Umhverfisverkefni án hliðstæðu – Skútustaðahreppur sýnir metnað í að draga úr kolefnisspori sínu

Þemaumfjöllun Víkurblaðsins #10: Kolefnisjöfnun

Skútustaðahreppur
Mynd: Hörður Jónasson

Skútustaðahreppur og 13 rekstraraðilar vinna nú eftir umbótaáætlun í fráveitumálum sem

Þorsteinn Gunnarsson, Sveitarstjóri Skútustaðahrepps

samþykkt var af Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra á síðasta ári um tímasetta og fjármagnaða áætlun um úrbætur. Í skriflegu svari Þorsteins Gunnarssonar, sveitarstjóra Skútustaðahrepps við fyrirspurnum Víkurblaðsins um málið, kemur fram að í umræddri umbótaáætlun sé tilgreint fyrir hvaða tíma sveitarfélagið og rekstraraðilar muni fullnægja kröfum um ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa þar sem við á. „Vegna ríkrar sérstöðu Mývatns og Laxár, lútir sveitarfélagið Skútustaðahreppur strangara regluverki um fráveitur og skólp en sveitarfélög almennt. Unnið er eftir þessari áætlun sem byggir á nýrri lausn. Hún felst í aðskilnaði svartvatns (frá salernum) og grávatns, söfnun svartvatns í lokaðan tank og endurnýtingu næringarefna til uppgræðslu á Hólasandi í samstarfi við Landgræðsluna,“ útskýrir Þorsteinn.

Umbótaáætlunin er að sögn Þorsteins fjármögnuð að fullu, m.a. með 180 milljóna króna framlagi ríkisins, framlagi sveitarfélagsins og rekstraraðila. „Meginmarkmiðum er skipt upp í áfanga til næstu fjögurra ára en jafnframt er horft til lengri tíma með fullvinnslu,“ segir hann og bætir við að umbótaáætlun sé í raun orðin að umhverfisvænu stórverkefni í Mývatnssveit þar sem á sjálfbæran hátt sé verið að nýta seyru til uppgræðslu á stað þar sem næringarefni skortir.

Verkefnið nýtist sveitarfélaginu og fyrirtækjum sem vilja draga úr kolefnisspori sínu með því að græða upp land, Sveitarstjórn hefur þegar samþykkt að kolefnisjafna starfsemi sína og er undirbúningur þess hafinn að sögn Þorsteins.  „Landgræðslan dregur með þessu móti úr notkun á tilbúnum áburði til uppgræðslu ár hvert og með innkaupum sveitarfélagsins og rekstraraðila á vatnssparandi salernum sparast mikið magn af  vatni.“

Vatnssparandi salerni er framtíðin í Mývatnssveit

Í Umbótaætluninni er gengið út frá að alls staðar verði notast við vatnssparandi salerni og lokaðan safntank. „Okkar framtíðarsýn er að sveitarfélagið Skútustaðahreppur og rekstraraðilar verði til fyrirmyndar í fráveitumálum til að lágmarka áhrif mannsins á lífríkið í Mývatni,“ segir Þorsteinn.

Hér má sjá svipað salerni og sett verða upp Skútustaðahreppi. Salernin draga verulega úr vatnsnotkun.

Í svari Þorsteins kemur fram að ráð sé gert fyrir því að stærstu stofnanir sveitarfélagsins  ásamt ferðaþjónustuaðilum verði fyrstir til að endurnýja salernis- og fráveitukerfi sín. Umbótaáætlunin er til fjögurra ára og miðar að því að við lok tímabils verði markmiði um 75% heildarlækkun á köfnunarefni og fosfór náð, sbr. reglugerð um fráveitur og skólp nr. 798/1999.

„Þar með er hægt að gefa sér lengri tíma til að auka hreinsunina á síðustu 25 prósentunum hvað varðar heildarlækkun á köfnunarefni og fosfór sem aðallega eru heimili og minni rekstraraðilar. Þegar eru tveir rekstraraðila komnir inn í nýja kerfið. Unnið er að hönnun á safntanki á Hólasandi og grófhreinsibúnaði sem fer fljótlega í útboð og hefst uppbygging á Hólasandi í sumar. Jafnframt byrjar Landgræðslan að plægja niður svartvatn í sumar,“ útskýrir Þorsteinn.

Helgi Héðinsson oddviti og Guðjón Vésteinsson skipulagsfulltrúi skoða geymslutank fyrir svartvatn og hvernig staðið er að dælun og hreinsun. Mynd: skutustadahreppur.is

Þetta verkefni á sér ekki hliðstæðu hér landi en það hefur verið unnið í samvinnu við Umhverfisstofnun og heilbrigðiseftirlitið. „Meðal annars fórum við í ferð til Uddevalla í Svíþjóð þar sem unnið er eftir sambærilegu kerfi og sannfærðumst um að við erum á réttri leið með þetta verkefni. Fleiri sveitarfélög með viðkvæma viðtaka fylgjast grannt með gangi mála,“ útskýrir sveitarstjórinn og bætir við að með fram þessu verkefni verði ráðist í að byggja nýja götu í Reykjahlíð sem verði sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. „Allar íbúðirnar verða tengdar inn á nýtt fráveitukerfi þar sem gert er ráð fyrir aðskilnaði grávatns og svartvatns.“

Betra umhverfi – allra hagur

Þorsteinn segir að þar sem Landgræðslan fái afhentan verðmætan lífrænan áburð og umhverfisvænt verkefni til að vinna með hljóti þetta allir að hafa hag af þessu uppgræðsluverkefni. „Verðmæti svartvatnsins sem fer á Hólasand er umtalsvert og hleypur á milljónum á ári, einnig sparast innfluttur tilbúinn áburður. Sveitarfélagið uppfyllir lagalegar skyldur sínar og kemur á fót heildstæðu verkefni og leysir fráveitumál í sveitarfélaginu. Leggur á fráveitugjald vegna tæmingu og flutnings seyru sem rekstraraðilar munu greiða samkvæmt gjaldskrá. Rekstraraðilar munu uppfylla þær kröfur sem settar eru um þriggja þrepa hreinsun skólps og geta haldið áfram uppbyggingu og leggja til verðmæti í svartvatni til uppgræðslu á Hólasandi. Ríkið kemur að málum á verndarsvæði Mývatns og Laxár með ábyrgum hætti, leggur Landgræðslunni til stuðning við uppgræðsluverkefni og nýtir fjármagn á vistvænan og sjálfbæran  hátt til uppgræðslu. Hér liggja svo augljós tækifæri fyrir fyrirtæki, ríkisvaldið og sveitarfélagið í að nýta uppgræðsluna til kolefnisjöfnunar. Með því að skipta út hefðbundnum salernum fyrir vatnssparandi salerni (vacuum) sparast allt að því 80% af vatnsnotkun þegar sturtað er niður og fjárfestingin er mun minni en ráðgert var í fyrri Umbótaáætlun þar sem gert var ráð fyrir stórum og miklum hreinsistöðvum og aðkoma ríkisins því hóflegri, lækkar úr 500-700 m.kr. í um 200 m.kr. stofnkostnað,“ segir Þorsteinn að lokum.