„Ég tel að Þingeyjarsýslur hafi aðdráttarafl til að halda uppi öflugri ferðaþjónustu fyrir vetrarmánuðina. Helstu áskoranirnar í því að efla heilsársferðaþjónustu á svæðinu tengjast flugsamgöngum. Það er nokkuð ljóst að á meðan millilandaflug til Akureyrar er ekki meira en raun ber vitni, verður lítið um ferðamenn hér á veturna,“ segir Kristinn Ingi Pétursson leiðsögumaður en hann rekur ferðaþjónustuna KIP.is sem sérhæfir sig í dagsferðum á jeppa á Norðurlandi. Kristinn er búsettur á Laugum en er uppalinn í Fellshlíð í Reykjadal. „Sveitarfélögin hafa staðið sig vel og sýnt málefninu mikinn stuðning með ýmiskonar uppbyggingu og kynningarstarfsemi. Ég tel að markaðurinn, eða öllu heldur eftirspurnin eftir því sem við höfum að bjóða muni leiða til fjölgunar ferðamanna á svæðinu yfir vetrarmánuðina,“ segir Kristinn og bendir á að Akureyrarflugvöllur þurfi að vera þannig tækjum búinn að geta tekið á móti millilandaflugi ef greinin á að geta borið sig yfir vetrarmánuðina. „Það er hlutverk okkar allra sem koma að þessum málum að þrýsta á, að frekari uppbygging þjónustu Akureyrarflugvallar verði að veruleika.“

Verarferðaþjónusta í Þingeyjarsýslum
Kristinn er ástríðufullur ljósmyndari og eftir hann liggur fjöldi stemmningsfylltra ljósmynda úr náttúru Íslands. Hér gefur að líta Goðafoss í vetrarbúningi. /KIP.is

Kristinn er sjálfur mikið náttúrubarn og segir styrkleika svæðisins fólgna í nánd við ósnortin víðerni og einstaka náttúru, en einnig þá staðreynd að færra fólk er á ferðinni heldur en á suðvesturhorninu. „Það hefur ákveðið aðdráttarafl í sjálfu sér,“ segir hann og bendir á að sóknarfæri í vetrarferðaþjónustu felist í markaðssetningu fyrir erlenda ferðamenn og flugfélög. „Ýmsar leiðir eru færar í þeim efnum, t.d. að veita fé í auglýsingar á netmiðlum sem erlendir ferðamenn helst nota til að leita sér upplýsinga um hvað sé í boði fyrir þá á Íslandi. Í mínu tilviki skipti ég ekki við ferðaskrifstofur heldur finna viðskiptavinir mig sjálfir á Internetinu í gegnum leit á Google og í gegnum umsagnir á Tripadvisor. Ég held að tíma og fjármunum sé best varið í að höfða almennt til fólks sem skipuleggur sjálft sínar Íslandsheimsóknir, heldur en að herja á erlendar ferðaskrifstofur,“ segir Kristinn Ingi Pétursson.