Séð yfir hluta af Húsavíkurhöfða.mynd/epe

Búfesti hsf. og sveitarfélagið Norðurþing skrifuðu eins og fjallað hefur verið um, undir viljayfirlýsingu á síðasta ári um að leita leiða til að þróa nýtt og hagkvæmt íbúðaframboð á Húsavík og mögulega víðar í Norðurþingi.  Norðurþing sótti í kjölfarið um þróunarstuðning frá Íbúðalánasjóði til tilraunverkefna á landsbyggðinni í samræmi við auglýsingar þar um. Búfesti hsf. og Faktabygg/Faktabygg Ísland- með Húsvíkingana Kristján Eymundsson og Árna Grétar Árnason í broddi fylkingar hafa unnið að útfærslum á tilraunaverkefni sveitarfélagsins til lækkunar byggingarkostnaðar.

Þessir aðilar funduðu á mánudag í síðustu viku með fulltrúum Norðurþings þar sem staðan var tekin  á framgangi tilraunaverkefnis Íbúðalánasjóðs.

Kolbrún Ada Gunnarsdóttir, formaður byggðaráðs sagði í samtali við Víkurblaðið að verkefnið væri komið ágætlega af stað. „Það sem verið er að bíða eftir núna er staðfesting frá íbúðarlánasjóði um hvernig þeir ætla að koma að verkefninu og jafnframt staðfesting frá ríkisstjórninni og fjármálaráðuneytinu,“ útskýrir hún og bætir því við að málið sé þar með í biðstöðu þar til ráðuneytið hefur tekið það fyrir.

„Við erum tilbúin með okkar verkefni, þeir hjá Búfesti eru tilbúnir, Norðurþing eru búið að leggja upp hvernig verkefnið á að lýta út og þá á bara eftir að ákveða nákvæma staðsetningu,“ segir Kolbrún Ada og aðspurð bætir hún við að það séu tvö svæði sem komi til greina. „Það er annað hvort Húsavíkurhöfði eða Reiturinn svokallaði í Grundargarði. Þannig að við erum að bíða eftir svörum frá ráðuneyti og íbúðarlánasjóði um hvað þeir ætla að setja í þetta og hvort við getum haldið áfram.“

Þá segir Kolbrún Ada að ekki liggji fyrir hve margar íbúðir verði ráðist í að byggja eins og staðan er í dag. „Það er ekki hægt fyrr en við fáum þessi svör, hvað við getum farið í stórt verkefni, einnig þurfum við að kanna hversu þörfin er mikil og hvað Búfesti treysti sér til að byggja margar íbúðir. Þá þurfum við að reikna út hvaða stærðir á íbúðum við þurfum og hve mikil eftirspurnin er og hvernig íbúðir mest þörf er á.“

Kristján og Árni Grétar sátu fundinn eins og fyrr segir fyrir hönd Faktabygg og lögðu fram teikningar til kynningar.