Metnaður lagður í Sumarfrístund yngstu barnanna

Greinin birtist fyrist í prentútgáfu Víkurblaðsins #12

Stjórnsýsluhús Norðurþings á Húsavík. Mynd/epe.

Fyrr á þessu ári var lögð fram metnaðarfull dagskrá fyrir sumarfrístund á Húsavík fyrir 1-4. bekk með það að markmiði að brúa bilið fyrir börn eftir að skóla lýkur að vori og fram að því að grunnskóli hefjist að nýju að hausti. Markmiðið er einnig að brúa bilið fyrir þau börn sem eru að fara hefja nám í 1. bekk grunnskóla – frá því að sumarleyfi leikskóla lýkur fram að því að grunnskóli hefjist.

Drögin voru unnin af Ágústu Gísladóttir nemanda í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands í samstarfi við íþrótta- og tómstundafulltrúa Norðurþings, og forstöðumann frístundar og félagsmiðstöðvar sem hluti af vettvangsnámi hennar. Íþrótta- og tómstundafulltrúa var falið að ljúka skipulagningu sumarfrístundar og leggja fyrir fjölskylduráð í apríl. Nú er þeirri vinnu að ljúka og innan skamms verða kynningarblöðungar bornir út í hús til að kynna dagskrána.

Víkurblaðið leit við á skrifstofu Kjartans Páls Þórarinssonar, íþrótta- og tómstundafulltrúa á dögunum og ræddi við hann um verkefnið. Hann tók það strax fram að enn ætti eftir að ganga frá einhverjum hnútum en ljóst  mætti vera að boðið verði upp á metnaðarfulla dagskrá þar sem leikur, fjör, hreyfing, vettvangsferðir o.m.fl verður í boði.

Dagskrá Sumarfrístundar Norðurþings stendur yfir frá 3. júní og fram til 5. júlí ( opið fyrir árganga 2009 -2012), fer þá í sumarfrí samhliða sumarfríi leikskóla og hefst aftur 7.ágúst – 20. ágúst (opið fyrir árganga 2010 – 2013).

Dagskráin er skipulögð með þeim hætti að hver vika er tilgreint sem eitt námskeið – s.s. hvert námskeið er ein vika og þarf að skrá viðkomandi barn í hvert námskeið fyrir sig og verður opið til skráningar allt að nokkrum dögum fyrir hverja námskeiðsviku.

Skráningar munu fara fram í gegnum Norakerfið og er ætlunin að reyna að nýta sem best þá möguleika sem það býður upp á í tengslum við utanumhald og samskipti á milli starfsmanna sumarfrístundar, foreldra og forráðamanna barnanna. Opnað verður fyrir umsóknir um leið og skipulagningu námskeiða lýkur.

Kjartan Páll Þórarinsson, íþrótta og tómstundafulltrúi Norðurþings. Mynd/epe

„Þessi sumarfrístundarverkefni eru framkvæmd með ýmsum hætti úti um allt land. Áður fyrr sá Norðurþing um þetta, þá í tengslum við Tún og það hafa verið reynd ýmis leikjanámskeið eða frístundaúrræði sem er fyrir krakka í 1-4 bekk grunnskóla. Nú erum við að taka við þessu aftur í kjölfarið á nýjum samningi sem var gerður við Völsung sem hélt utan um verkefnið á síðasta ári. Það var fullkomin sátt um það að prófa aðra leið núna. Þetta var vel heppnað hjá Völsa, ekkert út á það að setja en þegar að verkefni flytjast á milli sviða, þá leyfa menn sér að hugsa hlutina öðruvísi og jafnvel upp á nýtt. Hvað erum við með í höndunum, hvað er hægt að gera betur og svo framvegis. Þannig að við leyfðum okkur það að stroka allt út og byrja upp á nýtt en í grunninn er þetta það sama, þ.e. afþreying fyrir krakka í 1-4 bekk, hér á Húsavík,“ útskýrir Kjartan og bætir því við að ákveðið hafi verið að byrja með þessa dagskrá á Húsavík og halda því opnu að útvíkka verkefnið inn á austursvæðið síðar meir ef kallað yrði eftir því.

„Grunnhugmyndin sem við vinnum út frá er að vera með okkar eigið starfsfólk sem sér um að halda utan um skráningu og vera eins konar heimahöfn fyrir krakkana en ákváðum síðan að taka inn verkefni sem eru í boði í bænum. Að fá einstaklinga, hópa eða félög til að taka krakkana að sér, í einn dag í senn eða hluta úr degi. Ég get nefnt sem dæmi; crossfit. Þá mætum við með krakkana ásamt tveimur leiðbeinendum og það eina sem aðstandendur crossfit-greinarinnar þurfa að gera er að setja upp prógramm fyrir ákveðið marga krakka í senn,“ útskýrir Kjartan og nefnir Jóga, útiveru, brjóstsykurgerð, siglingar og fleira sem hugmyndin er að bjóða krökkunum upp á.

„Við búum líka svo vel að við erum komin með starfsfólk sem er menntað í Tómstunda- og félagsmálafræði og með kennaramenntun. Við erum s.s. með mjög fært starfsfólk núna og ætlum að nýta okkur það síðan ætlum við að veiða inn af því sem er í gangi í bænum eins og ég nefndi. Það má segja að það sé hliðarmarkmið hjá okkur með þessu að það fólk sem stendur að þeirri afþreyingu sem við viljum bjóða upp á fái þarna ákveðna æfingu í að halda námskeið fyrir þennan aldurshóp. Vonandi verður það til þess að auka áhuga jafnt hjá krökkunum sem og námskeiðahöldurum.  Kannski leiðir það til þess að næsta vetur eða næsta sumar þá taka þessir aðilar af skarið og verða með lengri námskeið, s.s. krakka-crossfit eða krakka-jóga.“

Kjartan segist vonast til þess að verkefnið beri árangur en er alveg undir það búinnn að það taki meira en eitt sumar að búa til nýjar hefðir sem festist í sessi.  “Ég vona að það takist að búa til eftirspurn eftir þessu „einhverju öðru“ sem oft er kallað eftir.  Við erum auðvitað með Völsung sem er sterkt og öflugt íþróttafélag en svo eru alltaf einhverjir sem finna sig ekki alveg í boltaíþróttunum og þessum hefðbundnu greinum. Þá vantar eitthvað annað. Það er líka hugsunin á bak við þetta, að búa grundvöll fyrir prógrammi sem býður upp á meiri fjölbreytni.“

Þá bendir Kjartan á það að reynslan sé sú af frístundastarfinu að það séu freka yngstu börnin sem nýti sér úrræðin. „Já, 3-4 bekkur hefur minna viljað vera með. En það var eitt af markmiðum okkar að hafa þetta það fjölbreytt að eldri krakkarnir hangi inni.“