Árið 2016 var eitt af þeim allra bestu í sögu íslenskrar ferðaþjónustu.  Ferðamönnum fjölgaði mikið frá árinu áður og var afkoma því víða góð. Hvalasafnið á Húsavík fór ekki varhluta af þessu. Gestafjöldi náði sögulegu hármarki þar sem 34 þúsund manns heimsóttu safnið, samanborið við 26 þúsund árið 2015. Þetta kemur fram í skýrslu sem Heiðar Hrafn Halldórsson tók saman fyrir Hvalasafnið á Húsavík.

Ferðaþjónusta hefur undarfarin ár verið einn aðalatvinnuvegur Þingeyjarsýsla. Víkurblaðið leitaði fanga hjá ýmsum aðilum í ferðaþjónustu og í stjórnkerfi sveitarfélaganna á svæðinu. Athygli vekur að flestir viðmælendur blaðsins nefna flugsamgöngur sem eina helstu hindrun heilsársferðaþjónustu á svæðinu.

Íslandskort
Íslandskort úr bæklingi Hvalasafnsins eftir listakonuna Rena Ortega

„Frá árinu 2016 hafa orðið töluverðar breytingar á rekstarskilyrðum í ferðaþjónustu. Sterk íslensk króna auk mikilla hækkana launa og eldsneytis hafa orðið til þess að ferðir til Íslands hafa orðið mun dýrari og eftirspurn því minnkað. Aukinheldur hafa þeir ferðamenn sem koma heilt yfir stytt ferðatíma sinn í landinu sem bitnar fyrst og seinast á ferðaþjónustu á landsbyggðinni,“ segir í skýrslunni.