Fjölmenningarsamfélagið Norðurþing

Greinin er liður í Þema #4 Víkurblaðsins: Fjölmenning í Þingeyjarsýslum

Huld
Huld Hafliðadóttir. Mynd/epe

Samfara þeim hröðu breytingum sem orðið hafa á samfélaginu okkar undanfarin ár, bæði með ferðaþjónustu, iðnaði á Bakka og fólksfækkun í fámennari byggðarlögum, verðum við fyrst og fremst að spyrja okkur sjálf: í hvernig samfélagi viljum við búa, hvernig samfélag viljum við byggja?

Og við þurfum öll að leggja okkur fram. Það hvernig við komum fram, tölum við og um náungann og tökum á móti nýju fólki er allt hluti af uppbyggingu samfélagsins sem við búum í, meðvitað sem og ómeðvitað. Það hvernig við tölum við börnin okkar er það líka.

Við sem íbúar höfum svo miklu meira um samfélagið og uppbyggingu þess að gera en við kannski gerum okkur grein fyrir.

Hvað er fjölmenning?

Fjölmenning hefur verið skilgreind á marga vegu, en yfirleitt er átt við staði eða vettvang þar sem ólíkt fólk með margvíslega menningu (menntun, aldur, kyn, kynhneigð, lífsstíl, hefðir, siði, klæðaburð, mataræði, tungumál, trúarbrögð, viðhorf, gildi, uppruna og þjóðerni) býr og starfar saman á jafnréttisgrundvelli.

„Í raun kom þetta til þannig að ég var að hætta í Hvalasafninu og var að velta fyrir mér hvað tæki við. Ég fór á hálfgert hugarflug með sjálfri mér og niðurstaðan var að mig langaði til að vinna að þessum málefnum. Ég hef alltaf haft áhuga á fólki og hef sérstaklega gaman af að kynnast fólki frá ólíkum löndum og menningarheimum. Ég hef ágæta reynslu af því að starfa með eða sjá um erlenda nema og sjálfboðaliða úr starfi mínu í safninu og fyrir Rannsóknarsetur HÍ, þannig að einhver grunnur var til að staðar. Þá hef ég sjálf reynslu af því að búa erlendis í skemmri tíma og þá kynnist maður því af eigin raun hversu mikilvægt það er að samfélagið sé opið og tilbúið að taka á móti manni,“ segir Huld Hafliðadóttir fráfarandi fjölmenningarfulltrúi Norðurþings aðspurð um hvernig það kom til að hún hóf að starfa að fjölmenningarmálum.

„Ég er líka nemi í mannfræði og í mannfræðinni er allt litróf manna og samfélaga til rannsóknar; allt frá kaffistofumenningu yfir í heilu sjávarsamfélögin sem taka breytingum eða hvað annað sem verður á vegi manns. Mannfræðingurinn er gjarnan hluti af rannsóknarvettvanginum og hafði það líka áhrif. Mér fannst vanta meiri heildræna nálgun á það fjölmenningarsamfélag sem Norðurþing var nú þegar orðið. Fyrir mér er allt rannsóknarefni, öll mannleg hegðun.

Síðast en ekki síst er ég jógakennari og ef við köfum dýpra í merkingu orðsins jóga, þá á það sér rætur í því að koma saman; verða hluti af; eins konar sameining eða eining, en einnig sjálfsuppgötvun. Allt þetta fellur fullkomlega að því sem fjölmenningarstarfið felur í sér.“

Huld segir að fjölmenningarmál innan Norðurþings hafi verið málaflokkur sem lentu mikið á kantinum hjá starfsfólki annarra málefna, þrátt fyrir að vera í raun orðinn mjög nauðsynlegur með breyttri samsetningu samfélagsins. „Ég tók við tímabundinni stöðu fjölmenningarfulltrúa í mars sl. í lágu hlutfalli, sem síðar hefur reyndar hækkað.“

Það eru mörg brýn verkefni fjölmenningarfulltrúa

Markmið laga um málefni innflytjenda er að stuðla að samfélagi þar sem allir geta verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna. Þannig eiga hagsmunir innflytjenda að vera samþættir allri stefnumótun, stjórnsýslu og þjónustu hins opinbera. Þá gegna skólarnir sínu lagahlutverki, en þar er tekið á móti erlendum nemendum í auknu mæli. Í raun er þetta mjög þverfagleg nálgun.

„Það þarf því að móta heildstæða stefnu um það hvernig samfélag við viljum byggja á þessum fjölmenningarlega grunni sem nú þegar hefur myndast,“ útskýrir Huld.

Hvað hefur þegar verið gert?

„Við höfum það sem af er hausti/vetri komið þónokkru í verk, en í byrjun september voru haldnir þrír viðburðir sem báru yfirskriftina Velkomin í Norðurþing, þar sem forsvarsmenn Norðurþings buðu nýja íbúa formlega velkomna í sveitarfélagið, auk þess sem þeir þjónustuaðilar sem koma að málefnum nýrra íbúa kynntu þjónustu sína. Það tókst nokkuð vel til og sendum við boð á alla íbúa sem búið hafa hér í eitt ár eða skemur. Stefnt er að því að slík móttaka verði haldin árlega.

Þá sótti Norðurþing, ásamt Rauða Krossinum í Þingeyjarsýslum, um styrk til Rauða Kross Íslands um að halda svokölluð fjölmenningarkvöld, þar sem markmiðið er að leiða saman íbúa á grundvelli fjölmenningar með sérstaka áherslu á að ná til nýrra íbúa, þá ekki síst erlendra íbúa.

Fjölmenningarkvöldin verða haldin mánaðarlega og er ákveðið þema á hverju þeirra, eins og matarmenning, hefðir um jól og áramót, félagasamtök o.fl. o.fl.

Kvöldin hafa farið vel af stað og hef ég verið í skýjunum með mætingu á þessum tveimur kvöldum sem haldin hafa verið. Á fyrsta kvöldinu mættu gestir frá 13 þjóðlöndum og á öðru kvöldinu var virklega góð mæting heimafólks, sem segir manni það að fólk á öllum aldri er almennt opið og tilbúið til að eiga samtal og taka á móti nýjum íbúum. Mér þótti mjög vænt um að sjá það.

Áskoranir má helst nefna fordóma, þegar við dæmum án þess að þekkja. Þá má nefna ótta við breytingar eða að við viljum halda í samfélag sem við þekktum eitt sinn og okkur líkaði vel við en erum ekki tilbúin í þær breytingar sem felast í aukinni hnattvæðingu og oft á tíðum uppgangi í þjóðfélaginu.

Við þurfum að reyna að koma í veg fyrir félagslega einangrun og hjálpa fólki að finna að það hafi tilgang í samfélaginu, að hver og einn skipti máli. Það starf byrjar auðvitað hjá okkur sem erum foreldrar að kenna börnunum okkar að við erum öll jöfn, þrátt fyrir að við séum ólík.

Ég er mjög bjartsýn (kemur ekki á óvart) á að við hér í Norðurþingi getum haldið áfram að byggja upp og stuðla að jákvæðum samskiptum okkar í milli, óháð uppruna eða bakgrunni og í því efni getum við tekið börnin okkur til fyrirmyndar. Börn í leik- og grunnskólunum hér á Húsavík læra nú öll á grundvelli uppeldisstefnunnar jákvæðs aga og kannski er ekki úr vegi að við prófum að snúa orðatiltækinu við: Það þarf barn til að ala upp heilt samfélag,“ skrifar Huld í aðsendu svari um fjölmenningarmál í Norðurþingi.

/epe/HH/