Undirbúningur Leikfélags Húsavíkur á uppsetningu leikverksins Bar par eftir Jim Cartwright er hafinn. Fyrstu samlestrar eru afstaðnir og búið að velja í hlutverk. Leikstjóri uppsetningarinnar er Fanney Vala Arnórsdóttir.

Leikritið Bar par gerist á bar í smábæ á Norður-Englandi. Þessi ónefndi bar sem einkum er frægur fyrir það „að annað hvort kemur fólk í pörum eða það fer í pörum”. Áhorfendur fá tækifæri til að sjá og upplifa eina kvöldstund í lífi hjónanna sem eiga og reka staðinn en einnig koma við sögu fjöldi gesta á öllum aldri.
Hjónin virðast við fyrstu sín hata hvort annað – hún daðrar skammlaust við alla gestina og drekkur út gróðann á meðan hann reynir að hafa stjórn á hlutunum. Skrautlegir og óvæntir gestir setja strik í reikninginn og hafa mikil áhrif á þau hjónin. Þegar kemur að lokun barsins um kvöldið bresta allar stíflur með óumflýjanlegu uppgjöri hjónanna á skuggalegum harmleik fortíðarinnar. Það er svo sannarlega spilað á allan tilfinningaskalann í þessari leiksýningu.

Benóný Valur Jakobsson leikur eitt af sex hlutverkum sýningarinnar. Hin hutverkin eru í höndum Sigurðar Illugasonar, Friðriks Marínós Ragnarssonar, Jónu Bjargar Arnardóttur, Karenar Erludóttur og Kolbrúnar Ödu Gunnarsdóttur. „Þetta er snilldar hópur. Verkið er reyndar skrifað þannig það eru bara tveir leikarar sem leika öll hlutverkin en við gerum þetta svona og bætum auk þess við það talsverðri tónlist,“ segir Benóný.