Eiginkona ritstjórans, Birgitta Káradóttir eer honum ætíð innblástur og hefur ósjaldan bjargað honum frá harmleikjum hvatvísinnar.

Leiðari


Það getur verið snúið og reynt á heilasellurnar að láta sér detta í hug eitthvað sem vert er aðskrifa um í leiðara. Ég hef lært það í gegnum tíðina að þegar ég er búinn að króa sjálfan mig af úti í horni, sköpunarlega séð þá er það bara konan mín sem getur vísað mér veginn.

Leiðari 1
Egill P. Egilsson

Fyrir tveimur kvöldum síðan upplifði ég mig í þessu horni og spurði konu mín sposkur á svip: „Hvað brennur á þér elskan mín?“ Hún var fljót til svars: „Það brennur andskotann ekkert á mér annað en höfgi, hættu þessum gátum og leyfðu mér að sofa.“

Ég hefði líklega átt að taka fram að þetta kvöld var eiginlega orðið að nóttu og við löngu skriðin upp í rúm. Ég á við þann löst að stríða að átta mig ekki alltaf á því að þó ég liggi andvaka með sveimhuga minn á fullu blasti, þá á það sama sjaldnast við um konu mína. Hún er ekkert fyrir það að liggja andvaka.

Ég náði nú samt að vekja áhuga hennar og hún beindi mér á rétta braut. „Skrifaðu eitthvað jákvætt, ekki vera með þetta eilífa nöldur alla tíð. Það þarf ekki alltaf að gagnrýna allt og alla. Finnurðu ekki hvað bærinn er að vakna til lífsins, daginn tekin að lengja og veitingastaðirnir að opna, Baukurinn og Naustið og fullt um að vera. Fullt af fólki úti öll kvöld um helgar.“

Eins og venjulega hefur þessi elska lög að mæla. Það er áþreifanlegt hvað lífið verður léttara og skemmtilegra þegar birtustundum fjölgar og það hefur óneitanlega góð áhrif á fólk. Hlutir sem áður voru leiðinlegir og þungbærir verða skyndilega að einhverju sem engin ástæða er til að kvíða fyrir, heldur getur maður hlakkað til þeirra, eins og til dæmis verkfalla. Svo er það auðvitað ákaflega mikil lyftistöng fyrir húsvískt mont að Akureyringar eru farnir að streyma til bæjarins helgi eftir helgi. Ef fram heldur sem horfir gætu Húsvíkingar orðið hamingjusamir í raun og veru,- eins og Mývetningar.

En svona í fullri alvöru þá er það svo mikils virði að búa svo vel að hafa leiðsögn frá manneskju sem maður elskar alla daga. Það er líka vandasamt að hlúa að slíkum lífsgæðum. Það er líka fátt jafn auðvelt og að taka lífsgæðum sínum sem sjálfsögðum hlut en um leið og maður gerir það þá tapa þau gliti sínu og sjarma.

Aftast í blaðinu fjalla ég um frumsýningu Leikfélags Húsavíkur á uppfærslu sinni á BarPar. Þar geri ég einmitt að umtalsefni hversu kraftmikil sýningin er. Að hún fjalli um mannlega bresti sem við öll könnumst við. Það er svo dýrmætt fyrir öll samfélög að búa við slíka menningu, afþreyingu og listir sem vekja mann til meðvitundar. Hrista doðann úr þjakaðri sálinni. Það gerði þessi sýning fyrir mig. Ég fór heim og velti fyrir mér sársaukanum sem býr innra með mér, kvíðanum og sjálfstraustinu sem stundum er eins og lauf í vindi. Ég áttaði mig á því hvað það er tilgangslaust að eyða orku í að reyna bæla þetta allt niður, því harmurinn og voðinn er eins og vatnið. Það finnur sína leið og glufur. Ég ákvað þess í stað að horfast í augu við brestina, samþykkja þá en jafnframt að einsetja mér að stíga upp úr þeim.

Það eitt að taka svona andlegar ákvarðanir með sjálfum sér er eflaust eins og trúarleg hugljómun. Makinn verður fallegri og skemmtilegri að umgangast. Barnaskrímslin eru allt í einu ekki jafn mikil skrímsli, árekstrarnir í fjölskyldulífinu verða viðráðanlegir og lausnir birtast á færibandi. Það er því ögn kaldhæðnislegt þegar ég rita þessi orð um miðja nótt, sex tímum áður en prentvélarnar verða ræstar; að gjöfin sem ég ætla að gefa sjálfum mér, börnunum og lífsförunaut mínum er meiri tími. Hann þarf ekki endilega að vera mældur í tíma, heldur gæðum. Það held ég að sé lykilatriði til að finna hamingju að vera allur til staðar þegar maður á að vera til staðar, ekki með hugann við eitthvað allt annað. Farðu nú eftir því sem þú ert að lesa, leggðu frá þér blaðið rétt á meðan fjölskyldan er öll á sama stað. Þú getur alltaf notað vinnutímann í að lesa þessa þvælu.

Enn og aftur takk

Ég verð rétt að lokum að þakka enn og aftur fyrir þær frábæru viðtökur sem þetta blað hefur fengið. Eftir að ég auglýsti í fyrsta sinn á samfélagsmiðlum eftir frjálsum framlögum til að styrkja fjölmiðlun í heimabyggð létu viðbrögðin ekki á sér standa og fjölmargir hafa nú þegar skráð sig í Val-Áskrift. Án ykkar væri ég líklega búinn að gefast upp. Ástar þakkir.

Smellið Hér Til Að Styrkja