Frost í viðræðum um launaliðinn

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar

Undanfarnar vikur og mánuði hafa verið haldnir fjölmargir samningafundir á vegum Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Fyrir hönd Framsýnar hefur formaður félagsins, Aðalsteinn Árni Baldursson, tekið þátt í viðræðunum. Í samtali við Víkurblaðið á dögunum sagði hann  viðræðurnar hafa gengið vel með ýmis sérmál en langt sé í land varðandi launaliðinn, þar sé himinn og haf á milli krafna SGS og þess sem atvinnurekendur eru tilbúnir að greiða. Aðalsteinn segir jafnframt að hann telji að deilunni verði vísað til ríkissáttasemjara innan skamms.

Ein af kröfum verkalýðshreyfingarinnar hefur verið að ná fram styttingu vinnuvikunnar en hugmyndir SA þar að lútandi hafa ekki mælst vel fyrir. Þær ganga út á það að fella niður neysluhlé úr vinnutíma launafólks og vinnudagurinn styttist sem því nemur. Þá er lagt til að deilitala dagvinnu fari úr 173,33 tímum í 160 tíma og yfirvinnuálag breytist úr 80% í 66%. Þessu til viðbótar liggur fyrir að SA vill að dagvinnutímabilið lengist með þeim hætti að hægt sé að vinna á dagvinnutaxta á tímabilinu 06:00 til 19:00 á kvöldin og að uppgjörstímabil til útreiknings á yfirvinnu verða á þriggja mánaða tímabili.

„Í þessu felst engin launahækkun, það er bara verið að dreifa þessu, þetta er undarleg og sérstök hugmynd,“ segir Aðalsteinn og bætir við að það skjóti skökku við að á sama tíma og umræða hafi verið um aðgerðir til að koma í veg fyrir kulnun í starfi þá vilji SA taka neysluhlé af fólki. „Hvað varðar tillögur um breytingar á yfirvinnuálagi þá er þar um að ræða mikla tekjuskerðingu fyrir þann hóp fólks sem neyðist til að vinna yfirvinnu. Það sem er á bak við þessar hugmyndir er eingöngu það að ódýrara verði fyrir atvinnurekendur að láta fólk vinna yfirvinnu. fyrir atvinnulífið. þetta er ekki það sem fólk er að kalla eftir, fiskvinnslu fólk og fleiri. Það talar um að yfirvinna sé allt of ódýr í dag fyrir atvinnurekendur. Það er æskilegra að hún verði dýrari ef á að takast að draga úr henni. Ég ætla ekki að standa frammi fyrir mínu fólki og segja að við höfum samið um þetta.“

Aðalsteinn bendir á að VG, Efling og Verkalýðsfélag Akraness, hafi hafnað þessum hugmyndum alfarið en því miður séu þær enn inni á borði SGS. „Þessar hugmyndir þurfa að komast þaðan út sem fyrst enda eru þær fáránlegar. Ég mun berjast fyrir því að þetta verði ekki að veruleika,“ segir Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar.