Framsýn gefur lokafrest

Boðar til félagsfundar á fimmtudag

Úr verksmiðju PCC á Bakka. Mynd/ Framsýn stéttarfélag.

Í  tilkynningu á vef stéttarfélagsins Framsýnar er boðað til félagsfundar á fimmtudag þar sem afstaða verður tekin um hvort draga eigi samningsumboð félagsins til baka og vísa deilunni til ríkissáttasemjara.

Starfsgreinasambands Íslands og Landssambands íslenskra verslunarmanna fara nú með samningsumboð Framsýnar gagnvart Samtökum atvinnulífsins. Í samtali Víkurblaðsins við Aðalstein Árna Baldursson, formann Framsýnar á dögunum kom fram að lítið þokaðist í viðræðunum varðandi launaliðinn og þolinmæði félagsins væri að renna út varðandi það deilunni hafi ekki verið vísað nú þegar.

SGS og LÍV hafa fram á fimmtudag að vísa deilunni. „Reiknað er með að félagsfundur Framsýnar samþykki að draga samningsumboð félagsins frá SGS/LÍV til baka á fimmtudaginn enda verði samböndin þá þegar ekki búin að vísa deilunni til ríkissáttasemjara,“ segir í tilkynningunni.

Þá er verður einnig tekin afstaða til viðræðna stéttarfélaganna við PCC á Bakka um gerður verði kjarasamningur, en stéttarfélögin fara sjálf með samningsumboðið hvað þann samning varðar. „Með því að vísa deilunni og ef ekkert gengur frekar í viðræðum félaganna við PCC gætu félögin boðað til aðgerða í mars,“ segir í tilkynningunni.