Greinin birtist fyrst í Víkurblaðinu #7


Kristján Þór
Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur heilbrigðisráðuneytið og sveitarfélögin Norðurþing, Skútustaðahreppur, Tjörneshreppur og Þingeyjarsveit gert með sér samkomulag um að standa saman að byggingu 60 rýma hjúkrunarheimilis á Húsavík sem áætlað er að verði tekið í notkun á vormánuðum ársins 2021. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings undirrituðu samning þessa efnis á dögunum.

Nýja hjúkrunarheimilið hefur verið lengi í umræðunni og mun það  leysa af hólmi dvalar- og hjúkrunarheimilið Hvamm á Húsavík sem tekið var í notkun árið 1981. Húsnæði þess er orðið gamalt og uppfyllir ekki nútímakröfur hvað varðar skipulag og aðbúnað íbúa, en hlutverk þess hefur breyst talsvert á undanförnum árum og notað í auknum mæli sem hjúkrunarheimili þó að það sé ekki hannað sem slíkt.  Nýja hjúkrunarheimilið verður reist á lóð við Skálabrekku 21. Með tilkomu nýja heimilisins fjölgar núverandi hjúkrunarrýmum um sex.

„Þetta mun valda straumhvörfum í hjúkrunarþjónustu fyrir aldraða á svæðinu,“ segir Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings í samtali við Víkurblaðið. „Aðstaðan sem við höfum í dag er auðvitað að langflestu leiti barn síns tíma en við búum sem betur fer að góðum mannauði á Hvammi og sem gerir gott úr þeim aðstæðum sem það hefur yfir að ráða.“

Um það bil hér mun nýtt hjúkrunarheimili rísa.

Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdina er um 2,2 milljarðar króna og mun ríkið greiða 85  prósent kostnaðarins en sveitarfélögin 15 prósent.

Fyrsta verk starfshóps um verkefnið sem í eiga sæti fulltrúar ráðuneytisins og sveitarfélaganna, verður að vinna áætlunargerð og fullnaðarhönnun hjúkrunarheimilisins í samráði við Framkvæmdasýslu ríkisins.

Miðað er við að verkleg framkvæmd hefjist í byrjun árs 2020 og að taka megi heimilið í notkun á vormánuðum 2021 líkt og áður segir.

Kristján Þór er að vonum ánægður með samkomulagið við ráðuneytið. „Mikilvægasta skrefið í þessu ferli er að samkomulag hafi náðst um með hvaða hætti eigi að gera þetta en allar opinberar framkvæmdir fara til nefndar sem heitir Samráðsnefnd um opinberar framkvæmdir. Málið verður tekið fyrir á næsta fundi nefndarinnar og þá vænti ég þess að verkefninu verði hrundið af stað og í kjölfarið fer ákvörðunarferli í gang hvort það verði farið í hönnunarsamkeppni um framkvæmdina en stærsta skrefið er stigið.“

Aðspurður um það hvort einhver forvinna hafi átt sér stað nú þegar segir hann: „Við erum farin af stað með skipulagsvinnuna og við reiknum með að það verði tenging frá nýja hjúkrunarheimilinu við bæði sjúkrahúsið og Hvamm.“

Kristján segist vel geta tekið undir vangaveltur fólks um að byggingartíminn sem áætlaður sé í verkið geti  virst stuttur og ítrekar að það sé komið frá ráðuneytinu. „Vonandi gengur þetta eftir en mér þykir líklegra að þetta verði nær áramótunum 2021-2022.

Þá tekur Kristján fram að notkun á húsnæði Hvamms til framtíðar hafi lengi verið til umræðu innan stjórnar dvalarheimilisins

„Við í stjórn Hvamms höfum haft væntingar til þess í langan tíma að Hvammur verði áfram Þjónustumiðstöð við aldraða hvað varðar dagvist, endurhæfingu og fjölgun búseturéttaríbúða sem við  viljum gera meira úr fyrir elstu íbúa svæðisins. Við höfum verið að skoða þá möguleika sem eru í stöðunni. Sveitarfélögin eiga Hvamm skuldlaust en það liggur fyrir að við förum í ákveðna uppstokkun á þessu búseturéttarkerfi samhliða þessari uppbyggingu og vonandi náum við að bæta það frá því sem er. Það eru spennandi tímar framundan,“ segir hann og bætir við að lokum:

„Ég er að vonast til þess að við getum ráðist i endurbætur á allri endurhæfingaraðstöðunni strax á þessu ári, hún verði stækkuð og gerð nýtískulegri. Einnig erum við að hefja vinnu með ráðgjöfum um það hvaða möguleika til framtíðar við höfum varðandi notkun á húsinu. Það munu sveitarfélögin og stjórn Hvamms ræða samhliða uppbyggingu á nýju húsi.“