Húsvíkingurinn Kristján Eymundsson fluttist til Stavanger árið 1995 og stofnaði byggingarfyrirtækið FaktaBygg tveimur árum seinna. Nú er hann með um 50 manns í vinnu og hyggur á stórframkvæmdir í sínum gamla heimabæ. Víkurblaðið tók hann tali á dögunum og ræddi við hann um lífið í Noregi og framtíð Húsavíkur.

Það er létt yfir Kristjáni þegar ég slæ á þráðinn til hans að morgunlagi og þó umræðuefnið sé af ýmsum toga þá skellir hann upp úr með reglulegum hætti. Þeir sem þekkja til Kristjáns vita að hlátur hans er innilegur og smitar út frá sér.

Hann segir tilviljun hafa ráðið því að hann hafi ratað í húsasmíði á sínum tíma líkt og með svo margt annað í lífinu. „Sennilega atvikaðist þetta þannig að Alli Jói frændi minn var byggingameistari og ég fór að vinna hjá honum, það var ekki skipulagðara en svo,“ útskýrir hann léttur í bragði.

Kristján og Tormod
Kristján ásamt meðeiganda FaktaBygg As, Tormod Skavland.

Saknar ekki veðursins

Kristján flutti út til Noregs árið 1995 og settist að á Stavanger svæðinu. „Ég hafði alltaf ætlað mér að flytja til útlanda en Jóhanna Sigurbjörnsdóttir sem þá var konan mín, hafði áður búið í Noregi og þess vegna varð það fyrir valinu. Reyndar langaði okkur til Frakklands en það var aðeins flóknara þannig að Noregur varð ofan á.“

Kristján er fimm barna faðir og er búinn að koma sér vel fyrir í Stavanger með sambýliskonu sinni, Marian Knudsvik. Hann segir mildara veðurfar vera það fyrsta sem hann veitti eftirtekt eftir að hann flutti utan. „Ég sá það fljótt hvað veðrið er í raun að stríða fólki mikið á Íslandi og gerir fólki erfitt fyrir. Svo er aðeins meira um að vera vinnulega séð og meiri hraði á hlutunum miðað við á Húsavík,“ segir hann og viðurkennir að hann sjái ekki fyrir sér að flytja „heim“ aftur enda séu kostir þess að vera áfram margir. „Ekki úr því sem komið er, hér líður mér vel. Veðurfarið er kostur en sumir þrífast í fámenninu á meðan maður hverfur meira inn í fjöldann hér. Svo má ekki gleyma því að til lengri tíma eru afkomumöguleikar fólks mun betri í Noregi. Hér borgar maður niður húsnæðislánið sitt svo eitthvað sé nefnt.“

Stofnaði FaktaBygg

Kristján hafði ekki verið lengi í Noregi þegar hann stofnaði FaktaBygg ásamt föður sínum Eymundi Kristjánssyni og tveimur Norðmönnum. Hann vann dag og nótt og þurfti að hafa mikið fyrir því að finna verkefni. Fyrirtækið byrjaði smátt og tók lengi vel að sér verkefni sem undirverktaki hjá stærri aðilum. Í dag má sjá ávexti erfiðisins, fyrirtækið hefur vaxið mikið og eru með um 50 starfsmenn á launaskrá. „Maður hafði engin sambönd til að byrja með og fékk ekkert ókeypis þannig lagað. Þetta var mjög mikil vinna en alltaf gaman,“ útskýrir Kristján og bætir við að markaðurinn sé talsvert ólíkur því sem menn eiga að venjast á Húsavík. Verkefnin séu stærri og þróunin örari.

Kristján blæs á það að Norðmenn séu latir, en það hafi hann oft fengið að heyra frá kunningjum að heiman. „Þetta er bara eins og annars staðar, fólk er misjafnt eins og það er margt,“ segir hann og bendir á að mælingar sýni fram á að framleiðni á hverja vinnustund sé talsvert hærri í Noregi heldur en á Íslandi. Ég spyr hann þá hvernig megi skýra það:

Stjáni og Beggi
Kristján Eymundar ásamt frænda sínum og nafna, Kristjáni B. Olgeirssyni

„Fyrst og fremst held ég að það megi skýra með því að hönnunarferlið í byggingabransanum og sjálf framkvæmdin eru miklu tengdari. Bilið þarna á milli virðist vera meira á Íslandi. Hér tekur hönnunin þar af leiðandi betur mið af sjálfri framkvæmdinni. Það má einnig nefna að sérhæfing er meiri hér í Noregi og betra langtíma skipulag,“ útskýrir Kristján og leggur áherslu á að það sé fjarri því að fólkið sjálft sé vandamálið. „Það eru fleiri atriði sem spila inn í þetta. Enda sér maður það á Íslendingum sem koma hingað til að vinna, þeim gengur heilt yfir mjög vel.“

Kreppan 2008 gufaði upp

Kristján segir að hann hafi oft þurft að takast á við erfiðar áskoranir í vinnunni og stundum sé erfitt að njóta þess að hafa gaman vegna mikilla anna. „En þetta er gaman, annars væri maður ekki að þessu,“ segir hann og hlær.

Stavanger er fjórði stærsti byggðakjarni í Noregi en olíuiðnaður er lykilatvinnuvegur á svæðinu enda er bærinn oft kallaður olíuhöfuðborg Noregs. „Hér á þessu svæði erum við óskaplega háð olíunni; hér stendur allt og fellur með olíugeiranum. Heimskreppan 2008-9 gufaði eiginlega upp á nokkrum vikum hérna,“ segir Kristján en bætir við að á móti sé búin að vera djúp niðursveifla frá árinu 2014 vegna lækkandi heimsmarkaðsverðs á olíu. „Þetta er reyndar að koma upp aftur núna en það er búin að vera geigvænleg niðursveifla. Það töpuðust einhver 30 þúsund störf úr olíugeiranum á þessu svæði og það hefur haft mikil áhrif. Það er því óhætt að segja að við séum búin að upplifa krefjandi tíma en við höfum komist nokkuð vel frá því þó við höfum þurft að gera ýmsar breytingar.“

Hár byggingarkostnaður er víða vandamál

Undanfarin ár hefur lítil hreyfing verið á húsnæðismarkaði á Húsavík þó vissulega hafi komist kippur í hann eftir að framkvæmdir á Bakka komust á skrið. Helsta vandamálið hefur verið að gangverð íbúðarhúsnæðis hefur verið undir nýbyggingarkostnaði. Þekkt er að sérstaklega eldri íbúar sem búa í stórum einbýlishúsum hafa átt erfitt með að minnka við sig vegna þess að of lágt verð fæst fyrir húsnæði þess.

„Þetta er þekkt á sama hátt í Noregi, sérstaklega á minni stöðum þar sem húsnæðisverð er lægra en byggingarkostnaður. Þetta hefur verið leyst á ýmsan hátt m.a. með aðkomu hins opinbera í samstarfi við byggingageirann. Það sem ég sé helst að geri Íslendingum erfitt fyrir í samanburði við Noreg; a.m.k. á minni stöðum eins og á Húsavík, er að færri aðilar geta byggt í sama magni og hér í Noregi. Þannig að markaðurinn er lítill fyrir stærri framkvæmdir,“ segir Kristján og bendir á að einstaklings- og minni framkvæmdir séu mun sjaldgæfari í Noregi. „Þetta er yfirleitt byggt upp í stærri einingum og tekin stærri byggingasvæði undir með samstarfi fleiri aðila. Þar geta menn náð niður kostnaði með meiri hagræðingu í gegnum magn; en það er aðal vandamálið á minni stöðum eins og Húsavík. Lausnin held ég að felist í aukinni samvinnu til að ná upp magni og góðri alhliða stefnu til framtíðar. Það þarf ekki að byggja allt á morgun heldur láta framkvæmdir ná yfir lengra tímabil.“

Kristján ætti að vita sitthvað um að byggja í magni en fyrirtæki hans er m.a. með einingaframleiðlu. Útveggi, milligólf, milliveggi, brunaveggi og þök. Hann segist mest vera í því að byggja fyrir stærri aðila og hefur verið með 88 hús í byggingu í einu, hvorki meira né minna. „Annars eru þetta oftast á bilinu 20-50 hús í einu sem við erum að byggja en þannig næst fram hagræðingin.“

Bjartsýnn á að hótel á Húsavíkurhöfða verði að veruleika

Á vormánuðum var Kristján á ferðinni á heimalóðum ásamt fríðu föruneyti að kynna hugmynd að 200 herbergja hóteli efst á Húsavíkurhöfða. Hótelið yrði eitt það stærsta á landsbyggðinni. „Staðsetningin er óneitanlega mjög sérstök þarna á klettabrúninni með útsýni út á Atlantshafið,“ segir hann léttur í bragði og bætir strax við: „Það hefur farið fram úr okkar björtustu vonum hvernig verkefnið hefur farið af stað. Það er komið miklu lengra en við reiknuðum með. Það er búið að frumhanna verkefnið og kynna það alþjóðlegum hótelkeðjum. Við völdum okkur rekstaraðila sem við vildum ræða við, alls 13 talsins og fengum jákvæð svör frá sex þeirra. Tveir rekstaraðilar hafa gert góð og raunhæf tilboð og þrír sem enn eru áhugasamir,- hafa ekki sent inn formlegt tilboð. Við vorum búin undir að sumarið myndi líða án þess að nokkur árangur næðist og við þyrftum að pæla okkur inn á næsta sumar. Að því leyti erum við komin lengra en við ætluðum á þessum tímapunkti.“ Hann segir nú komið að því að leita að góðum fjárfestum.

Höfðahótel
Hótelið sem til stendur að byggja efst á Húsavíkurhöfða

„Við vonumst til að fá stóran fjárfesti sem síðan tekur ákvörðun um það með okkur hvaða rekstraraðili verður fyrir valinu,“ segir Kristján og er orðinn nokkuð bjartsýnn á að verkefnið verði að veruleika. „Við teljum möguleikana mjög góða en það eru ýmis ljón í veginum enn þá. Það sem við lögðum upp með að yrði erfiðast í þessu, það er enn þá erfitt. Það er vetrarferðamennskan.“ Kristján kallar eftir sameiginlegu átaki ferðaþjónustuaðila á svæðinu um að móta heilsteypta framtíðarsýn; um hvernig megi markaðsetja svæðið yfir vetrarmánuðina. „Þeir hafa markaðsett sig mjög vel í Norður Noregi. Það er allt meira og minna fullbókað þar yfir vetrarmánuðina,“ bendir hann á.

„Ísland aftur úr forneskju“

Það leynir sér ekki að Kristján er hneykslaður á flugsamgöngum innanlands á Íslandi og vill sjá að innanlandsflugið fari í gegnum Keflavík en ekki Reykjavíkurflugvöll og tekur innanlandsflug í Noregi sem dæmi til samanburðar. „Þar ertu með Gardemoen, stærsta alþjóðaflugvöllinn í Noregi en þaðan er líka innanlandflugið. Þú getur keypt flugmiða frá Asíu eða Ameríku og alla leið til Tromsö, með millilendingu á Gardemoen. Það þarf ekki að taka töskuna sína fyrr en á áfangastað. Þetta er lykil atriði, þarna er Ísland náttúrlega eins og aftur úr forneskju. Manni finnst þetta liggja svo í augum uppi. Það getur ekki verið að menn sjái þetta ekki,“ segir hann ákveðinn og bendir á allan þann fjölda mögulegra notenda norðlenskrar ferðaþjónustu sem fara í gegnum Keflavík. „Samt vill fólk endilega hafa innanlandsflugvöllinn í Reykjavík. Það er vonandi að þetta breytist því mikilvægið er gríðarlegt, ekki bara fyrir þetta verkefni okkar heldur ferðaþjónustu á landsbyggðinni almennt. Ferðaþjónustuaðilar eiga að geta selt sína vöru beint til notenda hvort sem þeir eru í Asíu, Ameríku eða annars staðar frá.“

Aðdráttarafl Þingeyjarsýslu sterkt

Kristján segir Húsavík og nágrenni hafa allt að bera til að standa undir heilsársferðaþjónustu og raunar Þingeyjarsýsluna alla. „Þetta er flottur staður frá náttúrunnar hendi en líka fullur af flottu fólki. Það er aðdáunarvert hvað menn eru búnir að gera góða hluti í ferðaþjónustu á svæðinu og þar stendur hvalurinn og náttúran upp úr og er aðdráttaraflið.“

Hann hrósar líka veitingastöðunum á svæðinu. „Ég var með Norðmenn í nokkra daga hér í sumar og fór með á veitingastaði bæjarins. Ég held að við höfum étið upp allt sem þessir staðir höfðu upp á að bjóða og Norðmennirnir hældu matnum svo við mig að ég fékk það hreinlega á tilfinninguna að ég hafi eldað þetta sjálfur,“ segir hann og skellir upp úr sínum smitandi hlátri. „Og Sjóböðin, það nýjasta sem bæst hefur í þessa flóru, þau eru náttúrlega bara í heimsklassa.“

Kristján minnist líka á iðnaðaruppbygginguna á Bakka og segir hana haft margt jákvætt í för með sér. „Ungt fólk hefur verið að flytja í bæinn, sér í lagi uppaldir Húsvíkingar sem eru að koma til baka eftir að hafa menntað sig. Það er út af því að það er jákvæð uppbygging í gangi. Eins og t.d. iðnaðarsvæðið á Bakka, þó fólk hafi misjafnar skoðanir kísilveri PCC, þá er þetta svæði og skipulagið á því mjög jákvætt. Það að vera komin með orku þangað með Þeistareykjalínu bíður upp á mikla möguleika til framtíðar. Möguleikarnir eru miklir og jákvæð þróun blasir við ef rétt er haldið á málum,“ segir Kristján Eymundsson, eigandi og framkvæmdastjóri FaktaBygg í Noregi.

Viðtalið birtist fyrst í 1. tölublaði Víkurblaðsins