„Mér finnst voða gaman að rekast á fólk fyrir tilviljun“

Sunna Guðmundsdóttir er Þingeyingur í Osló

Sunna Guðmundsdóttir, dóttir Umma og Bimu býr á Høvik, í útjaðri Osló, með sambýlismanni sínum sem hún kynntist þegar hún flutti fyrst til Oslóar. „Leiðir okkar lágu svo aftur saman fyrir nokkrum árum þar sem við höfðum bæði flutt aftur til Osló. Hann heitir Valur Björn Baldursson og á líka ættir sínar að rekja til Húsavíkur. Ég rek mitt eigið litla fyrirtæki, Sunna´s Musikkbingo, þar sem ég treð upp á hinum ýmsu skemmtistöðum sem og í einkasamkvæmum, með tónlistarbingó sem er einhvers konar spurningarkeppni um tónlist þar sem allir hafa svörin fyrir framan sig. Æi það er erfitt að útskýra þetta, þið verðið bara að prófa 😊”

– Hvað dró þig til Osló og hvað ertu búinn að vera lengi?

„Ég flutti fyrst til Osló þegar ég var á sautjánda ári. Langaði að prófa að búa annars staðar en á Húsavík og Reykjavík kom aldrei til greina. Systir mín var þá búin að búa í nokkur ár í Osló þannig að ég fór til hennar. Mér líkaði vel og bjó þar í 5 ár.

Flutti svo aftur til Oslóar árið 2011 eftir að hafa búið nokkur ár í London, einfaldlega vegna þess að ég kunni tungumálið, var með alla pappíra á hreinu og systir mín enn á sínum stað. Allt í allt er ég búin að búa í Osló í 13 ár.“

Sunna segist eiga afar auðvelt með að aðlagast þeim stað sem hún býr á hverju sinni og að það sé betra að flytja sig um set heldur en að kvarta. „Ef maður kvartar þá verður maður bara að flytja á betri stað eða vinna í því að gera staðinn betri. Osló er heimilisleg, passlega stór og með mikið af grænum svæðum. Allt eitthvað sem ég tel mjög jákvætt. Gallarnir eru pottþétt einhverjir en ég pæli lítið í þeim og dettur bara ekkert í hug núna,“ segir hún og bætir við:  „Kúltúrinn er frekar líkur en samt ekki. Að mínu mati eru Norðmenn svona yfir heildina mjög efins (skeptical) og hefðbundnir sem stundum er frábært en líka oft alveg óþolandi.“

– Mýtan um að Osló sé stærsta sveitaþorp heims,- á það við rök að styðjast?

„Ekki lengur. Það átti alveg við þegar ég kom hingað fyrst, árið 1995, en í dag er Osló orðin meiri borg. Hún skiptist meira í mismunandi hverfi núna en áður þar sem sum er rosa hipp og kúl og hress og önnur ekki. Ég held samt að þessi mýta hafi orðið til af því að borgin er heimilisleg og traustvekjandi og Norðmenn voru óttalega sveitó, meira að segja þeir sem búa í borginni. Og það hefur svo mikið með það að gera hvað þeir eru hefðbundnir og efins á ákveðnar nýjungar. Þetta tekur þá bara aðeins lengri tíma en Íslendinga.”

– Er verðlag virkilega eins hátt og sagt er?

„Fyndið að þú skyldir spyrja þar sem að ég er nýlent eftir helgi í Reykjavík og skildi bara ekki eina einustu tölu þar. Ég lokaði bara augunum og borgaði. Held að ferðamenn geri svipað hérna í Osló. Ætli ég svari ekki bara “já”.“

– Hvers saknar þú mest frá heimaslóðum?

„Að sjálfsögðu sakna ég mömmu og pabba, vina og ættingja. Númer eitt tvö og þrjú.

En það fyrsta sem ég geri þegar ég lendi á Íslandi og kem út í rokið á Keflavíkurflugvelli er að anda rosalega djúpt. Kalda hreina loftið heima er engu líkt. Svo er það viss matur; flatbrauð með hangikjöti og plokkfiskurinn hennar mömmu er alltaf það fyrsta á óskalistanum þegar ég kem heim.

Svo finnst mér ofsalega gaman að fara í matvörubúð þegar ég kem til Húsavíkur. Það er eini staðurinn þar sem maður rekst á fólk. Mér finnst voða gaman að rekast á fólk fyrir tilviljun.“

– Hverju mælir þú með fyrir aðra Þingeyinga sem eru að hugsa um að heimsækja borgina?

„Mæli að sjálfsögðu með því að koma á tónlistarbingó hjá mér! Ég treð upp á hinum ýmsu stöðum í Oslo.

Stytturnar í Frognerparken í Osló setja svip sinn á borgina.

Annars er Frognerparken alveg ómissandi, sérstaklega á sumrin og haustin. Það er risastór almenningsgarður með styttum og gosbrunnum sem er eitt af helstu kennileitum borgarinnar. Að taka bát út á eyjarnar í Oslófirði á sólríkum sumardegi er alveg dásamlegt, með nesti í körfu og sundfatnað.

Gönguferð upp með Akerselva með viðkomu á hinum ýmsu börum/kaffihúsum í miðri borginni er frábær afþreying.  Mæli með pizzu með hreindýri og granatepli á Tranen, tapas við bardiskinn á Barramon í Mathallen Oslo og sjávarréttafati á Lille Herbern þar sem mínútulöng bátsferð yfir á pínulitla eyju við Bygdøy fer með mann yfir í algjöra paradís.“