Texti: Egill P. Egilsson

Myndir: Úr safni Jóhannesar (á Víkurblaðinu) Sigurjónssonar


Víkurblaðið er 40 ára á þessu ári og af því tilefni verður fjallað af og til um merka sögu blaðsins út afmælisárið. Nú skulum við aðeins rifja upp hvernig blaðið varð til í upphafi.

Ég sló á þráðinn til eins af stofnendum Víkurblaðsins, Arnars Björnssonar og spurði hann út í það hvernig ungum mönnum hafi dottið í hug að gefa út fréttablað á Húsavík fyrir 40 árum síðan?

„Ég varð stúdent 1979 og hafði mikinn áhuga á að gefa út blað á Húsavík. Ég hafði samband við Kára Arnór Kárason sem sýndi þessu áhuga eina vandamálið var hvar við ættum að prenta þetta,“ útskýrir Arnar.

Runólfur Elentínusarson var handavinnukennari á Laugum á þessum árum en hann var prentari að mennt og hafði gefið út blöð í Keflavík. Kári sem er ættaður frá Laugum vissi af honum og setti sig í samband við Runólf sem samþykkti að prenta blaðið. „Þar með fór boltinn að rúlla,“ segir Arnar.

Arnar á sínum yngri árum

Þeir Kári og Arnar voru strax á útkíki eftir liðstyrk „Við vorum að velta því fyrir okkur að bæta manni í hópinn og vissum af helvíti góðum járnabindingamanni starfandi á Húsavík, honum Jóhannesi Sigurjónssyni. Við vissum að hann væri góður penni og hafði gefið út ljóðabækur, m.a. hina stórmerku bók: „Æft varlega“.“ Þess ber að geta að hér er að sjálfsögðu átt við Jóhannes Sigurjónsson sem ritstýrði Víkurblaðinu þar til það hætti að koma út sem sjálfstætt blað. Hann ritstýrir í dag Skarpi og hefur gert það frá upphafi blaðsins. Jóhannes hefur því þjónað Húsvíkingum og Þingeyingum af ritvellinum í 40 ár og gert það með miklum sóma og fórnfýsi. Enda þó hér riti nýr ritstjóri Víkurblaðsins, þá er erfitt að hugsa um Víkurblaðið án þess að mynda hugrenningatengsl við Jóhannes. Hann ber líka enn þann dag í dag, viðurnefnið Jóhannes á Víkurblaðinu þó hann hafi ritstýrt öðru blaði í um 20 ár. Það er víst engin lygi að viðurnefni á Húsavík eru lífseig.

Arnar segir að þeir Kári hafi farið á fund Jóhannesar að kvöldlagi yfir helgi þar sem sá síðastnefndi var að skemmta sér og borið erindið undir hann. „Hann var nú kominn með augu vel í pung þegar þetta var en honum leist vel á þetta hjá okkur og sló til,“ útskýrir Arnar og bætir við að næstu skref þremenninganna hafi verið að hefja skriftir og sanka að sér fréttum af svæðinu.

Hvað á barnið að heita?

„Eftir að við vorum búnir að ræða það fram og til baka hvað blaðið ætti að heita og ýmsar misgáfulegar hugmyndir komnar fram, þá varð Víkurblaðið ofan á,“ segir Arnar.

Það vildi ekki betur til en svo að þegar eldhugarnir ungu voru tilbúnir með efni fyrsta blaðsins og ætluðu að aka því suður á Lauga í prentun að þá lendir Kári í árekstri á Kaldbaksleitinu við vörubíl. „Þá hugsuðum við; nú jæja, þetta ætlar að verða svona. En þetta reddaðist og blaðið kom út 21. júlí 1979,“ segir Arnar og stoltið leynir sér ekki í röddinni. „Ég var að vinna í aðgerðinni á þessum tíma. í hádeginu þennan dag kemur Kári og segir að blaðið sé komið. Það fór allt hádegishléið mitt í það að skoða það,“ útskýrir hann og viðurkennir að það hafi verið áhrifarík stund. „Þetta var bara miklu flottara en ég hafði gert mér í hugarlund að yrði.“

Arnar mundar myndavélina

„Google maps“ áður en google varð til

Þeir félagarnir hófust þá handa við markaðssetningu blaðsins sem í þá daga fólst í því að ganga hús úr húsi og selja blaðið í lausasölu. „Jói [Jóhannes] hefur nú ekki verið mikill sölumaður um ævina en ég náði að selja reiðinnar býsn,“ útskýrir Arnar og skellir upp úr. Ekki leið á löngu áður en Víkurblaðið var boðið í áskrift eða frá 4. tölublaði. Þá var fullt af gömlum Húsvíkingum í Reykjavík sem vildu fá blaðið suður. Þá var þetta aðeins mera mál en það er í dag að halda utan um og taka niður áskriftir. Hver einasta áskrift var tekin niður í gegnum síma, svo þurftum við að pakka hverju blaði inn og skila því í póstinn. Þegar ég kom til Reykjavíkur síðar á árinu og fór að ganga þar um, þá þekkti maður götur og fleiri staðhætti bara af því að hafa pakkað Víkurblaðinu heima á Húsavík, lært þannig götuheitin og vissi hvar flestir brottfluttir Húsvíkingar bjuggu í borginni,“ sagði Arnar Björnsson, einn af stofnendum Víkurblaðsins.