Undanfarna daga og vikur hefur verið unnið að því að setja upp fugla- og náttúruskoðunarskýli víða í Norðurþingi. Eitt er á Höskuldarnesi á Melrakkasléttu, annað er við Kópasker og loks er eitt við Svarðarmýrartjörn við Kaldbak.

Á vef Norðurþings kemur fram að vonir standi til að fleiri slík skýli verði sett upp á næstu árum og gæti næsta skýli orðið selaskoðunarskýli við Bakkahlaup í Kelduhverfi, en það hefur ekki verið staðfest. Það er Fuglastígur og Norðurþing sem eiga veg og vanda af verkefninu en það er Trésmiðjan Rein sem framleiðir skýlin og kemur þeim fyrir.

Verkefnið er styrkt af framkvæmdasjóði ferðamála.

Náttúrufegurð á á þessum svæðum er einstök, fjölskrúðugt fuglalíf, og því tilvalið að grípa með sér kaffibrúsa og með því og njóta góðrar stundar í kyrrðinni.

Fréttin hefur verið uppfærð: Áður kom fram að skýlin væru fjögur og tekið fram að eitt skýli hafi verið sett upp á Tjörnesi. Hið rétta er að skýlin eru þrjú, miskilningurinn felst í því að strangt til tekið er Svarðarmýrartjörn á Tjörnesi, en málvenja gerir þó ekki ráð fyrir því.

Starfsmenn Trésmiðjunnar Reinar vinna að uppsetningu eins af fugla- og náttúruskoðunarskýlunum við Svarðarmýrartjörn við Kaldbak. Mynd /epe
Mynd: Norðurþing