Þarfagreining og stefnumótun í íþrótta- og tómstundamálum

Helena Eydís Ingólfsdóttir skrifar

Helena Eydís Ingólfsdóttir skrifar


Eitt þeirra atriða sem ratað í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins í Norðurþingi í aðdraganda kosninga og síðar í málefnasamning meirihluta sveitastjórnar í Norðurþingi var að fram færi þarfagreining fyrir aðstöðu til íþrótta- og tómstundaiðkunar í sveitarfélaginu og í kjölfar slíkrar greiningar yrði sett fram áætlun um uppbyggingu og endurbætur íþróttamannvirkja.

Í Norðurþingi er um margt ágæt aðstaða til hverskyns íþrótta- og tómstundaiðkunar. Þar má til dæmis nefna knattspyrnuvelli, golfvelli, íþróttahús og sundlaugar. Margt hefur verið vel gert í uppbyggingu aðstöðu til íþrótta- og tómstundaiðkunar í sveitarfélaginu fram til þessa og í sumum tilfellum verið byggt af mikilli framsýni. Kröfur nútímans og þarfir eru aftur á móti aðrar og því kemur að þeim tímapunkti að byggja þarf nýja aðstöðu eða gera endurbætur á eldri aðstöðu í takt við þær.

Ljóst er að margir í samfélaginu horfa til uppbyggingar skíðasvæðis á Reyðarárhnjúki, tómstundaaðstöðu fyrir börn og ungmenni og félagsaðstöðu fyrir íþróttafélög. Sjálf hef ég þá sýn á samfélagið að við sem störfum í sveitarstjórn ættum á hverjum tíma að leggja okkur sérstalega fram um að bjóða börnum og ungmennum upp á besta mögulega aðstöðu og aðbúnað til íþrótta- og tómstundaiðkunar. Það gildir einnig að fullorðið fólk sem stundar sína íþrótt og er í fremstu röð meðal jafningja þarf að hafa góðar og samkeppnishæfar aðstæður til slíks enda fyrirmyndir hinna sem yngri eru. Við hin sem stundum hreyfingu okkur til heilsubótar og ánægju þurfum líka okkar rými, aðstöðu og gott aðgengi.

Það getur hins vegar verið flókið en jafnframt skemmtilegt verkefni að vera sveitastjórnarmaður sem þarf að taka ákvörðun um forgangsröð fjármuna þegar kemur að uppbyggingu íþrótta- og tómstundaaðstöðu eða endurbótum á þeirri aðstöðu sem er fyrir hendi. Skilaboðin sem við fáum eru meðal annars að það sé afar mikilvægt að byggja upp skíðasvæðið, við þurfum ungmennahús og tómstundaaðstöðu barna- og ungmenna verði að bæta, það vanti 25 m sundlaug, þörf sé á betri aðstöðu til fimleika- og frjálsíþróttaiðkunar. Vissulega er allt framantalið mikilvægt og því fer fjarri að um tæmandi upptalningu sé að ræða.

Til þess að við sem störfum í sveitarstjórn fáum skýrar leiðbeiningar um forgangsröðun í uppbyggingu íþrótta- og tómstundaaðstöðu sem og varðandi aðbúnað íbúa til íþrótta- og tómstundaiðkunar fyrir fjárhagsáætlanir komandi ára er mikilvægt að samtal fari fram við alla þá hópa sem stunda hvers kyns íþróttir og tómstundir í sveitarfélaginu. Hvort sem um er að ræða íþróttastarf á afrekststigi, hreyfifærni meðal barna á leikskólaaldri, íþrótta- og tómstundastarf barna og ungmenna, almenningsíþróttir eða tómstundastarf eldri borgara. Í kjölfar þessara samtala komum við okkur saman um forgangsröð og setjum fram áætlun um það hvernig sveitarfélagið hyggst standa að uppbyggingu aðstöðu til íþrótta- og tómstundaiðkunar og endurbótum á þeirri aðstöðu sem þegar er til staðar í sveitarfélaginu. Samtímis verður unnið að stefnu um íþrótta- og tómstundastarf.

Önnur sveitarfélög hafa þegar stigið þau skref sem framundan eru í Norðurþingi. Má til dæmis nefna þá vinnu sem er um margt til mikillar fyrirmyndar og hófst fyrir um 10 árum síðan í Grindavík. Þar var unnin þarfagreining á aðstöðu til íþrótta- og tómstundaiðkunar, aðstaða fyrir íbúa Grindavíkur var borin saman við aðstöðu íbúa í sveitarfélögum af áþekkri stærð (m.v. mannfjölda) og sett fram áætlun um uppbyggingu íþrótta- og tómstundamannvirkja til 8 ára. Þeirri áætlun hefur verið fylgt ásamt því að unnin var stefna í íþrótta- og tómstundamálum. Sú stefna hefur verið endurnýjuð a.m.k. einu sinni og er núverandi stefna í gildi til 2020. Kjarni þeirrar stefnu sem rekin hefur verið í Grindavík er meðal annars að auka þátttöku barna og ungmenna í íþrótta- og tómstundastarfi og draga úr brottfalli þegar unglingsárin færast yfir. Meðal aðgerða var að setja á eitt æfingagjald vegna íþróttaiðkunar barna og unglinga innan UMFG. Með því varð börnum og ungmennum heimilt að taka þátt í öllum þeim íþróttum sem boðið er upp á innan félagsins. Þetta er ein leið til að auka þátttöku barna og ungmenna í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Mörg sveitarfélög hafa í sama tilgangi farið þá leið að veita frístundastyrki og er Norðurþing meðal þeirra.

Það var afar ánægjulegt að sveitarstjórn Norðurþing skyldi samþykkja samhljóða á fundi sínum þann 21. febrúar síðastliðinn að leggja í þessa vegferð að greina þarfirnar og móta stefnuna. Ljóst er að framundan er mikil og spennandi vinna. Við munum vonandi sem flest úr hópi íbúa koma að borðinu, taka þátt í vinnunni við mótun stefnu sveitafélagsins í íþrótta- og tómstundamálum og hafa áhrif á hvað þarf að byggja upp og í hvaða röð þegar kemur að aðstöðu til íþrótta- og tómstundaaðstöðu innan Norðurþings.

Höfundur er fulltrúi D-lista í sveitastjórn Norðurþings