„Nálgun bókarinnar hefur haft mikil áhrif á hvernig ég síðar hef stúderað þjóð-og mannfræði“

Bókin mín: Jan Aksel Harder Klitgaard

Jan Aksel Harder Klitgaard

Ég les aðallega fræðibækur og þegar maður les fræðibækur les maður yfirleitt alltaf nokkrar bækur í einu. Eins og stendur eru þrjár bækur á borðinu hjá mér; Thinking, Fast and Slow eftir sálfræðinginn Daniel Kahneman, Shamans Trough Time: 500 years on the Path to Knowledge sem er greinasafn um hvernig vestrænir fræðimenn hafa skrifað um shamana undanfarin 500 ár. Svo glugga ég annað slagið í Naturen í Danmark: Skovene sem ég tók með mér heim frá Danmörku í þarsíðustu viku.

Sú bók sem mest áhrif hefur haft á mig er skáldsagan Reindeer Moon eftir bandaríska mannfræðinginn Elizabeth Marshall Thomas, sem ég las fyrst á níunda áratug síðustu aldar. Sú bók fjallar um unga stelpu og stutta jarðvist hennar fyrir 30.000 árum í Síberíu og líf hennar sem andi og fylgja ættbálks hennar. Það sem mér finnst svo merkilegt við þessa bók er að hún byggir á mannfræðilegum rannsóknum og er skrifuð út frá sjónarhorni „frumstæðs“ fólks þar sem andar eru náttúrulegur hluti af tilverunni.

Nálgun bókarinnar hefur haft mikil áhrif á hvernig ég síðar hef stúderað þjóð-og mannfræði.