Vinna við 11,5 kílómetra vegarkafla milli Hljóðakletta og Dettifoss fer í útboð eftir helgi en það er RÚV sem greinir frá þessu.

Samkvæmt fréttinni er stefnt er að því að vegurinn verði fær öllum bílum fyrir veturinn. En íbúar og atvinnurekendur í Öxarfirði hafa beðið lengi eftir að vegurinn verði kláraður.

Framkvæmdir við Dettifossveg hófust árið 2009 en síðan hafa hagsmunaaðilar í Þingeyjarsýslum og víðar reynt að þrýsta á stjórnvöld að klára veginn enda vegtengingin mikilvæg íbúum og ferðaþjónustuaðilum á stóru svæði á Norðurlandi eystra.

RÚV greinir jafnframt frá því að Vegagerðin stefni á að afhenda útboðsgögn vegna síðasta áfanga vegarins eftir helgi og að vonir standi til þess að vegurinn verði orðinn fær öllum bílum fyrir veturinn.