Umsjón: Sigrún Aagot Ottósdóttir

Greinin er liður í þemaumfjöllun Víkurblaðsins #5: Félagslíf í Þingeyjarsýslum. Greinin kemur þó eingöngu út á vefnum.


Eyþór Ingi Kárason er formaður nemendafélagsins á Laugum. Hann segir að meðalaldurinn í framhaldsskólanum sé 17 og hálft ár. Þá er ekki við öðru að búast en að félagslífið sé í blóma, því eins og máltækið segir; er þetta ungt og leikur sér.

„Félagslífið á Laugum einkennist auðvitað af því, að allir þekkja alla. Við lærum leikum og lifum saman. Við hittumst mikið í setustofum og inni á herbergjum á vistinni og skólinn er alltaf opinn á daginn, síðan er íþróttaaðstaðan mjög góð“, segir Eyþór.

Eyþór segir að helsti kostur þess að vera í heimarvistarskóla sé að þá læri nemendur að lifa burtu frá foreldrum sínum en samt í utanumhaldi fólks sem þykir vænt um þau. „Samfélagið er mjög samheldið því við fórum saman í gegnum allt í blíðu og stríðu og þekkjum hvert annað út í gegn“.

Hvernig er vistarlífið á Laugum?

„Vistarlífið er yndislegt, allir vita allt um alla. Eftir skóla fara flestir upp á vist þar sem við hópumst saman; förum í íþróttahúsið eða borðtennis, horfum á nýjasta þáttinn af Ófærð eða horfum á enska boltann“, segir Eyþór.

„Við reynum að halda í gamlar hefðir en aðlögum þær alltaf að nýjum tímum. Eins og afmælis-Sæmundur, sem er hefð sem við vorum að endurlífga“, segir Eyþór, en þá kaupir nemendafélagið íspinna fyrir alla og afmælisbörn mánaðarins fá að „rjóma“ meðlimi Nemendafélagsins, eða að kasta rjóma framan í þau.

„Laugadraumurinn er önnur hefð sem við höldum fast í. Þar keppast vistirnar um að skora stig með því að framkvæma hluti sem eru settir fyrir, eins og að baka bananabrauð í heimahúsi, fara í 30 boli og spila eina holu í golfi nakinn.“

Það er nóg um að vera hjá nemendum skólans; þorrablót, sundlaugarpartý, Super Bowl og söngkeppni framhaldsskólanna.

Eyþór segir að síðustu mánuðir hafi farið í undirbúning fyrir Tónkvísl. „Tónkvíslin er 23. febrúar, það er stærsta undankeppnin fyrir söngkeppni framhaldsskólanna á Íslandi“. Þá stendur nemendafélagið einnig fyrir þorrablóti, sundlaugapartýi og ætla þau að horfa saman á Super Bowl.