Jónas Halldór Friðriksson, framkvæmdastjóri Völsungs. Mynd /epe

Íbúum í Norðurþingi sem eru af erlendu bergi brotnir hefur fjölgað mjög undan farin ár. Á það við um einstaklinga sem dvelja til skemmri tíma á svæðinu vegna vinnu en einnig um fólk sem hyggst setjast að í sveitarfélaginu.

Iðnaðaruppbygging á Bakka er óumdeilanlega stærsta breytan í þessari þróun ásamt örum vexti í ferðaþjónustu. Víkurblaðið fór því á stúfana og spurði Jónas Halldór Friðriksson framkvæmdastjóra Völsungs hvort börn þessara nýju Þingeyinga væru að skila sér af krafti inn í íþróttastarfið hjá félaginu?

„Ég held að það sé óhætt að segja að það hafa ekki margir úr þessum hópi skilað sér inn í íþróttastarfið. Það er að sjálfsögðu öllum opið að koma en því miður hefur það ekki verið að skila sér,“ segir Jónas og kallar eftir því að sveitarfélagið móti sér skýrari stefnu í þessum málum og kynni það sem í boði er og aðgengi að því enda sé starfið öllum opið.

Kjartan Páll Þórarinsson, íþrótta og tómstundafulltrúi Norðurþings tekur að mestu leiti undir með Jónasi þó hann viti ekki hverjar tölurnar eru á bak við þetta. „Þetta trend erum við að sjá á landsvísu,“ segir hann og bendir á máli sínu til stuðnings að seint á síðasta ári hafi hann sótt ráðstefnu um þessi mál í Reykjavík. Þar var sérstaklega gert að umtalsefni að eitt póstnúmer í Höfuðborginni skar sig all verulega úr að því leiti að nýting frístundastyrkja var áberandi lakari en annars staðar. Í póstnúmerinu sem um ræðir er hlutfall innflytjenda mun hærra en í öðrum hverfum og styður það við þær grunsemdir að þessi hópur barna er að skila sér síður inn í þetta starf.