Sigurður Helgi Illugason ætti vart að þurfa kynna fyrir Þingeyingum enda hefur hann varið stórum hluta lífs síns í sviðsljósinu; annað hvort í heimi listanna eða íþróttanna. Hann er frábær tónlistarmaður og á að baki glæsilegan feril sem slíkur. Þá var hann baneitraður í framlínu Völsunga á sínum yngri árum. Hér er þó til umfjöllunar leikarinn Siggi Illuga, enda er hann að margra mati orðinn andlit Leikfélags Húsavíkur (LH).

Hann var ekki langur fyrirvarinn sem ég gaf stórleikaranum til að mæta á skrifstofu Víkurblaðsins í viðtal s.l. þriðjudag. Sigurður tók strax vel í erindið, sagðist þurfa að klára að spartla einn vegg og svo léti hann sjá sig. Það stóð ekki á honum, skömmu síðar heyrði ég í honum hláturinn fram á gangi og fann strax til samviskubits að láta manninn staulast upp stigana á 3. hæð með handónýt hné; en sá hann svo strax fyrir mér á sviðinu. Þar gufar stirði málarameistarinn upp og listamaðurinn kemur í ljós,- holdi klæddur, jafn fimur og sjálfur íþróttaálfurinn.

Leikstórar sem hafa haft áhrif á þig:

„Maður verður að nefna Sigurð Hallmarsson, ég hef lært langmest af honum. Hann fór líka allt aðrar leiðir að þessu. Stundum laumaði hann að manni einhverri manneskju út í bæ,- hvíslaði að manni: „Þessi þarna er nú bara nokkuð líkur karakternum þínum.“ Það var ekki síður gaman að leika með honum,- það var nú ekki alltaf verið að fara eftir textanum þegar hann var á ferðinni.“

Sigurður segir að það hafi aldrei staðið til að leggja stund á leiklistina, það hafi verið nóg annað að gera hjá sér. „Ég var mikið í boltanum og öllum íþróttum sem ég komst í, tók þátt í karlakórum og slíku. Það hvarflaði ekki að mér að ganga í Leikfélagið,“ segir hann og glottir.

Og hvað breyttist?

„Ég fékk bara símtal frá Sigurði Hallmarssyni og þá segir maður ekki nei.“

Fyrsta verkið sem Sigurður lék í var Land míns föður sem var verið að setja upp annað árið í röð á Húsavík árið 1990. „Það voru einhver afföll frá því árinu áður og hann Diddi Hall fékk mig til að koma þarna inn,“ útskýrir Siggi Illuga og rifjar upp að það séu ekki nema tvö verk í uppfærslu LH síðan þá, sem hann hefur ekkert verið með puttana í. Annað þeirra verka var Bót og betrun sem sett var upp árið 2017 en þá þurfti hjartaáfall til að halda Sigurði frá fjölinni.

Leikferill Sigga Illuga spannar 29 ár

Undirritaður hitti hann reyndar á frumsýningu þess verks en þá var hann til allrar blessunar búinn að ná sér að mestu. Hann var reyndar svolítið fölur og þegar ég spurði hann út í litarhaftið kvaðst hann aldrei hafa verið jafn stressaður fyrir frumsýningu. „Já, það var undarleg tilfinning að sitja út í sal og horfa á einhvern annan í hlutverkinu sem ég átti að leika, en hann leysti það ótrúlega vel,“ segir hann og er þarna að tala um frænda sinn Benóný Val Jakobsson.

Hann á ekki tölu

„JESÚS MINN!“ hálf hrópar Sigurður þegar ég spyr hann hvað hann sé búinn að taka þátt í mörgum leikgerðum. „Þetta eru 29 ár og alltaf ein sýning ári a.m.k. hjá LH en svo hef ég leikið með Eflingu í Reykjadal og líka tekið þátt sem tónlistarmaður og hljóðmaður,“ segir hann og bætir svo við að hann hafi sett upp þrjár sýningar með leikhópnum Vönum mönnum,- á veitingastöðum í Þingeyjarsýslum og í Reykjavík.

Draumahlutverk:

„Það væri gaman að fá að glíma við einhver stór og erfið hlutverk,“ segir Siggi hugsi og bætir svo við hlæjandi: „En það er bara svo mikil vinna. Annars er mér alveg sama þótt ég sé ekki endilega í stærsta hlutverkinu. Einu sinni lék ég kínverskan þjón. Ég var að vinna svo mikið á þeim tíma að ég mátti ekki vera að því að mæta á allar æfingar. Þannig að ég fékk kínverska þjóninn og bullaði bara eitthvað,“ segir hann, skelli hlær og játar svo að það séu ákveðin verk sem honum þætti gaman að fá tækifæri til að takast á við. „Fiðlarann á þakinu, ég neita því ekki að það væri hroðalega gaman að glíma við það.“

Sigurður hefur einnig leikið nokkur hlutverk fyrir framan kvikmyndavélarnar m.a. í stuttmynd á móti Hemma Gunn. „Það var ekki auðvelt skal ég segja þér. Hann gat ekki lært að segja tvo orð í einu. Það tók allan daginn að taka upp þessar þrjár setningar sem hann átti að segja, það var rosalegt.“

Er þetta alltaf jafn gaman, spyr ég Sigurð? „Já, það held ég að sé ekki spurning. Maður hættir að vísu á hverju ári,“ svarar hann og hlær. „Það er rosalega erfitt að slíta sig frá þessu.“

Sigurður segir að hann finni alltaf einhvern skjálfta fyrir frumsýningu. „Misjafnlega mikinn og það hefur reyndar skánað, en það er alltaf einhver fiðringur. Adrenalínið er alltaf á fullu.“

„Maður er náttúrulega farinn að leika gömlu kallana núna, maður er hættur í ungu elskhugunum“
Siggi Illuga

Ég vildi vita hvort einhver hlutverk eða uppsetningar stæðu sérstaklega upp úr, þá játar hann því og nefnir m.a. Dandalaveður eftir Jónas Árnason sem var sett upp snemma á tíunda áratug síðustu aldar. Það hafi verið hans fyrsta stóra hlutverk. „Það var mikið verk og svolítið skrítið, það vantaði endann á það, en Diddi gamli bjó bara til einhvern enda á það í restina. Það verk gekk reyndar ekkert sérstaklega vel ef ég man rétt. Svo fékk ég stórt hlutverk í Gaukshreiðrinu sem LH landsfrumsýndi á sínum tíma. Það var svakalega skemmtilegt verk og sló algjörlega í gegn. Ég get heldur ekki sleppt því að minnast á Sambýlingana. Það var mikil forvinna sem við lögðum á okkur þegar við undirbjuggum það og afar gefandi. Við reyndum að setja okkur vel inn í hugarheim fólks með þroskaraskanir,“ útskýrir leikarinn og neitar því að hafa horft á kvikmyndina Gaukshreiðrið sem skartaði Jack Nickolson í aðalhlutverkinu til að undirbúa sig undir sitt hlutverk í þeirri leikgerð. „Ég vildi ekki lenda í því að fara kópera eitthvað annað. Maður treysti bara á leikstjórann,“ segir hann en leikstjóri verksins var María Sigurðardóttir sem síðan hefur leikstýrt nokkrum verkum fyrir LH við góðan orðstýr.

„Ég fékk bara símtal frá Sigurði Hallmarssyni og þá segir maður ekki nei“

Fleiri vilja gaman en alvöru

Sigurður játar að það sé auðveldara að setja upp gamanleikrit heldur en þung dramastykki þegar litið er til aðsóknar. Það sé alltaf betri aðsókn á gamanleikina. „Sérstaklega í seinni tíð. Það er alveg stórmunur á því. Við setjum yfirleitt ekki upp þessi alvarlegri verk nema eiga eitthvað aðeins í kassanum frá árinu áður til að taka skellinn. Þegar þú ert í þessu þá verðu þú að fá einhverja áskorun og hana fær maður oft í þessum verkum sem ekki ganga vel aðsóknarlega.“

 

Besta leikhús í heimi

Leikfélag Húsavíkur verður 120 ára á næsta ári og Sigurður segir félagið fúnkera ótrúlega vel og hafi alltaf gert. Samkomuhúsið segir hann jafnframt að sé fullkomið. „Þetta er besta leikhús í heimi, það er bara þannig. Þetta er mátulega stórt,  teku 100 manns í sæti. Það er auðvitað stundum leiðinlegt þegar maður er í sýningu sem er að ganga vel að geta ekki verið með 250 manns í salnum, því þá þarf að sýna svo margar sýningar til að anna eftirspurn. Aftur á móti þegar við erum með sýningar sem ekki ganga vel, þá er gott að salurinn er ekki stærri. Það er ekkert spes að vera með 250 manna sal og 30 áhorfendur. Í Samkomuhúsinu getur maður alveg sýnt með 30-40 áhorfendur án þess að það hafi áhrif á mann. Maður finnur nefnilega fyrir höfnunartilfinningu þegar fólk mætir ekki,“ segir hann.

Höfða hlutverkin alltaf jafn vel til þín?

„Maður er náttúrulega farinn að leika gömlu kallana núna, maður er hættur í ungu elskhugunum,“ segir hann og skellir upp úr og bætir svo við: „Fyrir stuttu síðan var ég látinn leika beinagrind, þá var umtalað að ég hafi verið feitasta beinagrind sem sést hefur,“ og skellir enn hærra upp úr. „Þetta var Martröð á jólanótt, en það var líklega einhver erfiðasta sýning sem ég hef tekið þátt í. Náttúrlega kominn af léttasta skeiði og þetta voru helvítis læti; mikill söngur og flókin músíkk. Hófí Ben hélt utan um tónlistina og stóð sig eins og hetja,“ segir Sigurður fullur aðdáunar.

Allaf góður félagsskapur

„Það er alltaf gaman að hitta leikfélagana en um þessar mundir hefur verið sérstaklega mikið um að vera. Við vorum að fá nýja aðstöðu og erum að græja mikið í kringum það.“

Aðspurður hvort það sé alltaf endurnýjun í LH segir hann: „Við fáum alltaf mikið af krökkum, börnin vilja alltaf koma og leika með Leikfélaginu. Okkur aftur á móti vantar mikið karlmenn á milli tvítugs og fertugs,“ segir Sigurður en hann er kominn á fullt núna við undirbúning næsta verkefnis sem er verkið Bar par eftir Jim Cartwright en það er Fanney Vala Arnórsdóttir sem leikstýrir. Hann viðurkennir að hann hlakki ekki síður til að næsta árs þegar Leikfélag Húsavíkur verður 120 ára. „Þá ráðumst við í eitthvað stórt. Þegar ég spyr hann hvort hann sé nokkuð á leiðinni að hætta í leiklistinni, brosir hann í kampinn og segir: „Nei, ætli það, nema bara svona einu sinni á ári samkvæmt hefðinni. Konan mín segir á hverju ári; „Jæja, Siggi minn heldurðu að þetta sé ekki bara að verða gott hjá þér. Verður þú nokkuð með í ár?“ Svo er ég alltaf með og hún er bara sátt við það,“ segir þessi frábæri leikari að lokum. Og við vonum öll að hann eigi eftir að standa á leiksviðinu sem lengst, því þar virka hnjáliðirnir best.

Leiðrétting: *Af einhverjum ástæðum misritaðist nafn leikstjóra verksins Bar par í uppsetningu LH. Leikstjórinn heitir að sjálfsögðu Fanney Vala Arnórsdóttir en ekki Jenný Lára Arnórsdóttir eins og misritaðist. Við biðjumst velvirðingar á þessu.

Ritsjórn Víkurblaðsins