Er mikilvægt að leiðast?

Víkurblaðið kynnir þátttakendur á Skjálfandi listahátíð

Skjálfandi listahátíð verður haldin í Samkomuhúsinu á Húsavík föstudaginn 17. maí.

Þetta er í 8. sinn sem Skjálfandi listahátíð er haldin í Norðurþingi, og er hátíðin samstarfsverkefni fjölmargra einstaklinga, hópa, byggðarlaga og listgreina þar sem heima- og aðkomufólk leiða saman hesta sína með einlægri og fallegri listahátíð í Samkomuhúsinu á Húsavík.

Yfir 50 listamenn taka þátt að þessu sinni en fjölbreytnin verður í fyrirrúmi. Tónlist, myndlist, gjörningar og vídeólist er meðal þess sem gestum verður boðið upp á.

Víkurblaðið í samstarfi við Skjálfanda listahátíð kynnir þátttakendur en nú er komið að spennandi samstarfsverkefni listamannanna Martin Cox og Röðuls Reyrs sem nefnist Inngangur að innriheimum.

Um er að ræða verk þar sem teikning, ljósmyndir og vídeó skapa nokkurra mínútna vídeóinnsetningu þar sem listamennirnir rannsaka m.a. „hinn innri heim” með landslag sem útgangspunkt þar sem torfhús opnar áhorfanda sýn inn í hið innra/andlega.

Verkið tengist orðinu Ennui nánum böndum en það er hægt að túlka sem tilfinningu um listleysi, óánægju, leiðindi, svefnhöfgi, eirðarleysi, þreytu, einangrun; vanlíðan, óhamingju, óróleika, óróa, depurð, þunglyndi, óánægju og vanþóknun sem „inngöngu” að inn(r)ihaldsríku lífi. Þversögn Ennui er sú að mannkynið hefði ekkert áorkað ef því hefði aldrei leiðst.

Martin Cox er fæddur í Englandi en hefur búið sl. ár í Los Angeles. Síðan 2016 hefur hann unnið listaverk í tengslum við Húsavík. Listsköpun hans fjallar oft á tíðum um menningu og náttúru og áhrif þeirra á hvort annað. List hans er rannsókn á landslagi og áhrif tímans og tilfinninga á það – oftast í gegnum augu linsunnar.

Árið 2017 hélt hann einkasýningu í Safnhúsinu á Húsavík á ljósmyndaverkum. Hann hefur sýnt í New York, San Franscisco, London og Los Angeles. Á Húsavík kom til hans hugmynd að „Museum of Ennui” og var fyrsta sýning safnsins á Húsavík og síðar í Los Angeles.

Röðull Reyr Kárason er fæddur og uppalinn á Húsavík. Stundaði nám í myndlist og síðar arkitektúr í LHÍ. Bjó í Reykjavík um skeið en flutti aftur á heimaslóðir þar sem hann býr nú. Hefur að mestu unnið með teikningar og síðustu ár ljósmyndir í listsköpun sinni. Manngert og náttúrulegt landslag er eitt af áhugasviðum hans og það hvernig náttúra hefur áhrif á manninn og mannanna verk á náttúrulegt landslag.

Ljósmyndir hans voru hluti af samsýningu „Museum of Ennui” í Los Angeles á síðasta ári. Hann hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum.