Nú er komið á þriðja mánuð síðan umferð var hleypt á umferðarmannvirkið Vaðlaheiðargöng en fá ef þá nokkur samgönguverkefni hafa verið meira á milli tannanna á fólki. Enda tafðist verkið umtalsvert miðað við fyrstu áætlanir sem gagnrýnendur framkvæmdanna vitnuðu óspart til í málflutningi sínum.

Blaðamaður Víkurblaðsins ræddi við nokkra Akureyringa á dögunum en þau samtöl eru kveikjan að þessari umfjöllun. Einn viðmælandi blaðsins kvaðst hafa farið fjórar ferðir nú þegar austur til Húsavíkur. Þar séu það sjóböðin á Húsavíkurhöfða sem trekkja að en ferðin sé einnig nýtt til að fá sér kaffi og með því í Heimabakarí. Þá sagði maðurinn Að Húsavík væri orðinn helsti afþreyingastaður Akureyringa um helgar og fullyrti að göngin ættu stærstan heiðurinn að því. „Um helgar er lítið um afþreyingu hér finnst okkur og þá renna menn austur,“ sagði hann og bætti við að þegar hann væri í Sjóböðunum þá væri yfirleitt um 60-70 prósent gesta þar frá Akureyri. „Það eru lygilega margir sem segjast nota tækifærið, rúlla göngin og fara þá til Húsavikur fremur en í Jarðböðin.“

Þessi ánægði ferðamaður frá Akureyri bað sérstaklega fyrir því að starfsfólki Sjóbaðanna yrði hrósað. „Þau kunna sko ekki enn og læra vonandi aldrei að ferðafólk sé bara féþúfa,“ segði hann hlæjandi og bætti við: „Þeim er það svo mikils virði að upplifun gesta þeirra sé góð að ég hef ekki fundið annað eins og þetta er umtalað líka.“

Verslun og þjónusta á Húsavík

Víkurblaðið fór á stúfana á dögunum og spurðist fyrir á nokkrum stöðum hvort breytinga hafi orðið vart eftir a Vaðlaheiðargöng voru tekin í notkun.

Birgitta Bjarney Svavarsdóttir rekur verslunina Garðarshólma á Húsavík. Hún segir í samtali við Víkurblaðið að hún hafi strax orðið vör við aukna umferð Akureyringa í verslun sinni daginn sem Vaðlaheiðargöng voru opnuð 21. desember. „Akureyringar eru almennt mjög duglegir að koma hingað að versla og það hefur bara aukist eftir að Sjóböðin opnuðu,“ útskýrir hún og bætir við að Akureyringar hafi verslað talsvert af jólagjöfum helgina fyrir jól. „Í samanburði við sama tíma í fyrra, er klárlega aukning.“ Þá tekur Birgitta fram að margir samverkandi þættir hjálpi oft til í þessu samhengi. Hún nefnir til dæmis að erlendir ferðamenn hefi ekki mikið verið að skila sér í verslunina til hennar yfir sumartímann. Það hafi hins vegar breyst mikið eftir að veitingastaðurinn Naustið opnaði á nýjum stað í Seli. Þá hafi straumurinn verið að skila sér betur inn í búðina til hennar.

Oddfríður Reynisdóttir í Skóbúð Húsavíkur tekur undir með Birgittu. „Við í Skóbúðinn finnum mikinn mun á verslun hjá okkur, sérstaklega á laugardögum. Hvort það er fólk af Eyjarfjarðarsvæðinu veit ég svo sem ekki en mjög mikið af aðkomufólki,“ segir hún.

Erla Torfadóttir, hótelstjóri Fosshótel Húsavík segist ekki viss um að Vaðlaheiðargöng skýri þá miklu aukningu ferðamanna frá Akureyri upp á síðkastið. Hún vill meina að þar spili opnun Sjóbaðanna mun stærri rullu. „Það er auðvitað erfitt að segja til um það, þetta opnar á nánast sama tíma hvort tveggja. Ég finn svo sannarlega fyrir aukinni traffík en ég hef aldrei heyrt manneskju tala um að það hafi komið hingað vegna ganganna og við vorum með yfir 100 manns í gistingu um síðustu helgi. Ég held að Sjóböðin hafi meira að segja og þau tilboð sem við höfum verið með í samstarfi við Veitingahúsið Sölku og Sjóböðin,“ segir Erla.

Sjóböðin á Húsavíkurhöfða haf slegið í gegn.

Sigurjón Steinsson, framkvæmdastjóri Sjóbaðanna er ekki í nokkrum vafa um að opnun Vaðlaheiðarganga hafi verið svæðinu mikil lyftistöng. „Heldur betur, hér eru raðir af
Norðlendingum; Akureyringum og nærsveitungum hverja einustu helgi. Fólk sem vanalega hefðu ekki mætt á staðinn. Fóru í gegnum göngin til að koma í böðin,“ segir hann og bætir við að Sjóböðin séu búin að selja mikið af árskortum til Akureyringa. „Það er mælanlegur munur á umferð eftir að göngin opnuðu, svo er bara spurning hvort það sé varanlegt,“ segir hann.

Guðrún Þórhildur Emilsdóttir veitingakona á Veitingahúsinu Sölku segir að janúar í ár sé mun stærri en í fyrra og þakkar það þessari samgöngubót. Hún segir að fleiri þættir spili þó inn í eins og samstarf ferðaþjónustuaðila. Hún bendir á að hópapantanir fyrirtækja á Akureyri hafi færst í aukana.