Veðuráhugamaður frá Tjörnesi var með vorið á hreinu

Þemaumfjöllun Víkurblaðsins #16

Útsýnið frá Stangarbakkanum er engu llíkt. Mynd: Sigfús Sigfússon

Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson, bóndi á Ketilsstöðum á Tjörnesi er eins og hann á kyn til mikill áhugamaður um veður og þykist jafnvel með fróðari mönnum um tíðarfar.

Í lok apríl ritaði Aðalsteinn hugleiðingu á Facebook um tíðarfarið sl. vetur og kom jafnframt með spá um framhaldið sem hann gaf Víkurblaðinu góðfúslegt leyfi til að vitna í:

Aðalsteinn J. Halldórsson er með glöggari mönnum um veður. Mynd/Framsýn

„Haustið og veturinn fram að áramótum var afar góður tími veðurfarslega séð. Það kom smá snjósprengja í byrjun nóvember en eftir það allt að því fordæmalaus hlýindi fram að áramótum. Það gat nú eiginlega ekki annað verið en að veðrið færi versnandi eftir þann kafla og sú varð raunin. Veðrið í janúar og út mars var frekar leiðinlegt. Kalt og vindasamt en þó ekki með mikilli úrkomu. En heilt yfir alls ekkert útivistarveður. Í apríl hefur hins vegar verið ótrúlega gott veður og yrði ég ekki hissa ef þetta kemur til með að verða hlýjasti apríl frá því að mælingar hófust.

Ég sem sauðfjárbóndi er því uggandi. Samkvæmt mínum fræðum veit þetta á slæmt veður í maí og jafnvel út júní. Ég spái því hér með að það muni snjóa í það minnsta helming daga í maí og kaldri slyddu snemma í júní.“

Það er óhætt að segja að Aðalsteinn hafi hitt vel í mark með spá sína. Blaðamaður Víkurblaðsins tók hann tali og ræddi við hann um veðuráhugann.

„Áhuga minn á veðri má helst rekja til þess hvað maður hefur alla tíð verið háður því í hinu daglega amstri. Búandi þar sem maður býr liggur það í augum uppi að veðrið spilar þó nokkuð inn í lífsins raunir,“ útskýrir Aðalsteinn.

Veðurpistlana segist Aðalsteinn helst skrifa þegar líður að vori. „Eins og gefur að skilja hefur fólk mestan áhuga á veðrinu á þeim tíma þegar sumarið er að nálgast. Við Bændur erum sérstaklega áberandi í þessari umræðu og þá er mesti hitinn í mönnum á þessum tíma. Manni er svona nokk sama hvernig veðrið er í desember, janúar og febrúar en á öðrum árstíðum eins og á vorinn spilar veðrið stærri rullu og svo auðvitað á haustin fyrir göngur og í kringum rjúpnaveiðar.“

Aðalsteinn fór heldur ekki leynt ánægju sína af því að spá hans fyrir vorveðrið hafi verið svo nákvæm eins og raunin varð. „Ég hitti bara nokkuð beint í mark Það snjóaði einhverjum þremur dögum minna í maí en ég átti von á,“ sagði hann og reyndi að hljóma hóvær og bætti svo við:  „Heilt yfir var þetta svipað og ég átti von á. Að maí yrði  svona sveiflukenndur og júní myndi byrja illa og það varð raunin. Ég er hins vegar nokkuð bjartsýnn varðandi restina af sumrinu. Ég held að það sé ágætis jafnvægi á þessu.“

Það er einmitt jafnvægi sem Aðalsteinn byggir helst á í sínum spádómum. „Ég byggi allar mínar spár á því að leita eftir jafnvægi. Ef það kemur gott veður á þeim árstíma þegar ekki á að koma gott veður eins og var núna í apríl. Þá finnst mér að það jafnist út með verra veðri þegar annars ætti að vera gott veður. Ef apríl er góður, þá er ég yfirleitt hræddur um framhaldið, vorið og fram í júlí.“