Vildu banna óbólusettum börnum að sækja leikskóla

Undirskriftalisti tekinn fyrir í fjölskylduráði Norurþings

Ljósmynd: @twinshenanigans/ Twenty20

Fjölskylduráð Norðurþings tók til umfjöllunar á fundi sínum í vikunni sem leið ósk um að börn sem ekki hafa hafið bólusetningarferli, verði ekki tekin inn á leikskóla sveitarfélagsins og að gerð verði krafa um að öll börn innan leikskólanna séu bólusett til að fá þar inngöngu.

„Fjölskylduráði hefur borist listi með 80 undirskriftum þar sem óskað er eftir að börn sem ekki hafa hafið bólusetningarferil verði ekki tekin inn í leikskóla sveitarfélagsins. Ráðið þakkar bréfriturum og þeim sem skrifuðu undir listann fyrir erindið. Þeir sem rita undir listann eru flestir foreldrar leikskólabarna á Húsavík. Síðan undirskriftarlistinn barst hafa einnig borist fyrirspurnir til sveitarfélagsins frá foreldrum barna í öðrum leikskólum innan sveitarfélagsins. Sambærileg erindi hafa auk þess borist öðrum sveitarfélögum og verið tekin til afgreiðslu þar.,“ segir í fundargerð ráðsins.

Ráðið hefur beint fyrirspurn varðandi málið til skrifstofu sveitarstjórnarmála í Innanríkisráðuneytinu og frestar afgreiðslu þar til álit hefur borist.

Benóný Valur Jakobsson varaformaður Fjölskylduráðs sagði í samtali við Víkurblaðið að ráðið tæki heilshugar undir áhyggjur undirritaðra og þeirra sem leitað hafa til sveitarfélagsins vegna málanna. Hann sagði að mikilvægt væri að  tryggja að öll börn í leikskólum sveitarfélagsins séu bólusett og stuðla þannig að öryggi þeirra og að lífsgæðum þeirra væri sem best borgið. Hann benti líka á að bólusetningar séu hins vegar ekki skyldaðar með lögum í dag og hendur sveitarfélagsins því bundnar.

„Við skoðuðum þetta mjög vel en það er búið að taka svipuð mál fyrir í fleiri sveitarfélögum og allir komast að þeirri sömu niðurstöðu að það sé enginn lagalegur grundvöllur fyrir því að meina börnum aðgangi að leikskóla á forsendum þessum, að vera ekki bólusett. Við sendum samt sem áður bréf á innanríkisráðuneytið þar sem við óskuðum eftir leiðbeiningum í þessu máli, en við erum enn að bíða eftir svari við því bréfi en það eru yfir tvær vikur síðan við sendum það,“ útskýrir Benóný Valur

Hann segir jafnframt að  Reykjavíkurborg hafi vissulega komist að þeirri niðurstöðu að það stæði í lögum að sveitarfélög hefðu algjört forræði yfir leikskólum og gætu því á þeim grundvelli sett þær reglum sem þeim sýndist hverju sinni. „En á móti kemur að persónuverndarlög leyfa það ekki að við vitum nokkuð um það hvaða börn eru bólusett og hvað börn eru það ekki og persónuverndarlögin trompa bara allt annað,“ segir hann og ítrekar að ekki sé bundið í lög á Íslandi að foreldrar bólusetji börn sín.

Þessi umræða hefur reglulega skotið upp kollinum undanfarin ár en athygli vakti fyrir tveimur árum þegar varaformaður bæjarráðs Kópavogs lýsti því yfir að hún teldi að stundum þyrfti persónuhelgi að víkja fyrir almannaheill. Varaformaðurinn lét í kjölfarið lögmenn bæjarins kanna möguleika á því til dæmis hvort bærinn gæti safnað upplýsingum um bólusetningar barna í bænum og hvort heimilt væri að deila upplýsingum um óbólusett börn og að lokum hvort bærinn gæti gert þá kröfu að leikskólabörn framvísi bólusetningarvottorði. Niðurstaðan var sú að ekkert af þessu er heimilt.