Skjálfandi – listahátíð verður haldin í Samkomuhúsinu á Húsavík föstudagskvöldið 9. júní n.k. Þetta er í áttunda árið í röð sem hún er haldin en tugir listamanna hafa tekið þátt í gegnum tíðina og margir þeirra verið að stíga sín fyrstu en ekki síðustu skref á listasviðinu.  

Það er Harpa Fönn Sigurjónsdóttir sem skipuleggur hátíðina eins og hún hefur gert frá upphafi. Hún segist oft hafa velt því fyrir sér af hverju hún sé að standa í þessu enda sé gríðarlega mikil vinna sem liggur á bak við skipulagningu slíkrar hátíðar.

Harpa segir í samtali við Víkurblaðið að hátíðin hafi fyrst verið haldin á æskuheimili hennar að Kaldbak. Þá hafi listamönnum, m.a. listahópnum Vinnslunni sem Harpa er meðlimur í verið boðið að vera með vinnustofur í heila viku. Hátíðin hét áður Jónsvika og lokakvöld hátíðarinnar var að kvöldi Jónsmessunætur. „vaxandi ferðamannastraumur varð til þess að hátíðin færðist til í tíma og hefur verið haldin undanfarin ár í maí,“ útskýrir Harpa en fjölskylda hennar hefur rekið gistiþjónustu að Kaldabak í mörg ár. „Þá ákváðum við,- Vinnslan að hátíðin myndi heita Skjálfandi sem okkur fannst meira viðeigandi úr því hún var komin yfir í maí. Nú hefur hún verið haldin í Samkomuhúsinu undanfarin ár á föstudagskvöldi fyrir Júróvisjón,“ segir hún og hlær.

Harpa viðurkennir að þessi átta ár sem hún hefur staðið að hátíðinni séu búin að vera talsverð rússíbanareið, tilfinningalega. „Fyrst var þetta mjög stórt í sniðum með vinnustofunum en svo minnkuðum við þetta og fórum að einblína meira á heimafólk. Þá var það bara Vinnslan af utan að komandi listafólki sem var með eitthvað flipp til að brjóta þetta upp. Síðan fórum við að leita að fjármagni til að reka hátíðina en það var virkilega erfitt fyrstu árin, enda var það undantekningalaust að ég sagði við sjálfa mig í hvert sinn er Skjálfanda lauk: „aldrei aftur!“ Af því að þetta er svo mikil vinna og álag,“ segir hún og varpar öndinni, áður en það lifnar yfir henni aftur og hún tilkynnir: „Svo kom að því í fyrra að Norðurþing samþykkti að styrkja hátíðina til þriggja ára. Ég barðist fyrir því að fá gildistíma samningsins upp í þrjú ár. Þá fær maður ekki þessa uppgjafartilfinningu um leið og hátíðin er búin af því að það þarf að fara betla peninga fyrir næstu. Nú finn ég bara tilhlökkun.“

Ber sterkar tilfinningar til Skjálfanda

„Ég elska þessa hátíð svo mikið út af því að hún er að fá listafólk hér í bænum til að stefna að einhverju. Hafa verkefni a.m.k. einu sinni á ári,“ segir Harpa en það fer ekkert á milli mála að hún er mjög ástríðufull í garð hátíðarinnar sem hún hefur skapað og haldið lífinu í öll þessi ár.

Eitt af megin markmiðum sem Harpa vill ná fram með Skjálfanda er að geta boðið yngsta listafólkinu upp á fjölbreytt val. Að það sé hægt að finna sjálfan sig á svo mörgum sviðum. „Eftir á að hyggja fann ég sjálf ekki mín hillu fyrr en eftir 25 ára aldur. Ég hefði gjarna viljað finna hana mun fyrr. Ég hefði getað blómstrað og verið komin mun fyrr á góðan stað í lífinu,“ útskýrir Harpa.

 Siggi Illuga heiðraður

Á síðasta ári var í fyrsta skipti sem listamaður úr héraði var heiðraður sérstaklega en það var Hólmfríður Benediktsdóttir sem fyrst hlaut þann heiður. Þessi hefð er komin til að vera og í ár verður Sigurður Illugason, leikari og tónlistarmaður heiðraður.

„Við erum að einblína á manneskju sem hefur lagt mikið til menningar og lista í sveitarfélaginu. Hann er búinn að vera ótrúleg innspýting í menningarlífið á svæðinu. Hann er búinn að vera allt í öllu í tónlist og leiklist í áratugi. Þetta er alveg magnað því þetta er svo óeigingjarnt starf sem hann hefur unnið fyrir okkur hin. Þetta er svo mikilvægt í svona litlu samfélagi að hafa fólk sem nennir þessu svo ég taki þannig til orða, því þetta er allt sjálfboðavinna. Ef ekki væri fyrir fólk eins og Sigga Illuga þá er ekki víst að Leikfélagið væri til. Við þurfum svona einstaklinga til að drífa þetta áfram,“ segir Harpa að lokum.

Ókeypis er inn á hátíðina eins og undanfarin ár og það ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Hátíðin stendur frá klukkan 20:00 til miðnættis og segir Harpa að það sé um að gera að „droppa“ við og kíkja á þá viðburði sem hver og einn hefur áhuga á. Það sé alveg sjálfsagt að koma og fara á meðan hátíðin stendur yfir.