Hamfarir, lygar og hundaskítur

Greinin byggir á leiðara sem birtist í Víkurblaðinu #13

Mynd: @tdyuvbanova via Twenty20

Undanfarið hefur borið á umræðu um sóðaskap á Húsavík sem hlýst af hundahaldi en

Egill P. Egilsson.

Norðurþing sendi nýlega út orðsendingu til hundaeigenda þar sem þeir voru minntir á að virða samþykkt sveitarfélagsins um hunda- og kattahald. Fram kom að kvartanir hafi borist um að margir hundaeigendur virði ekki settar reglur og víða megi finna hundaskít í Húsavíkurbæ.

Þessi harðorða tilkynning var send út svo til samdægurs og fjölgaði í fjölskyldu minni um eina blendingstík sem við fengum senda sunnan úr Reykjavík. Ekki tók ég orðsendinguna sérlega til mín þ.e. ég fann ekki til sektar sem eflaust einhverjir hundaeigendur geta fundið fyrir. Tíkin mín hafði skitið svo duglega á Akureyri áður en ég ók henni síðasta spottann austur að henni náði ekki að verða mál aftur áður en tilkynningin var send út (Engar áhyggjur Akureyringar ég tók upp eftir hana, og þurfti til þess tvo poka hvorki meira né minna).

Það var ekki ætlun mín að tuða sérstaklega um hundaskít í þessum skrifum en mér þótti þetta skemmtilega óþægileg tilviljun. Ég er hins vegar ábyrgur hundaeigandi og hirði upp eftir tíkina það sem hún skilur eftir sig.

Að hugsa út í neyslu sína

Tíkin mín tengist þó lítillega því sem ég vildi tuða yfir, en það eru umhverfis og loftslagsmál. Nú tel ég mig vera a.m.k. þokkalega vistvænan einstakling miðað við að vera íslenskur forréttinda auli.

Fyrir tveimur árum fékk ég ógeð af því hvað ég var gagnrýnilaus neytandi og gerði dramatískar breytingar á mataræði mínu. Ég hætti neyslu dýraafurða, nokkuð sem kallað er í daglegu tali veganismi eða að vera grænkeri. Nú ætla ég ekki að predika hvað er nákvæmlega rétta leiðin í þessu þó vissulega liggi fyrir beinharðar vísindalegar sannanir um að kjötneysla vesturlandabúa er ein hættulegasta ógnin sem steðjar að jörðinni. Það er bæði vegna losunar á gróðurhúsalofttegundum,  landnotkun og vatnsnotkun. Eitt það áhrifaríkasta sem einstaklingur getur gert til að leggja sitt á vogarskálarnar í loftslagsmálum er að minnka kjötneyslu sína, ekki endilega hætta henni heldur minnka hana. Nægir að nefna leiðbeiningar landlæknis um kjötneyslu fyrir heilsuna en það eru um 500 grömm af rauðu kjöti á viku. Ef allir vesturlandabúar myndu fylgja slíkum tilmælum, þá væri það mikill sigur fyrir móðir okkar jörð.

Minn stærsti ávinningur við að gera þessa breytingu á mataræði er að ég hef vaknað betur til meðvitundar um neyslu mína. Að gerast grænkeri krefst þess nefnilega að maður grandskoði nánast allar matvörupakkningar til að svipast eftir því hvort varan innihaldi dýraafurðir, það er nefnilega með ólíkindum hvað mikið er af dýraafurðum í ólíklegustu neysluvörum. Ég gerði mér t.d. ekki grein fyrir því að hér um bil allt sælgætis hlaup er inniheldur nokkuð sem heitir gelatín sem unnið er úr beinum og sinum spendýra. Þessi iðja að rannsaka alla matvöru áður en ég kaupi hana var í fyrstu drepleiðinleg en vandist fljótt og hefur síðan smitast yfir á aðra þætti dagleg lífs. Ég spyr fleiri spurninga og þegar mig langar til að kaupa eitthvað, þá velti ég því betur fyrir mér en áður hvort ég þurfi það virkilega. Ég er alls ekki hinn fullkomni neytandi en ég er klárlega betri neytandi en ég var áður.

Loftslagstungumálið

Í vikunni lærði ég nýtt orð. Það er flugviskubit og ef ég skil það rétt, þá lýsir það samviskubiti umhverfissinnaðra einstaklinga sem fljúga með flugvélum en eins og gefur að skilja losa flugvélar og farþegaþotur talsvert af gróðurhúsalofttegundum. Það er lítil hætta á því að ég þjáist af flugviskubiti en það er ekki vegna þess að mig langar ekki til að fljúga eða hafi valið að gera það ekki. Nei, það er vegna þess að ég er ritstjóri lítils héraðsfréttamiðils í Þingeyjarsýslum og hef ekki ráð á svoleiðis húmbúkki. Ef þig langar til að stuðla að því að ég komist með flugvél til heitu landanna áður en ég verð 100 ára, þá endilega smelltu hér og keyptu val-áskrift. Ég lofa á móti að ef ég kemst kemst í ferðalag með flugvél þá skal ég gróðursetja nokkur tré upp í kolefnissporið. Það er einmitt leið sem fólk hefur farið í auknum mæli til að minnka flugviskubitið. Sjá hér.

Tíkin mín opnaði augu mín enn frekar fyrir umhverfismálum á dögunum þegar ég ákvað að fara með hana niður í fjöru, rétt neðan við sláturhúsið. Þetta var á einstaklega björtum degi og álengdar sá ég hvítan jeppa úti í vegarkanti með kerru í eftirdragi. Uppi í Stangarbakkanum neðan við Mararbraut var maður með ruslapoka að tína upp rusl. Þetta var ekki sérstökum auglýstum hreinsunardegi og þessi magnaði maður sést oft og iðulega á þessum stað og víðar að hreinsa umhverfið fyrir okkur hin.

Hér má sjá ruslið sem greinarhöfundur tíndi upp í um það bil þremur skrefum rétt neðan við sláturhúsið á Húsavík. Mynd/epe.

Í þetta skiptið varð ég fyrir sterkari áhrifum en áður og ákvað að horfa betur í kringum mig. Ég gekk aðeins út í grjótið og í hverju skrefi tók ég upp rusl, gamla plastbrúsa, umbúðaplast eða annan ósóma og ég hugsaði með mér svona gæti þetta ekki gengið lengur. Við verðum öll sem eitt að leggjast á árarnar og gera dramtískar breytingar. Það er einfaldlega ekki nóg til af mönnum á hvítum jeppum til að anna því að tína upp allt ruslið eftir okkur hin á björtum dögum. Við verðum að finna leið til þess að ruslið verði minna, þá sérstaklega plast og önnur efni sem brotna hægt niður í náttúrunni.

Jörðin er fyrir alla; líka komandi kynslóðir

Sveitarstjórn Norðurþings hefur ráðist í vinnu við að móta nýja umhverfisstefnu, ég hef ekki séð afrakstur þeirrar vinnu en það verður spennandi að sjá hvað umhverfisstefnan boðar.

Ég vona innilega að hún verði metnaðarfull og hef ekki sérstaka ástæðu til að ætla annað; að hún innihaldi eitthvað dramatískara en vinsamleg tilmæli til þegnanna um að nota taupoka í stað einnota plastpoka og að fólk hjóli stundum í vinnuna. Við sem einstaklingar ættum að geta tekið sjálf til slíkra ráða og verið ábyrgari í neyslu okkar. Það er hins vegar á ábyrgð stærri stofnanna, fyrirtækja, sveitarfélaga og ríkja að koma með skilvirkari lausnir. Áhrifaríkustu lausnirnar liggja í innkaupastefnunni, að forðast það t.d. eins og unnt er að eiga í viðskiptum við verktaka og fyrirtæki sem fjárfesta í olíuiðnaði, vopnaframleiðslu eða ósjálfbærum iðnaði. Að vanda sig við kaup á búnaði, tækjum, fararkostum og þjónustuaðilum. Reyna ætíð að velja umhverfisvænustu kostina enda er það alltaf svo að buddan er það tæki sem hraðast getur knúið fram breytingar. Það á bæði við um hvað við eyðum innihaldi buddunnar í, en ekki síður í hvað við kjósum að eyða ekki. Og í almáttugsbænum fækka óþarfa flugferðum á ráðstefnur og fundi, á meðan nýmóðins fjarfundabúnaðurinn safnar ryki. Það er árið 2019, það er hægt að halda fund í öllum heimsálfum í einu bara í gegnum facebook.

Gott dæmi um hvernig lausnum við augljósri almannavá er haldið í gíslingu er

Þessi mynd er tekin af ritstjóranum þegar hann er í kringum 14 ára aldurinn, innandyra í stigaganginum upp í Litlasal gamla félagsheimilisins á Húsavík. þegar myndin er tekin er skemmtun á vegum æskulýðssamtaka á efri hæðinni. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, ritstjórinn hættur að reykja og mun færri unglingar byrja að reykja.

áróðursvél tóbaksiðnaðarins sem áratugum saman laug vísvitandi í neytendur sína um skaðsemi reykinga. Iðnaður sem neitaði ítrekað gegn betri vitund, að nikótín væri ávanabindandi. Það tók vísindasamfélagið allt of langan tíma að koma réttum skilaboðum framhjá áróðursmaskínu þessara stórfyrirtækja og á meðan hélt fólk áfram að deyja af völdum reykinga. Það má heldur ekki gleyma því að lífeyrissjóðir og ríkissjóðir um víða veröld fjárfestu í þessum fyrirtækjum m.a. Noregur. En að lokum virðist sannleikurinn hafa fengið að sigra þessa baráttu sem skilaði sér í betri forvörnum, skertu aðgengi að tóbaki, hærri skattheimtu og síðast en ekki síst að fleiri stórir aðilar hættu að fjárfesta í þessum fyrirtækjum af siðferðislegum ástæðum. Enda hefur tekist að fækka nýjum neytendum hlutfallslega mjög mikið.  Þetta hefur reynst tóbaksfyrirtækjunum mjög erfitt þrátt fyrir digra sjóði. Það ætti því ekki að koma mjög á óvart að mörg þessara fyrirtækja hafa nú fjárfest í kannabisiðnaði og eyða nú fúlgum fjár í að sannfæra valdhafa og almenning um að neysla kannabisefna sé hættulaus en það er önnur ella þótt stefið sé kunnulegt.

Eitthvað svipað virðist vera uppi á teningnum í dag varðandi loftslagsvísindin sem í áratugi hafa varað okkur við hættuni sem sívaxandi losun gróðurhúsalofttegunda hefur í för með sér. Þangað til sannleikurinn sigrar þessa baráttu og valdhafar fara að taka ákvarðanir sem byggja á heilbrigðri framtíðarsýn. Ákvarðanir sem stuðli að því að leyfum og fjármagni sé ávallt veitt með tilliti til náttúrunnar; þangað til er hvatinn til að vera sóði enn til staðar, því það er því miður allt of oft ódýrari kosturinn.

Hættum svo að tala um loftslagsbreytingar og notum orð sem lýsa ástandinu rétt, eins og loftslagshamfarir. Vegna þess að þangað til valdhafar sýna ábyrgð í verki heldur fólk áfram að deyja af völdum loftslagshamfara, jöklar halda áfram að bráðna, hafið heldur áfram að rísa, móðir okkar jörðin heldur áfram að kafna og framtíð okkar mannkyns heldur áfram að styttast.

Egill P. Egilsson

ritsjóri