Góðir hlutir

Silja Jóhannesdóttir skrifar:

Höfnin við Kópasker. Mynd/epe
Póli-tíkin
Silja Jóhannesdóttir

Ég sat ársfund Fjallalambs á sunnudaginn. Þetta er annað árið í röð sem ég sit þann fund sem fulltrúi Norðurþings því sveitarfélagið á hlut í fyrirtækinu.


Í fyrra var frekar dimmt yfir fólki og ekki hagnað að sjá í ársreikningi. Ári seinna er búið að snúa tapi í hagnað og sala grillkjöts þetta sumarið orðið nánast jafn mikil og fyrir allt síðasta ár. Fyrirtækið er komið í A flokk í gæðamálum eftir mikla og góða vinnu til að bæta alla ferla og innra starf. Í dag er Fjallalamb með leyfi til að selja til Kanada og 10. júní síðastliðin fékkst leyfi til að selja á Kína markaði. Fjallalamb stendur einnig öðrum kjötvinnslum framar hvað varðar upprunamerkingar og því eru tækifærin ennþá óþrjótandi.

Á sama tíma kíkti ég á nýtt fuglaskýli sem sett var upp á Kópaskeri. Tvö önnur voru sett upp á svipuðum tíma og í dag er verið að vinna endurstefnumótun á verkefninu Fuglastígur á Norðausturlandi. Fuglaáhugafólk hleypur á tugum milljóna og er norðausturhorn landsins  afar áhugavert fuglaskoðunarsvæði og ljóst að þar eru tækifæri. Því er mikilvægt að stuðla að og ýta undir innviðaupppbygginu fyrir þennan markhóp á svæðinu.

Dagurinn var þokkalega fallegur og ég sá hóp fólks hoppa á ærslabelgnum sem nýlega kom upp á Kópaskeri og ég hugsaði með mér að lífið væri frekar ljúft.

Ég er núna búin að sitja fyrir hönd Samfylkingar í rúmt ár í sveitarstjórn og sannarlega hef ég oft þurft að taka á honum stóra mínum því gagnrýnin er oft óvægin. Hinsvegar hefði ég ekki viljað missa af neinu því ég læri eitthvað nýtt á hverjum degi. Ég hef fengið að koma að uppbyggingu á slökkvistöð, verið með í að hrinda af stað vinnu við Reykjaheiðarveg sem hefur beðið of lengi, hafið vinnu við uppbyggingu á Reyðarárhnjúk með skipulagi og hugmyndavinnu, vinnu við fyrstu umhverfisstefnu Norðurþings, endurvakningu Húsavíkurstofu, komið hefur verið á reglulegri endurskoðun á framkvæmdaáætlun og er þetta bara brotabrot af verkefnunum.

Einnig hefur verið tekið á málum sem tengjast brotum á skipulagi og reynt að skýra ferla og eftirlit t.d. er varðar beitarhólf. Ekki hefur allt gengið að óskum og enn er verið að reyna að bæta alla innri vinnu svo að dragi úr framúrkeyrslu í framkvæmdum og framkvæmdahraði vinnu sé ásættanlegur.

Ég hef mest lært af fólkinu í kringum mig, starfsmönnum Norðurþings, verktökum, samferðafólki í pólitík bæði í meiri- og minnihluta og ekki síst er lærdómsríkt að eiga samtalið við íbúa. Ég býst fastlega við að næstu þrjú ár verði jafnáhugaverð og lærdómsrík.

Áfram Norðurþing!

Silja Jóhannesdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi

og formaður Skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings