlu í hverjum kjaraviðræðum. Nú er dramatíkin allsráðandi af því að einhver bankastjórinn fékk lítilsháttar kauphækkun ofan á lúsarlaunin sín.

Er ekki verkalýðshreyfingin sífellt að grenja út hærri laun? Af hverju þá þessi öfund alla tíð hreint þegar einn og einn ríkisplebbi fær nokkur prósent fyrir alla ábyrgðina á herðum sér. Látið nú bankastjórana í friði einu sinni og reynið að skilja í eitt skipti fyrir öll að það er erfitt að eiga peninga á Íslandi í dag.

Djók…. Þetta taktleysi efsta lags þjóðfélagsins er löngu orðið fáránlegt, burt séð frá því hvað það er klígjuvaldandi fyrir venjulegt fólk að horfa upp á bankastjóra fá yfir 80% hækkun á einu bretti og þar með allt að 11-föld laun lægstlaunuðustu undirmanna sinna. Þá er það tímasetningin sem er allt að því sækópatísk.

Það er kannski ekki skrítið að stjórnvöld dragi lappirnar þegar kemur að úrræðum við að bregðast við vinnumannsali og brotastarfsemi starfsmannaleiga. Það þarf líklega að flytja inn ódýrasta vinnuaflið sem fyrir finnst á jörðinni, þverbrjóta öll réttindi þess fólks og láta það lepja dauðann úr skel, tugir saman í litlum herbergiskytrum, það hlýtur að vera svo gott fyrir stöðugleikann.