Föstudaginn 8. febrúar, úthlutaði Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra 80 milljónum króna til menningar, atvinnuþróunar og nýsköpunar á starfssvæði Eyþings. Alls bárust 132 umsóknir, þar af 50 til atvinnuþróunar og nýsköpunar og 82 til menningar.  Samtals var sótt um tæpar 308 milljónir króna.

Uppbyggingarsjóður samþykkti að veita 78 verkefnum styrkvilyrði að upphæð samtals 80 milljónir króna.

Víkurblaðið mun á næstu vikum kynna þau þingeysku verkefni sem hlutu styrk. Að þessu sinni er verkefnið „Framtíðin með Dettifossvegi“ kynnt til sögunnar en það hlaut 500 þúsund frá sjóðnum. Það er Norðurhjari, ferðaþjónustusamtök sem standa að verkefninu.

„Nú hyllir undir að lokið verði við Dettifossveg 862 en áætlað er að hleypa umferð á veginn haustið 2019. Tilkoma vegarins mun án efa valda miklum breytingum hjá aðilum Norðurhjara, einkum á vesturhelmingi svæðisins,“ segir Halldóra Gunnarsdóttir, verkefnastjóri Norðurhjara í samtali við Víkurblaðið.

Norðurhjari, ferðaþjónustusamtök starfa á svæðinu frá Kelduhverfi austur á Bakkafjörð.

Tilgangur félagsins er að efla ferðaþjónustu á svæðinu, leggja sitt af mörkum til að skapa og byggja upp ímynd svæðisins með tilliti til sérstæðrar náttúru og sveita- og strandmenningar, og auka búsetugæði á svæðinu. Innan samtakanna eru rúmlega 30 fyrirtæki.

„Ætlunin er að undirbúa aðila á svæðinu, tengja saman aðila innan svæðis og utan, aðstoða við vöruþróun og nýsköpun og uppfæra kynningarefni Norðurhjara í samræmi við þennan nýja veruleika. Einnig að upplýsa ferðaþjónustuaðila og ferðaskrifstofur, bæði íslenskar og erlendar,“ útskýrir Halldóra. Hún segir markmið verkefnisins að undirbúa fjölgun ferðamanna í Kelduhverfi en gert er ráð fyrir að hann eigi eftir að margfaldast.  „Ein af áskorununum verður einnig að fá ferðamennina til að halda áfram og skoða austursvæðið en beygi ekki allir til vesturs frá Ásbyrgi. Því verður að standa vel að málum á svæðinu öllu.“

Að sögn Halldóru verða allir aðilar hvattir til og aðstoðaðir við að huga að lengri opnunartíma, samstarfi, vöruþróun og nýsköpun. „Einnig verða aðilar hvattir til að uppfæra kynningarefni sitt, heimasíður og prentað efni, ásamt því að upplýsa ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur í hópi viðskiptavina sinna.