Nokkur orð frá Versölum

Anný Peta Sigmundsdóttir skrifar


Undirrituð settist niður á annars ágætum fimmtudegi og las í gegnum nýúgefið Víkurblaðið þann daginn. Eftir að vera komin áleiðis í gegnum blaðið, er komið að grein sem undirrituð viðurkennir að stundarkorn tók að átta sig á inntakið greinarinnar, eða réttara sagt hver skotspónn hennar var. Verandi bæði umhugsunarsamur samfélagsþegn sem þykir vænt um sitt heimaþorg og fólkið sem skapar það og að auki samkvæmt umræddi grein, einnig Prinsessan á Versölum (þar sem faðir minn er sjálfur Sólkonungurinn), get ég vart orða bundist. Mín trú hefur verið sú að nú árið 2019 væri mannskepnan orðin það þróuð að hún gæti átt samskipti og komið orðum sínum til skila án þess að grípa til meiðyrða í fjölmiðlum.

Ef við leggjum til að byrja með alla niðrandi orðanotkun til hliðar sem notuð var í umræddri grein, skulum við líta á um hvað málið snýst, því rétt skal vera rétt. Í fyrsta lagi hafði höfundur greinarinnar aldrei samband við þann mikla einræðisherra sem hann lýsir svo sterkt, til þess að fá upplýsingar um stöðu málsins sem um ræðir, þ.e. uppsetningu hraðahindrunar á Uppsalavegi . Rakið er í grein þessarri hvar málið stoppar og hvers vegna. Í sama blaði birtisti stutt svar er ber heitið „Athugasemd vegna aðsendrar greinar“ þar sem umræddum skotspónum greinarinnar, þ.e. bæjarverkstjóra, var gefið færi á að svara stuttlega. Það skal þó tekið fram að á þeim tímapunkti hafði sá hinn sami enga vitneskju um allt það orðfæri sem haft var um hann persónulega. Í athugasemd tekur hann m.a. það skýrt fram að „allt starfsfólk á framkvæmda og þjónustusviði Norðurþings væri allt af vilja gert til að finna lausnir til að stemma stigu við vaxandi umferðarhraða..“ 

Í öðru lagi hafði verkbeiðni frá nefndarfundi ekki borist framkvæmda- og þjónustufulltrúa fyrr en Sveitastjóri hafði spurst fyrir um málið (þ.e. í nóvember síðastliðinn). Strax í kjölfar þeirrar fyrirspurnar hafi hinsvegar verið ráðist í framkvæmdina. Ekki ætlar undirrituð að eyða orðum í vinnslu málsins, enda óþarfi. Líklega er einhvers staðar pottur brotinn í skipunaferlinu, frá erindi viðkomandi nefndar og niður að framkvæmd verksins. Ljóst er þó að valdið sem höfundur gefur Sólkonungi, eins og hann orðar það, er á engum rökum reistur og grundvöllur þess sem höfundur byggir efnið sitt á er í besta falli afar óstöðugt, svo ekki sé meira sagt. Þegar höfundurinn álítur án frekari upplýsingaröflunar, að það muni vera aðeins geðþótti eins starfsmanns, sem stoppar þessa framkvæmd og telji jafnframt að slík hegðun skuli varla verða liðin í rekstri sveitarfélags án einhverra eftirmála, sér undirrituð sér ekki annað fært en verða málssvari að svo alvarlegri persónulegri herferð sem minnir helst á frásögn úr Grettissögu.

Ef gagnrýna á ferli sem þetta, sem öllum þegnum samfélagsins er frjálst, ef framkvæmt á málefnalegum nótum, þurfa staðreyndir að liggja ljósar fyrir. Með því víkur undirrituð hér með aftur að lykilefni þessarar greinar, þ.e. ekki hvað átti sér stað og hvenær í uppsetningu hraðahindrunar á Uppsalavegi, heldur framsetningu – eða jafnvel ásetningi höfundar fyrri greinar. Það er með öllu ólíðandi að hafa svo niðrandi orð um þann sem ritað er að borið sé við persónur með alvarlegar persónuleikaraskanir eða siðblindu með meiru. Svo eru orðin vel valin af munni höfundar að sjálf kýs undirrituð að hafa þau ekki eftir og gefa þeim þannig þann hljómgrunn sem þau eiga engan veginn skilið. Minn ásetningur er ekki að fara niður á það plan sem höfundur ritar frá, þar sem það er öllum velviljuðum þegnum ósæmandi í því samfélagi sem við vijum lifa og ala upp börnin okkar.

Það jú ljúft að láta sig dreyma, en minn draumur er sá að lifa í samfélagi þar sem opinberar persónuárásir teljast liðin tíð. Það er því trú mín að greinarhöfundi hafi sett niður með framsetningu máls síns þar sem að stóryrði réðu för frekar en raunveruleg tilraun til upplýsingaröflunar .

Versalir hyggjast ekki taka frekari þátt í umræðunni á þessu plani.

Anný Peta Sigmundsdóttir.