Hleðsluveggur utan lóðar við Hafnarstétt 13, Flókahús i eigu Gentle Giants hvalaferða ehf. (GG) fer líklega í sögubækurnar sem umdeildasti veggur sveitarfélagsins Norðurþings.

Hleðsluveggur norðan við Flókahús við Hafnarstétt. Veggurinn austan við húsið fær að standa áfram. Mynd/epe

Veggurinn og frágangur í kringum hann náði út fyrir lóðarmörk og var eiganda fasteignarinnar gert að fjarlægja veggin á sinn kostnað samkvæmt ákvörðun skipulags og byggingafulltrúa Norðurþings í september á síðasta ári. Stefán Guðmundsson, framkvæmdastjóri GG kærði úrskurðinn til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála síðar í sama mánuði.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar lá fyrir í desember sl. en sá úrskurður féll sveitarfélaginu í vil í öllum atriðum.

„Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Norðurþings frá 6. september 2018 um að óleyfisframkvæmdir utan lóðarmarka Hafnarstéttar 13 skuli fjarlægðar og gengið frá röskuðu landi utan lóðarmarka.

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Norðurþings frá 25. september 2018 um að fjarlægja skuli óleyfisframkvæmdir utan lóðarmarka Hafnarstéttar 13 á kostnað lóðarhafa,“ segir í úrskurðarorðum en niðurstöðuna má lesa í heild sinni hér

Að lokum komust málsaðilar að samkomulagi um málalyktir sem felst í því að hluti hleðsluveggjarins fái að standa.

„Á 29. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs kynnti skipulags- og byggingarfulltrúi drög að samkomulagi um frágang hleðsluveggjar utan lóðar umhverfis fasteignina að Hafnarstétt 13. Drögin gera ráð fyrir að norðurveggur hleðslu verði færður til þeirrar staðsetningar sem áður hafði verið heimiluð, en að austurveggur fái að standa þar til mögulegar tilteknar aðstæður kalli á annað.

Skipulags- og framkvæmdaráð gat fyrir sitt leyti fallist á þær tilhliðranir við lóðarhafa Hafnarstéttar 13 sem tillagan gengur út frá og lagði til við sveitarstjórn að sveitarstjóra verði heimilað að ganga frá samkomulaginu fyrir hönd sveitarfélagsins,“ segir í fundargerð frá sveitarstjórnarfundi 16. apríl sl.

Fyrirliggjandi samkomulag var samþykkt samhljóða.

Nú í vikunni hófust framkvæmdir við að fjarlægja norðurvegginn. Aðspurður um hvort framkvæmdirnar væru liður í ofangreindu samkomulagi sagði Stefán Guðmundsson að það hafi ekki verið skrifað undir neitt samkomulag en að þetta hafi verið niðurstaða málsins og bætti við að honum þætti hún ákaflega sorgleg.