Nú klukkan ellefu í morgun hófst stór hópslysaæfing þar sem allir viðbragðsaðilar á svæðinu æfa viðbrögð við stóru sjóslysi á Skjálfanda. Hjálmar Bogi Hafliðason sagði í samtali við Víkurblaðið á ellefta tímanum í dag að allt væri að verða klárt fyrir æfinguna. Leikarar sem eru um 40 talsins hafi mætt klukkan átta í morgun í morgunmat, förðun og lokaundirbúning. Hjálmar Bogi segir jafnframt að undirbúningur fyrir æfinguna hafi byrjað fyrir um ári síðan, öll hvalaskoðunarfyrirtækin hafi tekið virkan þátt í undirbúningnum, lánað aðstöðu, búnað og mannskap.
Hreiðar Hreiðarsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Húsavík hefur stýrt undirbúningnum og stýrir aðgerðum í dag.
Varðskipið Týr var eins og glöggir Húsvíkingar hafa eflaust tekið eftir, bundið við bryggju á Húsavík í gær en fyrirhugað var að varðskipið tæki þátt í æfingunni. Neyðarkall barst hins vegar frá rækjutogaranum Sóleyju Sigurjóns, þegar eldur kom upp í vélarrúmi skipsins í gærkvöldi. Varðskipið Týr var kallað á staðinn sem sendi menn um borð í togarann til að kanna aðstæður, ekkert amar að áhöfninni. Múlaberg er með Sóleyju í togi á leið til Akureyrar, þar sem þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, hefur verið til taks í nótt eftir að hafa híft tvo skipverja um borð í nótt.
Ekkert verður því af því að Týr taki þátt í æfingunni í dag, það verður heldur engin þyrla á æfingunni eins og til stóð enda þyrlan einnig í útkalli vegna atviksins um borð í Sóleyju.
Ítarlega verður fjallað um æfinguna í Víkurblaðinu #13 sem kemur út á fimmtudag