Framhaldsskólinn á Húsavík – lykilstofnun í samfélaginu

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings skrifar

Kristján Þór
Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings

Það eru 32 ár liðin frá því að Framhaldsskólinn á Húsavík tók til starfa og hefur starfsumhverfi skólans tekið töluverðum breytingum á þessum tíma. Þótt skólinn; nemendurnir og kennarar séu sem fyrr toppfólk, þá er staðan því miður sú að þessu öndvegisfólki í skólanum hefur fækkað, bæði vegna viðvarandi fækkunar íbúa á svæðinu frá því um aldamótin 2000 og allt til ársins 2017. Á þessum rúmlega 30 árum frá stofnun skólans hafa flestir íbúar á Húsavík verið 2511 talsins árið 1996, en fæstir árið 2017, eða 2176. Ofan í þessa þróun hafa lagabreytingar er varða styttingu framhaldsskólanáms valdið töluverðri fækkun nemenda sömuleiðis sem þýtt hefur að erfiðara hefur reynst að reka skólann.

Norðurþing er hinsvegar sveitarfélag í sókn. Þar viljum við vera og þannig skóla viljum við eiga. Við viljum að sveitarfélagið okkar vaxi og dafni, en þá stöðu hefur nú m.a. náðst að skapa fyrir tilstuðlan framhaldsskólans og þá staðreynd að hann er hér starfandi. Framhaldsskólinn er ein af lykilstofnunum samfélagsins sem við íbúarnir verðum að standa vörð um. Mér finnst það vera ótvíræð lífsgæði sem eru fólgin í því að búa á stað þar sem starfræktur er framhaldsskóli. Það væri ansi tómlegt hér á veturna ef vantaði inn í samfélagið okkar allt það kraftmikla flotta unga fólk sem leggur stund á nám við skólann. Við sem eldri erum, foreldrar, vinir og ættingjar megum ekki gleyma því að styðja rækilega við bakið á okkar krökkum þegar í framhaldsskóla er komið, einfaldlega vegna þess að það er ekki sjálfgefið að þessar þjónustu njóti við. Svo er auðvitað ljóst að það er bæði hagkvæmara og skemmtilegra að geta haft börnin okkar lengur heima en til 16 ára aldurs. Þótt ég hvetji alla sem þess eiga nokkurn kost að kynnast heiminum, að ferðast og prófa að búa annarsstaðar en í túnfætinum heima, þá eru ekkert síðri tækifærin til þess einmitt að loknu framhaldsskólanámi.

Töluverð fjölgun íbúa hefur orðið í sveitarfélaginu okkar síðustu tvö ár og búa nú ríflega 3000 manns í Norðurþingi; alls um 2300 á Húsavík nú um stundir. Eitt af því sem fólk í flutningshugleiðingum veltir fyrir sér, er einmitt hvort þjónustu framhaldsskóla nýtur við í samfélaginu sem það er að skoða. Því verðum við íbúar í Þingeyjarsýslum að gera hvað við getum til að efla, styðja og hvetja skólann okkar þannig að hann haldi áfram að vera fyrsta val sem allra flestra nýnema á svæðinu.

Við á Húsavík erum leiklistarfólk. Eitt af því skemmtilega sem einkennt hefur skólann síðustu þrjá áratugina er öflugt leiklistarstarf nemenda gegnum Leikklúbbinn Píramus og Þispu. Nægir þar einfaldlega að nefna síðustu uppfærslu skólans á Vælukjóa nú í vetur, í samstarfi við Framhaldsskólann á Laugum sem sýndi og sannaði að þingeyskt menningarlíf og kraftmiklir unglingar vaxa úr grasi í okkar samfélagi ekki síður í dag en áður. Þegar ég sjálfur stundaði nám við FSH fékk ég tækifæri til að taka þátt í leiklistarstarfi og reyndist það mér gríðarlega mikilvægur skóli og hef ég búið að því alla tíð síðan. Að mínu mati hefur áherslan í gegnum tíðina á tjáningu, framkomu og jákvæðan aga bæði í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins byggt undir gott og öflugt leikhússtarf FSH.

En af hverju er ég að koma þessu á framfæri hér. Jú, vegna þess að nú eru tilvonandi nemendur framhaldsskólanna í landinu að innrita sig og ég vona innilega að Framhaldsskólinn á Húsavík fái sem allra flesta nýnema á gangana í haust og að við njótum þess að hafa öflugan hóp unglinga áfram hjá okkur á Húsavík við leik og störf á þessum mikilvægu mótunarárum. Auðvitað leita alltaf einhverjir eitthvað annað eins og gengur og það ber að virða af heilum hug. En ég hvet engu að síður alla til þess að kynna sér starf FSH til hlýtar og veit að starfsfólk skólans tekur vel á móti öllum þeim sem þess óska.

Það er tilhlökkunarefni að fá að fylgjast með öflugu félagslífi FSH næsta vetur og ég vona að metnaður nemenda til þess að standa sig vel, bæði í námi og leik verði næsta áþreifanlegur. Ég vil að lokum nota þetta tækifæri og óska öllum tilvonandi nýnemum framhaldskólanna góðs gengis á næstu misserum og vona að þið finnið öll skóla við ykkar hæfi, því framtíðin er ykkar.

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings.