Viðtal: „Það eru jólin frá því í júlí, segir eiginmaður minn”

- Eftir áramót tekur júróvisjón við

Sigga Hauks
Jólabarnið Sigga Hauks í skemmtilegu jólaviðtali. Mynd/epe

Sigríður Hauksdóttir, eða Sigga Hauks er tveggja barna móðir sem hefur búið sér heimili að Uppsalavegi á Húsavík ásamt eiginmanninum Röðli Rey Kárasyni og strákunum þeirra, Hauki Kára (6 ára) og Björgvini Rúnari (4 ára). Sigga er engin venjuleg kona, ó, nei! Þegar hún er ekki í vinnunni hjá félagsþjónustu Norðurþings, þá er hún að undirbúa jólin. Hvað er svona óvenjulegt við það nú í desember? Gæti einhver spurt. Ekkert!, Nema hvað þessi undirbúningur hefst þegar laufin byrja að falla af trjánum á haustin, jafnvel fyrr. Sigga bauð mér, undirrituðum í kaffi á dögunum og kynnti mig fyrir jólagleði sinni.

Það voru ekki nema þrír og hálfur sólarhringur í að ég ætti að skila 2. tölublaði Víkurblaðsins af mér og ég ekki búinn að finna viðmælanda fyrir opnuviðtalið, verkefnin farin að hrannast upp og farin að þyngjast á herðum ritstjórans – þegar því var hvíslað að mér að Sigga Hauks gæti verið áhugavert viðtalsefni. „Hún er jóla-brjálæðingur,“ sagði hvíslið. Ég stökk á þessa hugmynd, enda kannast ég við téða Siggu og get vottað að hún er skemmtileg og gefur mikið af sér með útgeislun sinni. Ég setti mig í samband við hana og hún var ekki lengi að samþykkja að bjóða mér í kaffi.

Sigga Hauks
Björgvin Rúnar og Haukur Kári njóta aðventunar með mömmu sinni.

Ég skal þó viðurkenna að ég hafði mínar efasemdir um að viðtal, einvörðungu byggt á ástríðu einnar manneskju fyrir undirbúningi jólanna væri efni í heilt opnuviðtal; sannarlega áhugavert efni en varla á tvær síður. Jæja, ég hef nú lært það í gegnum tíðina að það má alltaf fylla uppí með myndum. En Jeremías minn hvað mér skjátlaðist, þetta er í raun efni í heila bók sem er of þykk til að lesa uppi í rúmi eða Netflix–þáttaröð fyrir þá sem engu nenna að fletta.

Undarleg tilfinning á útitröppunum

Ég fann strax einhverja orku þegar ég gekk upp tröppurnar að heimili Siggu. Ég vissi ekki alveg strax hvaða tilfinning þetta var sem helltist þarna yfir mig en þegar ég bankaði á hurðina og Sigga kom til dyra, þá vissi ég það. Þetta var engin annar en Jóla-andinn sem hafði lekið út um bréfalúguna sem var frosin föst í hálfa gátt,- og helltist yfir mig af fullum þunga.

Sigga iðaði öll í skinninu og bauð mér inn. Heimili þeirra Röðuls er ákaflega fallegt, hlýtt og notaleg. Fullkomin blanda af nútíma hönnun og heimilislegum fortíðarstíl. Ég þurfti að flýta mér að setjast í sófann og kveikja á upptökunni því Sigga var ekki á þeim buxunum að bíða mikið eftir því að ræða sitt uppáhalds málefni. Hún var byrjuð mala og fór mikinn.

„Þeir sem þekkja mig best segja að árið hjá mér skiptist í tvö tímabil: Það eru jólin frá því í júlí segir eiginmaðurinn og svo eftir áramót tekur júróvisjón við,“ segir Sigga sem er einnig mikill aðdáandi söngvakeppninnar evrópsku og svo virðist sem henni leiðist aldrei. „Reyndar eignaðist ég barn 23. nóvember og mér finnst sem ég geti ekki verið á kafi í jólunum þegar hann á afmæli og skreyti þess vegna ekki fyrr en hann er búinn að eiga afmæli,“ útskýrir hún hlæjandi og leggur áherslu á að afmælisskrautið verði að fá að njóta sín. Svo viðurkennir hún að jólaskreytingar hófust að jafnaði mun fyrr í þátíð.

Er fordómalaus á jólatónlist

„Þetta er auðvitað söfnunarárátta. Ég á örugglega einhverja 70 jóla-geisladiska sem ég hef safnað að mér. Þess vegna þarf ég að byrja strax með haustinu að hlusta á þetta, því ég á svo mikið. Svo er ég mjög veik fyrir öllu jólaskrauti og ég elti það uppi hvert sem ég fer erlendis,“ segir Sigga og flissar sjálf af tilhugsuninni um því hvernig hún lætur í útlöndum, skimandi eftir jólabúðum. „Svo ég tali nú ekki um plötubúðirnar, þegar ég kíki í þær hef ég að sjálfsögðu alltaf í huga hvort maður geti ekki fjárfest í einhverri góðri jólaplötu,“ bætir hún við og segir engu máli skipta hvort hún sé í heitu löndunum um mitt sumar, jólin eru alltaf með henni í anda. „Svo þegar ég kem heim verð ég auðvitað að byrja að hlusta á þetta, ég get ekkert beðið,“ segir hún ákveðin og skellir upp úr.

Sigga segir frá því að það skemmi ekkert fyrir að stundum virðist sem þau renni aðeins saman júró- og jólalögin. „Þetta er eiginlega soldið sami pakkinn,“ segir hún og skellir upp úr aftur og alls ekki í síðasta sinn. „Þó að ég sé ekki alæta á tónlist almennt, þá er ég mjög fordómalaus þegar kemur að jólatónlist. Ég hlusta á ólíklegustu hluti ef það heitir bara jólalag,“ segir hún og, jú skellir upp úr,- það fylgir eiginlega hverjum punkti, hláturinn í Siggu, hafið það bara í huga þegar þið haldið áfram lestrinum.

Kóngurinn er konungur jólanna

Þegar ég spyr Siggu hvort hún eigi sér eitthvað uppáhald þegar kemur að jólatónlist, þá er eins og það færist yfir hana heilög andakt. Hún lútir höfði og lækkar róminn í lotningu. „Já, það verður nú að segjast að jólin koma ekki á mínu heimili nema hlustað sé á Elvis Presley. Hann hringir inn jólin á heimili föður míns og það erfði ég frá honum, en pabbi er gríðarlegur jólamaður.“

Sigga Hauks
Sigga segist elska að föndra,þó hún kunni það í raun alls ekki.

Þegar hér er komið sögu læt ég í ljós vanþekkingu mína og verð á að spyrja hvort Elvis hafi gefið út meira en eina jólaplötu. „Jájájájájá… Elskan mín,“ segir hún, stekkur á fætur og ég búin að missa hana í einhverja vitleysu. Hún er farin að gramsa í öllum hirslum og ég á fullt í fangi með að fylgja henni eftir til að ná henni á upptöku, því hún þagnar ekki á meðan hún gramsar, ó,- nei.

Svo dregur hún upp geisladisk sem hún greinilega heldur mikið upp á, en þetta er diskur þar sem nokkrar söngdífur syngja dúetta með Kónginum. „Alveg dásamlegur diskur, þetta hlustum við Haukur [pabbi hennar] á í dag alveg grimmt og við systur. Þetta er svona fjölskyldu diskur,“ segir Sigga og bætir við að Elvis sé efstur á sínum vinsældalista á undan Hauki Morthens. Og með því er hún rokin á fætur enn og einu sinni og heldur áfram fyrri iðju sinni við að gramsa.

„Morthens klikkar ekki,“ kallar Sigga upp úr gramshirslunni, og kemur aðvífandi til baka með eitthvað góss í höndunum. „Og strákarnir mínir elska hann því hann syngur barnalögin líka,“ segir hún. Svo hægist aftur á röddinni þannig að hún verður nánast að hvísli, dregur upp enn einn jóladiskinn og segir full aðdáunar: „Þessi kom út 2009 og ég held að þetta sé uppáhalds jóladiskurinn minn; þetta er (á innsoginu) Bob Dylan. Við faðir minn höfum tekið miklu ástfóstri við þennan disk. Ég heyrði þetta í útvarpinu á sínum tíma og rauk út í búð og keypti hann. Síðan er hann eiginlega búinn að vera á fóninum.“

Eiginmaðurinn svitnar þegar jólatónleika-vertíðin byrjar

Sigga Hauks
Jóla hvað…?

Eitt af því sem einkennt hefur íslenska aðventu undanfarin ár er jólatónleikavertíðin. Hún Sigga okkar ljómar þegar jólatónleikar berast í tal, og þó ljómaði hún fyrir. „Baggalútur skipar að sjálfsögðu stóran sess á aðventunni. Ég fór einmitt á tónleika á Akureyri um daginn og reyni að fara alltaf ef þeir eru á ferðinni og í jólagraut Baggalúts, Hjálma og Memfismafíunnar.“

Ég spyr hana hvort það fylgi þessari jólaást hennar að mæta á sem flesta viðburði tengda jólunum? Þá lokar hún augunum, snýr höfðinu í örlitla sveigju niður á bringu og hvíslar á innsoginu: „Já, þetta er alveg skelfilegt,“ og þá er brosið komið fram á varirnar aftur og síðan hláturinn sem fyllir hvert rými. „Áður en ég veit af er ég búin að yfirbóka mig svo mikið, að eiginmaðurinn svitnar. Þeir fara oft snemma í sölu þessir jólatónleikar og ég er búin að kaupa þá ansi marga áður en ég veit af. Það hefur gerst að ég hef setið á tónleikum sem byrjuðu klukkan 20 og aftur klukkan 22. Þá sat ég áfram en skipti bara um samferðarfólk.“ Og nú vildi ég að þið heyrðuð hláturinn í henni.

Ég vildi þá vita hvort hún hafi tvíbókað sig fyrir slysni og þóttist viss um jákvætt svar. „Nei nei, ég vissi að þetta þurfti að gerast (já, hún sagði þetta; ÞURFTI). Ég fór með vinnufélögunum því ég elska að fara með fólki á jólatónleika. Svo vildu fjölskyldumeðlimir fara líka, þannig að ég náði að kreista það í gegn að það yrðu seinni tónleikarnir. Þannig að ég sat þarna í gegnum tvenna tónleika en náði að hlaupa út í pásu þar sem mamma beið og færði mér eina samloku. Svo hélt ég áfram; svona eru jólin,“ útskýrði hún.

Alin upp við mikla jólagleði

„Ég ólst upp í bakaríi í Hveragerði. Þar hófst kökubaksturinn mjög tímanlega og laufabrauðið tekið, því það var mikið að gera. Þá var öll fjölskyldan saman í laufabrauðinu, bræður pabba, amma og afi. Aðventan einkenndist af mikilli samveru öll jólin. Aðfangadagur, jóladagur, annar í jólum, gamlárs, nýárs: Við vorum bara saman út í eitt,“ útskýrir Sigga með bernskuglampa í augunum og minnist þess að pabbi hennar hafi spilað mikið af tónlist og það hafi verið hlustað fram eftir öllu, farið á jólaböll og tónleika. „Svo vorum við það heppin að móðurafi minn var í millilandasiglingum og hann kom alltaf með alls konar góss frá Ameríkunni… jólagóss! Hann kom með öðruvísi jóladagadagatöl og ákveðið nammi, sem enn þann dag í dag þarf að vera til á jólunum, t.d. Hersey´s kossarnir, svo var alltaf kók í dós. Kjötið kom meira segja að utan. Svo voru gjafirnar eftir því, það voru veglegar gjafir.“

Eiginmaður par excel…

Eiginmaðurinn, er hann svipað jólabarn?

„Sko! Það er svo skemmtilegt að segja frá því. Það eru ekki jafn sterkar jólahefðir hjá honum, því mamma hans var oft að vinna á aðfangadagskvöld og þeir feðgar borðuðu oft með henni í vinnunni. En hann gerir grín að mér og þykist búa með jólabrjálæðingi. En hann hefur lúmskt gaman af þessu og það er hann sem tryggir að við förum í Dimmuborgir að hitta jólasveinana. Hann hefur líka komið upp samverujóladagatali sem hann býr til, jóladagatal fjölskyldunnar. Hann hefur gert jólakortin síðustu ár með strákunum og hann sér um að pakka inn gjöfunum því hann er mjög listrænn og vill hafa þær frumlegar og skemmtilegar.“ Ég held að það sé allt í lagi að það komi fram hér að Sigga ljóstraði upp um kvíðastjórnunartæki eiginmannsins Röðuls, en það er meira en bara að segja það, að henda reiður á öllu umstanginu í kringum þessar löngu aðventur. Röðull er s.s. búinn að venja sig á að setja jólin og aðventuna upp í excel og er skjalið orðið nokkuð staðlað þannig að auðvelt er að nota það aftur ár eftir ár.

Sigga Hauks
Fastur liður í jolaundirbúningnum er að fara í Dimmuborgir að hitta jólasveinana

Eins og fram hefur komið hefst jólaundirbúningurinn með fyrra fallinu hjá Siggu, enda vill hún að öllu sé lokið fyrir aðfangadag. „Í minningunni var aðfangadagur alltaf skemmtilegastur á náttfötunum fyrir framan sjónvarpið að horfa á jólabarnaefni. Við höfum leyft strákunum að opna gjafir í hádeginu og það hefur ofan af fyrir þeim þangað til við förum til mömmu og pabba. Ég hef aldrei verið annars staðar en hjá pabba á aðfangadag, hann eldar og það er mjög mikilvægt. Við hópumst þar saman og hjálpum til með Elvis á fóninum. Begga systir hefur svo fengið að halda áramótaveisluna.“

Jólabarninu Siggu þykir sjálf aðventan skemmtilegasti tíminn við jólahaldið. „Við höfum alls konar hefðir í kringum aðventuna. Ég og systur mínar, mamma og pabbi reynum að gera alltaf eitthvað saman á hverjum sunnudegi, þannig að það er rosa stíf dagsskrá,“ segir hún og flýtir sér að bæta við að uppáhaldsaðventudagurinn hennar er verkstæðisdagurinn í Borgarhólsskóla. „Ég hef einhvern vegin náð, sama hvar ég hef unnið – og meira að segja barnlaus, komið mér hjá vinnu á þessum degi og sótt það grimmt að komast á verkstæðisdaginn. Ég reyni að fara í allar stofur að skoða og fer á kaffihúsið. Núna er ég loksins komin með dreng í skóla sem ég get fylgt eftir,“ lýsir hún sigri hrósandi yfir.

Sigga hefur einnig unnið um árabil hjá Miðjunni en þar hefur hún getað beitt jólaástríðunni. „Ég kom því á að við héldum jólamarkað og við byrjuðum að undirbúa hann í ágúst. Í ár hófum við reyndar undirbúninginn í janúar, þetta er svo mikil vinna. En það fyndna er að ég kann ekkert að föndra,“ segir hún og… skellir upp úr.

Skammdegið erfitt, báðar vikurnar

Sigga viðurkennir að tíminn eftir jól sé erfiður, spennufallið sé það mikið. „Enda njótum við jólanna alveg fram á þrettándann, við förum á brennuna og það er partí hérna heima. Svo hef ég jólaljósin uppi nánast fram á vor. Það er mikilvægt að trappa sig niður,“ segir Sigga og það hálf dimmir yfir hana á meðan hún hugsar um þessar erfiðu vikur eftir jólaglysið. „En sem betur fer er söngvakeppnin snemma. Ég á kannski 30 júróvision diska og byrja bara að hlusta á þá snemma. Svo líða ekki nema svona 2 vikur þangað til að júróvision vertíðin hefst,“ segir Sigríður Hauksdóttir, jólaunnandi.

Viðtalið birtist fyrst í 2. tölublaði Víkurblaðsins sem kom út 19. desmber.

Egill P. Egilsson

egill@vikurbladid.is